Álfrún Helga Örnólfsdóttir
Álfrún Helga Örnólfsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Afhending íslensku hljóðbókaverðlaunanna, Storytel Awards 2025, fór fram í gærkvöldi en þau voru veitt í fimm flokkum auk þess sem veitt voru sérstök heiðursverðlaun. Dómnefndir höfðu það að leiðarljósi að líta heildstætt á hvert verk þar sem…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Afhending íslensku hljóðbókaverðlaunanna, Storytel Awards 2025, fór fram í gærkvöldi en þau voru veitt í fimm flokkum auk þess sem veitt voru sérstök heiðursverðlaun.

Dómnefndir höfðu það að leiðarljósi að líta heildstætt á hvert verk þar sem vandaður lestur á góðu ritverki getur bætt miklu við upplifun lesandans. Því voru ekki aðeins rithöfundar verðlaunaðir heldur einnig lesarar hljóðbókanna.

Að undangenginni almenningskosningu í janúar fóru tilnefndar bækur fyrir sérstakar fagdómnefndir. Elva Ósk Ólafsdóttir, leikkona og lesari hjá Storytel, var formaður þeirra en dómnefndir skipuðu auk hennar þau Árni Árnason og Ingibjörg Iða Auðunardóttir fyrir skáldsögur og glæpa- og spennusögur, Aníta Briem, Kristjana Mjöll Hjörvar Jónsdóttir og Vera Illugadóttir fyrir ljúflestur og rómantík og óskáldað efni, og þau Jóhann Sigurðarson, Rebekka Sif Stefánsdóttir og Bragi Páll Sigurðarson fyrir börn og ungmenni.

Bestu bækurnar

Valskan eftir Nönnu Rögnvaldardóttur var valin besta skáldsagan en um lestur sá Hildigunnur Þráinsdóttir. „Persónugallerí sögunnar er bæði litríkt og eftirminnilegt, hvort sem um er að ræða aðal- eða aukapersónur, og lesandi á auðvelt með að setja sig í spor hinnar einstöku og mannlegu Völku,“ segir meðal annars í umsögn dómnefndar.

Dætur regnbogans eftir Birgittu H. Halldórsdóttur var valin besta ljúflestrarbókin í lestri Svandísar Dóru Einarsdóttur. Um bókina segir dómnefndin meðal annars að hún hafi borið af í þessum flokki. „Fallegt og flæðandi tungumál og hrífandi saga sem er bæði hjartnæm og rómantísk og á sama tíma jarðbundin. Einnig er mjög skemmtilegt hvernig persónur úr öðrum bókum hennar fléttast inn og út.“

Í flokki barna- og ungmennabóka bar Sveindís Jane – saga af stelpu í fótbolta, eftir Sveindísi Jane Jónsdóttur, sigur úr býtum en hana les Álfrún Helga Örnólfsdóttir. „Hetjusaga ungrar stúlku með einstakan bakgrunn sem hefur þurft að yfirstíga miklar áskoranir í einkalífi sem og samfélaginu. Saga af mótun og áskorunum sterkrar stúlku og frábærrar fyrirmyndar,“ segir dómnefnd meðal annars í umsögn.

Morðin í Dillonshúsi, eftir Sigríði Dúu Goldsworthy, fékk verðlaun í flokknum óskáldað efni en hún er í lestri Birgittu Birgisdóttur og Sigríðar Dúu sjálfrar. „Sagan hrífur lesandann frá byrjun. Höfundur gerir lífshlaupi forfeðra sinna skil á einstaklega mannlegan og áreynslulausan hátt og snertir djúpt,“ segir dómnefndin meðal annars um verkið.

Heim fyrir myrkur, eftir Evu Björgu Ægisdóttur, var valin besta glæpa- og spennusagan. Lesarar hennar eru þær Aníta Briem og Berglind Alda Ástþórsdóttir en í umsögn dómnefndar segir meðal annars að Eva Björg sýni enn og aftur „einstaka hæfni sína í að byggja upp andrúmsloft þar sem grunsemdir krauma undir yfirborðinu og sannleikurinn kemur lesandanum sífellt á óvart“.

Sérstök heiðursverðlaun

Þá hlaut Lestrarklefinn sérstök heiðursverðlaun fyrir framlag til umræðu um bókmenntir og lestrarmenningu á Íslandi.

„Lestrarklefinn er grasrótarvettvangur sem hefur frá árinu 2018 unnið óeigingjarnt og kraftmikið starf við að halda bókmenntaumræðu á Íslandi lifandi. Á vefnum er fjallað af ástríðu og fagmennsku um bækur í öllum formum – hvort sem um er að ræða prentaðar bækur, hljóðbækur eða rafbækur – auk leikhúss og menningar í víðara samhengi,“ segir í umsögn dómnefndar þar sem jafnframt kemur fram að með vandaðri umfjöllun, fjölbreyttu efni og persónulegri nálgun hafi Lestrarklefinn veitt aðgengilega bókmenntaumfjöllun og tengt saman lesendur, höfunda og verk á lifandi hátt. Verðlaununum veittu viðtöku stofnendur og ritstjórar Lestrarklefans, þær Díana Sjöfn Jóhannsdóttir, Katrín Lilja Jónsdóttir og Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir