Norður
♠ 84
♥ D107643
♦ 7
♣ K953
Vestur
♠ ÁK73
♥ G92
♦ Á1094
♣ 62
Austur
♠ 2
♥ ÁK8
♦ G832
♣ ÁDG107
Suður
♠ DG10965
♥ 5
♦ KD65
♣ 84
Suður spilar 3♠ doblaða.
Það er ekkert gefið eftir í keppni þeirra bestu eins og spilið að ofan ber með sér en það kom fyrir í Vanderbilt-sveitakeppninni í Bandaríkjunum í síðustu viku milli sveita Pierres Zimmermanns og Martys Fleishers.
Við annað borðið opnaði Zimmermann í suður á 3♠. Þeir voru passaðir til Antonios Sementa í austur sem doblaði, Alfredo Versace í vestur sagði 3G og fékk níu slagi.Við hitt borðið opnaði Chip Martel í suður á 2♠ veikum og Marty Fleisher í norður lyfti í 3♠. Jacek Kalita í austur doblaði og Michal Klukowski í vestur sagði pass.
Vörnin var miskunnarlaus. Vestur spilaði út laufi á tíu austurs sem spilaði spaða. Vestur tók ás og kóng í spaða og spilaði áfram laufi. Austur fékk á gosann, tók ♥K, fékk gosann í sem sýndi 3-lit og spilaði litlu laufi. Sagnhafi henti tígli, vestur trompaði og síðan fékk vörnin tvo tígulslagi. 800.