Horfst í augu Afföll verða stundum hjá mófuglum þegar búfé treður niður hreiður þeirra en tjaldurinn lætur ekki svo auðveldlega hrekja sig á brott.
Horfst í augu Afföll verða stundum hjá mófuglum þegar búfé treður niður hreiður þeirra en tjaldurinn lætur ekki svo auðveldlega hrekja sig á brott. — Ljósmynd/Aldís Erna Pálsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árlegar fuglatalningar benda til þess að mófuglum á Íslandi fækki jafnt og þétt ef skógarþröstur er undanskilinn. Vísbendingar eru um að helsta orsökin sé samkeppni við manninn um svæðin sem eru helstu varpsvæði fuglanna

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Árlegar fuglatalningar benda til þess að mófuglum á Íslandi fækki jafnt og þétt ef skógarþröstur er undanskilinn. Vísbendingar eru um að helsta orsökin sé samkeppni við manninn um svæðin sem eru helstu varpsvæði fuglanna.

„Við höfum undir höndum upplýsingar um talningar á fimm stöðum á landinu sem gerðar hafa verið frá árinu 2012 og þær sýna allar að mófuglategundum, einkum spóa og lóu, hefur fækkað eða fjöldinn stendur í stað,“ segir Aldís Erna Pálsdóttir vistfræðingur. Hún hélt fyrirlestur á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar í vikunni um rannsóknir sínar á búsvæðum mófugla og afráni.

„Það er nokkuð ógnvænlegt að sjá þessum fuglum fækka á öllum talningarsvæðunum, einnig vegna þess að svæðin eru dreifð um landið með mörg hundruð kílómetra millibili og því er engin tenging á milli þeirra,“ segir hún.

Fuglar eru taldir árlega á vegum Rannsóknarseturs HÍ á Suðurlandi, Náttúrufræðistofnunar, Náttúrustofu Norðausturlands og Náttúrustofu Austurlands. Mófuglum hefur að sögn Aldísar fækkað mest á Suðurlandi þar sem spóum hefur að jafnaði fækkað um 5% á ári og lóum um 6% frá því að talningarnar hófust. Samanlagt hefur mófuglum fækkað um 2% á ári á þessu svæði þótt skógarþresti hafi fjölgað þar á tímabilinu.

Þrjár skýringar

Aldís segir að þrjár mögulegar orsakir séu fyrir því að mófuglum fækki hér á landi. Ein er hugsanlegar breytingar á vetrarstöðvum fuglanna. Það er þó ekki talin líkleg skýring því að fuglarnir fara á mismunandi svæði á veturna, allt frá Bretlandseyjum til Vestur-Afríku.

Önnur möguleg orsök er breytingar í afráni. Helstu afræningjar mófugla eru tófa, hrafn, mávur, kjói og minkur og stundum treður búpeningur hreiður fuglanna niður. Tófan er afkastamest af þessum afræningjum og á eftir henni koma hrafninn og kjóinn. „En engu að síður klekst um það bil helmingur eggja fuglanna út hér á landi sem er mjög gott í alþjóðlegu samhengi. Því er ekki hægt að segja með neinni vissu að breytingar á afráni hafi leitt til fækkunar mófugla,“ segir Aldís.

Þriðja ástæðan er aukin umsvif manna. „Við erum að leggja undir okkur mikið af landinu sem þessar tegundir nota til að verpa, bæði undir mannvirki, svo sem sumarhús, og skógrækt og fuglarnir tapa því miklu af búsvæðum sínum. Við höfum séð að á þeim svæðum í Evrópu þar sem mannabyggð hefur breiðst út hafa margar af þessum fuglategundum horfið. Það er talið að helsta ástæða fyrir fækkun fuglanna þar sé tap á búsvæðum og við erum kannski hér á byrjunarstigi þeirrar þróunar,“ segir Aldís.

Hún segir að besta ráðið til að sporna við þessu sé búsvæðavernd og að leyfa fuglum að eiga sín búsvæði til að verpa á óröskuð. Votlendi yfir ákveðinni stærð njóti nú verndar en hugsanlega þyrftu fleiri vistgerðir að njóta ákveðinnar verndar.

Aldís hefur unnið doktorsverkefni um búsvæði fugla og einnig rannsakað afrán á hreiðrum. Hún vinnur nú hjá Náttúrufræðistofnun sem fuglafræðingur og lifir því og hrærist með fuglum. „Og það er ekki amalegt líf.“

Mófuglar

Berum ábyrgð á lóu og spóa

Algengustu tegundir mófugla hér á landi eru heiðlóa, spói, tjaldur, sandlóa, lóuþræll, stelkur, hrossagaukur, jaðrakan, rjúpa, skógarþröstur og þúfutittlingur. Mófuglar eru samheiti yfir fugla sem velja sér opið mó- og mýrlendi til varps en flestir þeirra eru vaðfuglar og verpa á grónu og hálfgrónu landi á láglendi.

Talið er að rúmlega helmingur af lóustofninum í heiminum, 3-400 þúsund varppör, og um 30% af spóastofninum, um 250 þúsund varppör, verpi á Íslandi. Þessar tegundir flokkast sem ábyrgðartegundir Íslendinga vegna þess hve stór hluti þeirra verpir hér. Íslendingar hafa skrifað undir alþjóðlega samninga um að okkur beri að vernda þessar tegundir.

Höf.: Guðm. Sv. Hermannsson