Sandra Dís Sigurðardóttir er menntaður innanhússarkitekt úr hinum virta skóla IED í Mílanó. Hún flutti heim til Íslands eftir námið og lauk námi í lýsingarhönnun við Tækniskólann. Í dag er hún sjálfstætt starfandi innanhússarkitekt og lýsingarhönnuður.
Helstu verkefni Söndru núna eru einbýlishús og skrifstofur. Hún tekur einnig að sér lýsingarhönnun en hefur undanfarið verið að leggja meiri áherslu á innanhússhönnunina. Hún segir langskemmtilegustu verkefnin vera þau þegar hún fær að fylgja húsinu í gegnum allt ferlið í stað þess að taka fyrir eitt og eitt rými.
„Fólk áttar sig meira á gildi góðrar lýsingar þegar það sér hana því þá virkar rýmið svo vel. En þegar lýsingin er slæm þá getur hún skemmt rýmið og stemninguna. Þetta er til að mynda augljóst þegar farið er til dæmis á veitingastað þar sem nánast eingöngu er flúrlýsingu. Þá hefur maður engan áhuga á að sitja þarna og hafa það notalegt. Það er meira bara að borða og drífa sig út,“ segir Sandra.
„Lýsing hefur gríðarleg áhrif á þig án þess að þú fattir það endilega. Það er það sem mér finnst skemmtilegast við lýsinguna. Fólk er kannski komið með fínar innréttingar og lýsingin getur annað hvort betrumbætt eða dregið úr.“
En hvaða mistök gerir fólk helst þegar kemur að lýsingu?
„Fólk er oft með of mikla lýsingu og kannski aðeins eina gerð lýsingar, svo sem einfalda lampa í loftunum og helling af þeim í stað þess að hafa þetta breytilegt. Á heimilinu viltu hafa góða lýsingu þegar þú ert að læra með krökkunum eða við þrif. En svo viltu líka geta haft það notalegt þegar saumaklúbburinn kemur eða fólk í mat. Þá viltu geta dempað lýsinguna, kveikt á lömpum hér og þar til að ná fram öðruvísi andrúmslofti,“ segir Sandra.
Einnig er algengt að fólk geri mistök við lýsingu inni á baðherbergjum, að hennar sögn.
„Við konur förðum okkur, svo dæmi sé tekið, karlmenn raka sig, svo þú vilt geta séð vel. Þetta á sérstaklega við þegar fólk eldist. Ég hef tekið eftir því að fólk hugsar ekki út í þetta. Næturlýsing skiptir einnig miklu máli og mér finnst sniðugt að hugsa út í hana. Þegar þú vaknar á nóttinni til að fara á klósettið eða ert hálfsofandi uppi í sófa og ætlar á baðherbergið til að tannbursta, þá skiptir miklu máli að geta kveikt lágmarksljós, rétt til að sjá til, án þess þó að ljósið veki þig alveg áður en þú ferð upp í rúm.“
Er fólk vakandi fyrir þessu í dag?
„Já, meira í dag en áður. Þetta skiptir okkur miklu máli. Þegar fólk er að byggja sér hús eða sumarbústað þá er verið að ráða lýsingarhönnuði. Það vill fá stemninguna, notalegheitin og réttu lýsinguna.“
Fjölbreyttar áferðir í tísku
Hvað er helst í tísku núna í innanhússhönnun?
„Það hefur aukist verulega að fólk vilji hafa rýmið hlýlegt. Það er að færa sig úr því dökka og yfir í mjúka tóna. Einnig er meira af bogadregnum línum og veggfóðri. Mér finnst fólk orðið opnara fyrir fjölbreyttri áferð og að prófa eitthvað nýtt. Samt sem áður eru Íslendingar oft fastir fyrir og vilja hafa þetta svolítið svipað og hjá öðrum. En sé samt að það er verið að hugsa út fyrir kassann. Stucco, eða kalkmálning, er til dæmis mikið í tísku núna. Hún býður upp á nýjar áferðir sem mér finnst gaman að sjá,“ svarar Sandra.
Hvað þarf að hafa í huga þegar fólk setur eignina á sölu og hún er mynduð?
„Ég skoða fasteignaauglýsingar nánast daglega, mér finnst svo gaman að skoða heimili fólks og ég pæli mikið í þessu,“ segir Sandra og hlær.
„Fólk þarf aðallega að minnka umfangið af sínu persónulega dóti þegar á að fara að selja. Allt kraðak truflar. Myndirnar koma betur út ef eignin er mínimalísk og fólk verður að geta séð fyrir sér að geta búið þarna. Því þarf að leitast við að hafa ekki of mikið af smámunum uppi við og fara í léttar viðgerðir ef eitthvað er áberandi, mála ef þarf og er ekki dýrt að laga. Það er það helsta sem ég get sagt.“
Hún mælir einnig með að minnka skæra liti í eigninni því þeir geti truflað.
„Þó það sé eitthvað sem þú fílar en sérð ekki fyrir þér að aðrir geri það. Fólk horfir á rýmið og hugsar að það sé ómögulegt. Það getur fælt fólk frá, jafnvel þótt það sé bara málning í röngum lit.“