Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik og leikmaður Wisla Plock í Póllandi, fagnaði sigri á fyrrverandi liðsfélögum sínum í Nantes frá Frakklandi þegar liðin léku fyrri leik sinn í umspili Meistaradeildar Evrópu í Póllandi í gærkvöld, 28:25. Viktor varði fimm skot í leiknum en á nú fyrir höndum leik á gamla heimavellinum í Nantes í næstu viku. Liðin slást um sæti í átta liða úrslitunum þar sem sigurlið einvígisins leikur gegn Sporting frá Lissabon, sem Orri Freyr Þorkelsson leikur með.
Janus Daði Smárason og samherjar í ungverska liðinu Pick Szeged eiga hins vegar á brattann að sækja í Meistaradeildinni eftir tap fyrir París SG á heimavelli í gærkvöld, 31:30. Janus skoraði þrjú mörk fyrir Szeged sem þarf nú sigur á erfiðum útivelli í Frakklandi. Sigurliðið í einvíginu mætir Barcelona í átta liða úrslitunum.
Knattspyrnumaðurinn Ari Leifsson, varnarmaður hjá Kolding, missir líklega af því sem eftir er af tímabilinu í Danmörku. Hann reif lærvöðva á dögunum og verður frá keppni næstu mánuðina. Kolding er í fimmta sæti B-deildarinnar þegar tíu umferðum er ólokið en deildinni lýkur 23. maí.
Knattspyrnukonan Svanhildur Ylfa Dagbjartsdóttir sem hefur leikið með Víkingi undanfarin ár er gengin til liðs við Elfsborg, nýliða í sænsku B-deildinni. Hún er því komin í sama félag og kærastinn, Ari Sigurpálsson, sem Elfsborg keypti frá Víkingi á dögunum.
Helgi Kolviðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins um skeið, er kominn í þjálfun á ný eftir nokkurra ára hlé. Hann hefur tekið við sínu gamla félagi, Pfullendorf, sem nú berst fyrir lífi sínu í sjöttu efstu deild Þýskalands, en þar hefur Helgi verið íþróttastjóri síðustu ár. Helgi þjálfaði síðast karlalandslið Liechtenstein á árunum 2018 til 2020 en hann hóf atvinnuferlinn hjá Pfullendorf árið 1995 og þjálfaraferilinn árið 2008.