Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Sjö Íslendingar hafa undanfarið starfað sem brellumeistarar við tökur á stórmynd Christophers Nolans, Ódysseifskviðu, í Grikklandi. Tökum er lokið þar í landi og von er á hópnum heim. Hefst þá undirbúningur fyrir tökur á hluta myndarinnar hér á landi í sumar.
Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær fara tökur á Ódysseifskviðu fram hér í júní. Þær fara fram á Suðurlandi og verða afar umfangsmiklar samkvæmt upplýsingum blaðsins. Myndin er sú stærsta sem Óskarsverðlaunaleikstjórinn Nolan hefur gert, kostar litlar 250 milljónir dollara. Meðal aðalleikara eru Matt Damon og Anne Hathaway sem einmitt léku undir hans stjórn í Interstellar sem gerð var hér á landi fyrir rúmum áratug.
Eftirsóttir starfskraftar
Fyrir íslenska hópnum í Grikklandi fer Eggert Ketilsson, leikmyndahönnuður og brellumeistari, sem þekktur er í kvikmyndabransanum undir nafninu Eddi sprengja. Þetta er fimmta mynd Christophers Nolans sem Eggert vinnur að. Sú fyrsta var Batman Begins sem tekin var að hluta hér á landi. Þá vann Eggert að leikmynd myndarinnar og síðan þá hefur leikstjórinn virti ítrekað leitað til hans í starf listræns stjórnanda. Nú ber svo við að Eggerti er falið að sjá um brellurnar í þeim hlutum myndarinnar sem teknir eru á Grikklandi og á Íslandi. Titill hans er „Special effects supervisor“.
Með Eggerti í íslenska hópnum eru þekktir menn úr bransanum hér heima, „brellumenn Íslands“, eins og einhver hefur kallað þá. Þeir eru Bjarni Grímsson, Gunnar Kvaran, Freyr Ásgeirsson, Sveinn Jónsson, Atli Þór Þorgeirsson og Steingrímur Ingi Stefánsson.
Ekki náðist í Eggert við vinnslu fréttarinnar en samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafa Íslendingarnir unnið náið með öðrum brellumönnum frá Ítalíu, Bretlandi og Bandaríkjunum. Fluttu þeir meðal annars með sér stóran tækjapakka frá Íslandi til að nota við tökur á myndinni.
Ekki er algengt að Íslendingar séu kallaðir til starfa við erlendar stórmyndir nema vitaskuld þegar tökur fara fram hér á landi. Umfang kvikmyndaframleiðslu hér á landi hefur hins vegar aukist hratt síðustu ár og með því þekking og reynsla innan bransans.