Hjörleifur Haukur Guðmundsson fæddist í Reykjavík 22. janúar 1960. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 11. mars 2025.

Foreldrar Hauks voru Hallbera Ásdís Guðmundsdóttir, f. 14.3. 1935, d. 5.6. 2002, og Óskar Steindórsson, f. 6.8. 1930, d. 3.10. 2012.

Haukur ólst upp hjá móður sinni. Hálfbræður Hauks eru Jónas, f. 14.3. 1966, og Sigurður Óskar, f. 6.7. 1972. Auk þess átti faðir hans tvær fósturdætur, Kolbrúnu, f. 15.1. 1958, og Sigríði, f. 27.9. 1962.

Haukur var í sambúð með Elínborgu Benediktsdóttur, f. 3.7. 1962, þau slitu samvistum 1992. Eiga þau Kristján Reynald, f. 27.12. 1987, giftur Ástu Sigurðardóttur, f. 6.10. 1989, eiga þau Baldur Pál, f. 2018, og Sóldísi Sumarrós, f. 2020. Fyrir átti Kristján Styrmi Reynald, f. 2010.

Haukur kynntist Brynju Bergdísi Þrastardóttur í lok árs 2002 og giftust þau 22.1. 2010. Hennar börn eru a) Sigurlaug Ósk, f. 23.9. 1986, gift Grétari Ólafssyni, f. 6.12. 1983, eiga þau Reimar Atla, f. 2012, og Þröst Óla, f. 2014. Fyrir átti Sigurlaug Sóldísi Dúnu, f. 2006. b) Atli Freyr, f. 24.6. 1990. c) Áslaug Hrund, f. 17.9. 1992, í sambúð með Frímanni Dór Ólafssyni, f. 25.1. 1984, eiga þau Brynju Rut, f. 2018.

Haukur ólst upp á Fálkagötu 12 með flestum sínum systkinabörnum í móðurætt og þar var margt brallað. Haukur byrjaði ungur að vinna til að hjálpa móður sinni, bar út blöð og var kominn á sjó á unglingsaldri og var þar í nokkur ár. Síðan starfaði hann helst við stál- og smiðjuvinnu. Hann hætti að vinna í byrjun árs 2024 vegna veikinda.

Hann starfaði lengi í skátunum og í björgunarsveit og eignaðist þar marga góða vini. Síðan áttu mótorhjólin hug hans allan og var hann mikill Harley Davidson-aðdáandi og gerði meira að segja upp gamalt löggumótorhjól en átti líka einhverjar aðrar tegundir.

Hann var snigill nr. 39 og var á árum áður í mótorhjólaklúbbi.

Útför Hauks fer fram frá Þorlákskirkju í dag, 28. mars 2025, klukkan 13.00.

Elsku elsku Haukur.

Við eigum engin orð en lífið er tómlegt án þín. Að þú skyldir fara frá okkur á þennan hryllilega hátt er svo óásættanlegt. Þú sem vildir allt fyrir okkur gera. Við erum þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum saman, fjöruferðin síðasta sumar var dásamleg, það sem þú hafðir gaman af því að hlaupa í sjóinn með strákunum og Snúð. Þú varst svo spenntur yfir væntanlegum flutningum okkar í höfnina að þú varst nánast byrjaður í framkvæmdum. Við gerum þetta með þig í hjarta okkar og ég er viss um að þú sendir okkur strauma um að nú fari þetta að ganga upp. Elsku snúðurinn leitar og leitar að þér og skilur ekkert hvað er í gangi. Við pössum upp á mömmu.

Takk fyrir allt elsku Haukur og þá sérstaklega baknuddið sem hjálpaði mér í gegnum fæðingu dóttur minnar, hefði aldrei getað þetta án þín.

Minning þín lifir í hjörtum okkar.

Sigurlaug, Grétar,
Reimar Atli og
Þröstur Óli.

Elsku Haukur.

Það sem lífið getur verið óréttlátt að taka þig frá okkur á þennan hræðilega hátt.

Þú varst gull af manni og varst alltaf tilbúinn að gera allt fyrir okkur og alltaf til staðar fyrir okkur. Við áttum margar góðar minningar saman eins og þegar þú og mamma voruð að ræða hvað ætti að vera í matinn þegar við vorum að keyra heim og ég tuðandi í aftursætinu um að ég ætlaði sko ekki að borða kl. níu eða eitthvað, þetta notaðir þú oft til að stríða mér.

Þegar þú varst að kenna mér að keyra skellinöðruna og ég keyrði á þig, þá ætlaði ég nú bara að hætta þessu en þú tókst það ekki í mál og sagðir mér að halda áfram að æfa mig.

Þú varst alltaf til í að fíflast og leika við Brynju Rut sem henni þótti nú ekki leiðinlegt.

Þú varst svo yndislegur stjúppabbi, tengdafaðir og afi.

Þín

Áslaug, Frímann og Brynja Rut.

Elsku afi, sársaukinn að missa þig er óbærilegur.

Þú varst og hefur alltaf verið besti afi í heimi.

Þegar ég hugsa til þín sé ég fyrir mér mótorhjól og ævintýri. Mótorhjól vegna þess að mér fannst alltaf svo „cool“ að þú værir í mótorhjólaklúbbi og þú alltaf svo montinn með hjólin þín og gast talað endalaust um þau. Ævintýri vegna þess að allt með þér var ævintýri, allt frá göngutúrum sem breyttust í fjársjóðsleit eða öll gistipartíin. Þú last mjög oft fyrir mig bækur og þá sérstaklega Afabókina og lékst með til að gera lesturinn skemmtilegri. Þér þótti svo ótrúlega vænt um alla og gerðir allt fyrir mig, ef enginn nennti út að leika með mér, þá gat ég alltaf stólað á afa. Ef mig langaði í kaffi og kex, en þið amma voruð ekki með heitt á könnunni, helltir þú óumbeðinn upp á heila kaffikönnu bara svo ég gæti fengið mér einn bolla af kaffi og kex, sem sýnir rosalega vel hvernig manneskja þú varst. Heimurinn er rosalega tómlegur án þín og mun ég mest sakna allra prakkarastrikanna sem við gerðum saman. Þú varst með mér þegar ég tók minn fyrsta andardrátt og varst alltaf rosalega montinn með það, þú varst svo stoltur af öllu sem ég gerði og mun ég aldrei hætta að gera þig stoltan.

Afar eru mjög sérstakir.

þeir láta mann hlæja og

þeir kenna manni

margt nýtt. Mundu

eftir að segja afa hvað

þér þykir vænt um hann.

(Todd Parr, Afabókin)

Ástarkveðja,

Sóldís Dúna.

Við ólumst upp í krakkaskara á Grímsstaðaholtinu. Fálkagata 12 var miðdepillinn, húsið sem hýsti nánast heila stórfjölskyldu ömmu, afa, fullorðin börn þeirra og fjölda barnabarna. Heill heimur útaf fyrir sig. Amma steikti risastórar kleinur sem við fengum glóðvolgar í hendur og stundum poppaði hún í stórum potti og allir fengu sinn skammt.

Leiksvæðið var óendanlegt víðerni, götur og garðar, fjaran, Vatnsmýrin, holtin og melarnir handan við Hjarðarhaga og ofan við Suðurgötu. Algjört frelsi á milli þess að mömmurnar komu út á tröppur eða svalir og kölluðu á okkur í mat eða háttinn.

Þú varst sonur hennar Dísu frænku sem alltaf var glettin og kát og stundum pínu stríðin. Pabbi þinn átti aðra fjölskyldu en kom einstöku sinnum á stórum drossíum og tók þig með í bíltúr.

Við fórum öll í skátana í kjallara Hagaskóla. Þú fékkst stóra vinninginn og varst einn af ylfingunum hennar Hrefnu Tynes. Þú áttir enn stóran vinahóp tengdan skátastarfi sem nú saknar þín.

Svo komu unglingsárin og við fluttum af Fálkagötunni og hittum þig sjaldnar en alltaf varstu sami brosmildi káti strákurinn.

Öll fórum við sína leið í átt að fullorðinslífinu og þá tapaði ég sjónum af þér. Mamma þín dó allt of ung og þú varðst einstæðingur sem þurfti að bjarga sér. Við tók líf sem ég veit alltof lítið um. Þú birtist brosmildur í fjölskylduboðum og jarðarförum og við áttum saman fáein orð. Brynja kom inn í líf þitt, þú settist að í Þorlákshöfn og áttir þar góða tilveru. Nú síðustu árin glímdirðu við erfið veikindi sem voru bæði þér og fjölskyldunni erfið.

Svo kom höggið sem var svo óendanlega hart og ljótt. Armar undirheimanna náðu þér, börðu þig og píndu og skildu þig eftir líflausan á gangstíg fjarri heimilinu.

Enn vitum við ekki ástæðuna eða atburðarásina og hugurinn býr til ljótar myndir af því sem gerðist. Brynja og fjölskyldan þín standa eftir sár og dofin. Ég bið þess að þau nái einhvern tíma utan um það sem gerðist og nái að lifa með því.

Elsku frændi, guð geymi þig.

Þín frænka,

Kristín Arnardóttir.

Vin sínum

skal maður vinur vera,

þeim og þess vin.

En óvinar síns

skyli engi maður

vinar vinur vera.

(Úr Hávamálum)

Hann Gasi var hrifsaður burt á versta og grimmasta máta sem hægt er að hugsa sér. Hvernig getur maður sætt sig við slík örlög? Af hverju erum við sem getum talist til eðlilegra manna neydd til að búa í samfélagi með fólki sem virðir ekki líf, heilsu og líðan annarra? Hvert erum við komin þegar litla Ísland er ekki lengur öruggt fyrir fólki sem beitir hrottalegu ofbeldi með eins ömurlegum afleiðingum.

Ég kynntist Gasa árið 1995 … lágvaxinn og snaggaralegur náungi sem var allt annað en ljúfur ásýndar. En útlitið endurspeglaði ekki innri mann því yfir þetta 30 ára tímabil sýndi hann og sannaði margsinnis að hann var vinur vina sinna, stóð með sínu fólki og gerði allt til að létta öðrum lífið.

Gasi var gríðarlega skoplegur náungi, málfar hans var óvenjulegt og stundum einungis á færi þeirra sem þekktu hann vel að skilja. Hann var öflugur hjólamaður og lengi öfundaði ég hann af Harley-inum hans sem endurspeglaði eigandann lygilega vel. Hann var hrár, laus við allan íburð og gekk alltaf þótt skrúfur, festingar og pústkerfi hristust af á ferðalögum.

Fyrir Gasa var ég þakklát, hann stóð þétt við bakið á mér og mínu fólki þegar á þurfti að halda og það er talsvert meira en hópurinn sem hann tilheyrði í þá daga gerði. Vorið 2004 lenti fyrrverandi maðurinn minn og klúbbfélagi Gasa í alvarlegu slysi sem setti tilveru okkar á hvolf. Þá voru strákarnir okkar hjóna ungir og yngsti ekki orðinn þriggja mánaða. Gasi taldi það ekki eftir sér að sitja yfir okkur eftir langa vinnudaga til að veita okkur félagsskap og stuðning, það verður að segjast þegar litið er til baka að hann gerði tilveru okkar aðeins ljósari í öllu myrkrinu. Fyrir aldamót hafði Brynja Grétars vinkona okkar einnig lent í alvarlegu bifhjólaslysi og þá var það sama … hann taldi það ekki eftir sér að sitja yfir henni heilu og hálfu dagana og dröslast með hana út um allt stórslasaða svo að henni leiddist ekki … þannig var hann … hrjúfa ljúfmennið sem mátti ekkert aumt sjá.

Undanfarin ár glímdi Gasi við erfiða heilabilun sem gerði hann útsettari fyrir klóm misindisfólks sem vildi honum ekkert nema illt, fólks sem virti hann ekki sem manneskju. Ég vildi óska að hann og fólkið hans hefði verið gripið eins og vel og hann greip aðra. Ég vildi óska að við byggjum við öflugra heilbrigðiskerfi sem umvefur viðkvæmt fólk og gætir fyrir hættum heimsins.

Það er mín einlæga ósk að fólk sem villist af leið í lífinu fái nauðsynlega aðstoð því það er samfélagslegur ávinningur sem hlýst af því ef hægt er að sporna markvisst við vaxandi ofbeldishegðun og neyslu hugbreytandi efna. Við sem samfélag verðum að gera betur.

Elsku Brynja mín, Stjáni og fjölskylda, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Heimurinn er sannarlega fátækari án hans.

Inda Björk.

hinsta kveðja

Elsku Haukur minn.

Ég á ekki til nein orð um hvernig þú varst numinn á brott frá mér.

Vissi ekki að heimurinn gæti verið svona ljótur. Finnst eins og ég eigi eftir að vakna upp eftir ljótan draum.

Get ekki sagt meira núna annað en að ég elska þig.

Þín

Brynja.