Stefnt er að því að ferma í Grindavíkurkirkju á pálmasunnudag. Séra Elínborg Gísladóttir prestur Grindavíkurkirkju segir 14-15 börn hafa sóst eftir að fermast í heimabæ sínum. „Við verðum líka með passíulestur á föstudaginn langa og messu á páskadag og svo stefnum við á hátíðarmessu á sjómannadaginn.“
Grindvíkingar sækjast eftir því að hafa stóratburði í sinni kirkju og nýlega var skírn í kirkjunni. „Kirkjan stendur mjög sterkum stoðum hér og Grindvíkingar hafa alltaf hugsað vel um sína kirkju. Það er búið að gera allt fínt í kringum kirkjuna og skanna allt undir kirkjunni fyrir öryggið og við erum í sambandi við almannavarnir með alla viðburði.“
Þá segir hún mikið hafa verið um jarðarfarir í kirkjunni. „Flestir sem eiga að hvíla í garðinum í Grindavík láta jarða sig í Grindavíkurkirkju,“ segir hún og bætir við að samfélagið í Grindavík hafi alltaf verið sterkt. » 11