Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í gær að ríki Evrópu myndu senda hermenn til Úkraínu eftir að vopnahlé á milli Úkraínumanna og Rússa tekur gildi til þess að tryggja það að vopnahléið muni halda. Sagði Macron að herliðið yrði sent til Úkraínu hvort sem Bandaríkjamenn veittu því stuðning eða ekki.
Ummæli Macrons féllu í kjölfar leiðtogafundar í París þar sem leiðtogar um þrjátíu Evrópuríkja ræddu m.a. mögulega þátttöku í „bandalagi hinna viljugu þjóða“, sem hyggst tryggja friðinn með herliði undir forystu Breta og Frakka.
Macron sagði að herliðið yrði sent til mikilvægra svæða í Úkraínu en þó ekki til víglínunnar sjálfrar. Þá bætti Macron við að ekki ríkti einhugur um þá áætlun að senda herlið til Úkraínu en tók fram að slíkur einhugur þyrfti ekki að ríkja áður en farið yrði af stað í verkefnið.
Macron vék einnig orðum að mótbárum Rússa, sem hafa hafnað því að herlið frá Evrópu fari til Úkraínu eftir að vopnahlé tekur gildi og sagði Macron einfaldlega að Rússar myndu ekki fá að ráða því.
Í máli Macrons kom fram að Bretar og Frakkar myndu senda fulltrúa herja sinna til Úkraínu á næstunni til þess að ræða bæði hvar og hvernig slíkt herlið gæti nýst best, og um hvernig Úkraínuher ætti að líta út í framtíðinni.
Vilja herða á refsiaðgerðum
Forsætisráðherra Breta, Keir Starmer, sagði á blaðamannafundi sem hann hélt með Volodimír Selenskí Úkraínuforseta að leiðtogarnir hefðu verið sammála um að nú væri ekki rétti tíminn til þess að aflétta refsiaðgerðum gegn Rússlandi, heldur væri frekar ástæða til þess að herða nú á þeim enn frekar til þess að knýja Rússa að friðarborðinu.
Olaf Scholz Þýskalandskanslari tók í sama streng fyrr um daginn og sagði að það myndu vera „alvarleg mistök“ að aflétta refsiaðgerðunum án þess að nokkurt vopnahlé hefði tekið gildi, en fyrr í vikunni var greint frá því að Bandaríkjastjórn hefði samþykkt að aðstoða Rússa við að aflétta vissum refsiaðgerðum af útflutningsvörum þeirra í landbúnaði.
Selenskí sagði á blaðamannafundinum með Starmer að það væru „hættuleg skilaboð“ til Rússa sem hefðu borist frá viðræðum Rússa við Bandaríkjamenn í Sádi-Arabíu um afléttingu refsiaðgerða.
Sagði Selenskí jafnframt ljóst að Pútín Rússlandsforseti vildi reka fleyg á milli Bandaríkjanna og Evrópu, og að Úkraínumenn vildu að Bandaríkin sýndu af sér meiri styrk gagnvart Rússum. Sakaði hann Rússa um að hafa brotið gegn samkomulagi um að láta af árásum á orkuinnviði Úkraínu, og sagði að Bandaríkin ættu að bregðast við slíkum árásum Rússa.