Jason segir að lækkun stýrivaxta sjáist á fasteignamarkaðinum. Hvernig lýsir þetta sér?
„Það þýðir að fleiri eru að mæta í opin hús, sumar eignir seljast á yfirverði fyrir opin hús,“ segir hann og bætir við:
„Fyrstu kaupendur hafa meiri tækifæri samhliða vaxtastigi, engin spurning,“ segir hann.
Hvaða hverfi eru vinsælust núna?
„Miðbærinn, Vesturbærinn, Seltjarnarnesið, Fossvogurinn og Laugardalurinn eru alltaf vinsælust. Einnig eru ákveðin hverfi vinsæl í Kópavogi og Garðabæ.“
Hvernig er best að undirbúa húsnæði undir sölu?
„Við mælum með að seljendur fái verðmat á eignina sína. Með því fær seljandinn betur á tilfinninguna hvert verðmætið er á sinni eign. Næsta skref er að fá fagljósmyndara til að mynda eignina og þeir fagaðilar eru með góða punkta til að undirbúa eignina fyrir myndatöku.“
Hvað virkar alls ekki þegar fasteign er auglýst til sölu?
„Lélegar myndir eru dæmi um það. Verðlagning er einnig mjög mikilvæg því maður sér oft að eignir eru lengi í sölu vegna verðlagningar.“
Hvernig á fólk að fara að því að eignast sína fyrstu íbúð?
„Að eiga að minnsta kosti 10% af kaupverðinu. Í einhverjum tilvikum koma foreldrar að sem eigendur lítils hluta svo að auðveldara sé að komast í gegnum greiðslumat.“
Hvert er besta sparnaðarráðið í þínum huga?
„Að leggja til hliðar og eiga því meira eigið fé.“
Hvernig sérðu fyrir þér að þetta ár verði á markaðinum?
„Markaðurinn er á uppleið og þeir sem eru að hugsa um að kaupa ættu að hugsa til þess að verð mun hækka á næstu mánuðum.“