[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tinna Brá var 21 árið 2005 þegar hún keypti sína fyrstu íbúð. Hún segir að tímarnir hafi breyst frá þessum tíma. Spurð að því hvernig hún hafi safnað sér fyrir íbúð segist hún ekki hafa safnað neinu

Tinna Brá var 21 árið 2005 þegar hún keypti sína fyrstu íbúð. Hún segir að tímarnir hafi breyst frá þessum tíma. Spurð að því hvernig hún hafi safnað sér fyrir íbúð segist hún ekki hafa safnað neinu. Bankarnir voru æstir í að lána fólki peninga á árunum fyrir hrun og Tinna Brá naut góðs af því.

„Það var engu safnað. Við tókum 100% lán og fengum 10% auka starfsmannalán hjá Arion. Þetta var í boði árið 2005. 10% auka fór í að gera íbúðina upp,“ segir Tinna Brá og hlær og bætir við:

„Þetta var alveg galið,“ segir hún.

Varstu að vinna í Arion banka á þessum tíma?

„Nei, fyrrverandi maður minn var þar, ég var í arkitektanáminu í Listaháskólanum en vann með skólanum hjá JKE Design að teikna innréttingar. Ég var svo heppin að fá gott starfsmannaverð þar og teikna vandað eldhús og baðherbergi,“ segir Tinna.

Íbúðin sem Tinna keypti var 120 fm að stærð og kostaði 16.500.000 kr.

„Við tókum auka 1.500.000 kr. lán fyrir parketi og innréttingum,“ segir hún og bætir við:

„Við seldum hana svo rúmu ári seinna á 23.700.000 kr. Okkur fannst það mjög góð ávöxtun.“

Síðan þá hefur Tinna verið í ýmsu fasteignabrasi.

„Ég er búin að gera upp tvö risastór hús, eiga hæðir og parhús yfir í litla blokkaríbúð. Ég er einmitt í fasteignahugleiðingum núna og langar alls ekki í stórt hús aftur. Það er búið að vera svo gott að búa í lítilli íbúð aftur í tæp fimm ár tveimur börnum ríkari. Núna langar mig samt aftur í stórt eldhús til að njóta mín í eldamennskunni og skella mér svo í heitt bað,“ segir Tinna sem fann ástina á ný eftir skilnað í örmum Ara Eldjárn uppistandara.

Höf.: Marta María Winkel Jónasdóttir |