Eins og Hildur Sverrisdóttir
þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins benti á í umræðum á Alþingi í gær er hækkun landsbyggðarskattsins á sjávarútveginn ekkert annað en einmitt það, skattahækkun. En sumir stjórnarliðar vilja sem minnst um skattahækkunina tala og reyna þess í stað að kynna hana „undir yfirskini einhvers konar leiðréttingar og annars orðagjálfurs“, eins og Hildur orðaði það réttilega.
Og hún bætti því við að á kynningu tveggja ráðherra Viðreisnar hefðu þau orð verið látin falla að ríkissjóður hefði orðið af tekjum á síðustu árum og verið væri að leiðrétta það. Með ólíkindum
er raunar að á umræddri kynningu sagði Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra að umræða hefði farið fram um einhverja afturvirkni, það er að segja að fyrirhuguð skattahækkun ætti ekki aðeins að gilda um framtíðina heldur fyrri ár. En niðurstaðan hefði reyndar orðið sú að fara ekki þá leið.
Hvernig má það vera að ráðherrar ríkisstjórnarinnar ræði það – ofan á yfirgengilegar skattahækkanir undir yfirskini leiðréttingar – að þær verði gerðar afturvirkar? Er það virkilega svo að ríkisstjórnin telji slíkt tækt til umræðu? Eru engar hugmyndir um hærri skatta svo vitlausar að þær þyki ekki umræðu verðar í þessari vinstri stjórn?