Gatnamót Framsókn vill undirgöng.
Gatnamót Framsókn vill undirgöng. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er mikilvægt að tryggja öryggi bæði gangandi og hjólandi vegfarenda en jafnframt að umferðin gangi vel fyrir sig,“ segir Aðalsteinn Haukur Sverrisson borgarfulltrúi Framsóknarflokksins

„Það er mikilvægt að tryggja öryggi bæði gangandi og hjólandi vegfarenda en jafnframt að umferðin gangi vel fyrir sig,“ segir Aðalsteinn Haukur Sverrisson borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Aðalsteinn lagði fram tillögu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í vikunni um að gerð yrðu undirgöng á gatnamótum Sæmundargötu og Hringbrautar. Eins og kom fram í Morgunblaðinu á miðvikudag var samþykkt í ráðinu í vikunni að borgaryfirvöld hæfu samtal við Vegagerðina um að setja upp nýja ljósastýrða gangbraut á umræddum gatnamótum. Sem kunnugt er má finna aðra gangbraut rúmlega 100 metrum norðar, við Þjóðminjasafnið.

Í tillögunni segir að undirgöng á þessum stað myndu leysa ákveðinn „flæðisvanda gangandi og hjólandi vegfarenda og tryggja öryggi þeirra til muna“, eins og það er orðað. Afgreiðslu tillögunnar var frestað á fundi ráðsins fram í næstu viku.

Borgarfulltrúinn segir í samtali við Morgunblaðið að þessi tillaga eigi sér nokkurn aðdraganda. Ósk frá nemendum við HÍ um nýja gangbraut hafi komið inn á borð borgarfulltrúa þegar Framsóknarflokkurinn var í meirihluta. Hann kveðst ekki hafa verið hlynntur því að gera ætti aðra gangbraut skammt frá annarri slíkri og lagt til að koma samtalinu í áttina að undirgöngum.

„Þau myndu bæta flæði fyrir gangandi og hjólandi án þess að drepa flæði umferðar. Hringbrautin er náttúrlega þjóðvegur í þéttbýli og tenging við annað sveitarfélag. Þetta er vissulega kostnaðarsamari útfærsla en ég tel að það sé þess virði svo að öllum líði vel.“ hdm@mbl.is