Deildartitill Valskonur fagna áfanganum á Seltjarnarnesi í gær.
Deildartitill Valskonur fagna áfanganum á Seltjarnarnesi í gær. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Valur tryggði sér í gærkvöldi deildarmeistaratitil kvenna í handbolta er liðið sigraði botnlið Gróttu á útivelli, 30:19. Þrátt fyrir að ein umferð sé eftir getur Fram í öðru sæti ekki náð Val. Valur er með tveggja stiga forskot á Framara og með betri árangur innbyrðis í vetur

Valur tryggði sér í gærkvöldi deildarmeistaratitil kvenna í handbolta er liðið sigraði botnlið Gróttu á útivelli, 30:19. Þrátt fyrir að ein umferð sé eftir getur Fram í öðru sæti ekki náð Val. Valur er með tveggja stiga forskot á Framara og með betri árangur innbyrðis í vetur.

Lovísa Thompson og Þórey Anna Ásgeirsdóttir voru markahæstar hjá Val með sex mörk hvor. Katrín S. Thorsteinsson skoraði sjö fyrir Gróttu.

Grótta á enn veika von um að halda sæti sínu í deildinni en Gróttukonur verða að vinna ÍR á útivelli í lokaumferðinni næstkomandi fimmtudag og treysta á að ÍBV tapi fyrir Haukum á heimavelli sínum.

Neðsta liðið fellur og næstneðsta liðið fer í fallumspil. ÍBV og Stjarnan eru nú bæði með tíu stig, tveimur stigum á undan Gróttu.

ÍBV gat tryggt sér áframhaldandi veru í efstu deild með útisigri á Fram en Framkonur reyndust sterkari og unnu sjö marka sigur, 29:22. Steinunn Björnsdóttir var markahæst hjá Fram með sjö mörk. Birna Berg Haraldsdóttir og Britney Cots gerðu fimm hvor fyrir ÍBV.

Stjörnunni mistókst að fara upp fyrir ÍBV er liðið tapaði fyrir Selfossi á heimavelli, 30:26. Perla Ruth Albertsdóttir skoraði níu mörk fyrir Selfoss og Embla Steindórsdóttir tíu fyrir Stjörnuna.

Þá unnu Haukar öruggan heimasigur á ÍR, 26:19. Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Hauka og Sara Dögg Hjaltadóttir var með sex fyrir ÍR.