Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
„Þetta mun koma mjög illa við okkur, það er bara þannig,“ segir Halldór Kristinsson, framkvæmdastjóri Kristins J. Friðþjófssonar ehf., um þau áform ríkisstjórnarinnar að hækka veiðigjöld til muna.
„Það er alltaf verið að horfa á þessi sex stóru félög en við erum bara alls ekki í sömu aðstæðum og þau,“ segir Halldór, en útgerðin sem hann rekur ásamt fjölskyldu hefur verið í rekstri frá 1972. Alls starfa átta hjá útgerðinni sem gerir út frá Rifi á Snæfellsnesi.
Í greinargerð frumvarps ríkisstjórnarinnar kemur fram að breyting á viðmiðum til útreiknings veiðigjalds myndi gera það að verkum að veiðigjald á þorski árið 2025 yrði 45,59 krónur á kíló sem er um 59% hærra en þær 28,68 krónur sem innheimtar yrðu að óbreyttu.
Frumvarpið gerir þó ráð fyrir að frítekjumark nemi 50% af fyrstu tíu milljónum króna álagningar og 30% álagningar hvers árs hjá hverjum gjaldskyldum aðila upp að hámarki tuttugu milljónum.
„Afsláttarkjörin eru einhver en það dugar ekki. Þannig að hækkunin kemur samt af fullum krafti. Við erum sem betur fer ekki mikið skuldsett þannig að við ráðum líklega við þetta, en það verður ekkert eftir fyrir endurnýjun eða fjárfestingu í búnaði,“ útskýrir Halldór.
Hann segir ljóst að fólk átti sig ekki á því hvaða hlutverki allar smærri útgerðir gegna í nærsamfélagi sínu og bendir á að útgerðir hafi stutt við fjármögnun nýs björgunarskips, æskulýðs- og íþróttastarf og fleira. „Það eru ákveðin samfélagsverkefni sem við þurfum að standa á bak við og það verður mjög erfitt, ég hef áhyggjur af því að þetta hverfi. Þetta er bara landsbyggðarskattur.“
Sífellt þyngri byrðar
„Það virðist ekkert vera sem megi lifa nema einhverjir krókabátar og stórútgerð, leynt og ljóst er verið að þurrka út þessa millistærðarbáta og dragnótabáta. Þetta er ekki flóknara en það,“ segir Guðlaugur Óli Þorláksson sem gerir út dragnótabátinn Hafborgu EA frá Grímsey.
„Það er ekki nóg að það sé stanslaus niðurskurður á aflaheimildum heldur er líka aukning í allskonar álögum hvert sem er litið, hvort sem það er aðkeypt þjónusta, sala á fiskmörkuðum, hafnargjöld, kolefnisgjald eða hvað sem þetta allt heitir. Þetta bara hækkar og hækkar, en fiskverðið hækkar ekki neitt. Þetta er ekki neitt skemmtilegt system,“ segir hann.
Guðlaugur Óli segir fátt benda til annars en að það sé verið að þrýsta á að smærri útgerðir sem búa yfir eigin aflaheimildum leggi upp laupana. Að hans mati er ljóst að það verði enn meiri hvati fyrir stærri útgerðir að eignast minni útgerðir þar sem þær stærri munu þurfa frekari aflaheimildir til að standa undir stöðugt hækkandi álögum stjórnvalda.
„Þetta er bara orðið svo galið,“ segir Guðlaugur Óli og telur ósanngirni fólgna í því að þegar þrengir að hjá öðrum atvinnugreinum eins og ferðaþjónustu eða landbúnaði hlaupi ríkið undir bagga, en það sé ekki tilfellið þegar sjávarútvegur verður fyrir endurtekinni kvótaskerðingu eða jafnvel loðnubresti. „Þá eigum við bara að bera þann bagga og alltaf bætt á okkur. Þetta er bara ekki hægt, það sér það hver heilvita maður. Við erum að borga til ríkisins skatta og allan andskotann, svo erum við að borga ágætis kaup til mannskaparins sem er að skila um helmingi í skatt.“
Kemur niður á öllu
„Við erum mjög óhressir með þetta. Við bara vitum ekki alveg hvað þetta lið er að fara, ég held að það viti það ekki sjálft,“ segir Ólafur Björn Þorbjörnsson á Höfn í Hornafirði um áform ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalds.
„Við erum búin að gera út í 53 ár og erum með bát sem er sennilega að verða elsti bátur á Íslandi, smíðaður 1960. Það er búið að gera mikið við hann en það er ekki búið að vera tækifæri til að endurnýja hann,“ segir Ólafur Björn og bendir á niðurskurð í aflaheimildum, verð fyrir afla og hækkandi álögur. Ekki síst hafi komið sér illa að bann var sett á humarveiðar fyrir nokkrum árum, sem voru mikilvæg tekjulind fyrir útgerðina.
Mikil hækkun veiðigjalda er ekki til þess fallin að bæta stöðuna að sögn hans. „Þetta kemur niður á öllu. Ég vona bara að þetta fari ekki í gegn. Ég vona að fólk átti sig á því hvað er að ske.“
Munar miklu á hvert kíló
Tillögur ríkisstjórnarinnar um veiðigjald á þorsk og ýsu gera ráð fyrir að miðað verði aðeins við meðalverð hvers mánaðar á innlendum fiskmörkuðum yfir 12 mánaða tímabil. Ekki verður tekið tillit til verðs í innri viðskiptum félaga sem reka bæði útgerð og vinnslu eða útgerða sem selja til vinnslna á grundvelli viðskiptasamninga.
Úr greinargerð frumvarpsins má þannig sjá að veiðigjald þorsks á þessu ári myndi verða 45,59 krónur á kíló fyrir þorsk en er nú 28,68 krónur. Veiðigjald á ýsu yrði 24,9 krónur á kíló en er nú 20,21 króna.