Stjórnvöld í Þýskalandi, Frakklandi, Japan og fleiri ríkjum fordæmdu í gær ákvörðun Trumps Bandaríkjaforseta um að hækka tolla á innflutta bíla og íhluti um 25%, en tollarnir eiga að taka gildi í næstu viku. Skoruðu þýsk stjórnvöld á Evrópusambandið að bregðast við tollunum af fullum kraft, en Japanir sögðust ætla að skoða alla valkosti sína áður en tollunum yrði svarað.
Fjármálaráðherra Frakklands, Eric Lombard, fordæmdi í gær þann „fjandskap“ sem ákvörðun Trumps fæli í sér og sagði að Evrópusambandið yrði að hækka tolla sína á bandarískar vörur til þess að svara tollhækkunum Bandaríkjastjórnar.
Forsætisráðherra Kanada, Mark Carney, hélt ríkisstjórnarfund til þess að ræða samskiptin við Bandaríkin, en talið er að tollarnir gætu lagst hart á kanadíska bílaiðnaðinn. Sagði Carney að tollarnir væru „bein árás“ á Kanada. „Við munum verja verkamenn okkar. Við munum verja fyrirtæki okkar. Við munum verja land okkar,“ sagði Carney.
Stjórnvöld í Mexíkó sögðu að tollarnir brytu gegn fríverslunarsamningi Norður-Ameríkuríkjanna þriggja, en Claudia Sheinbaum Mexíkóforseti sagði að land sitt myndi sækjast eftir undanþágum frá tollunum ef þeir yrðu lagðir á.
Trump sagði í fyrrakvöld á samfélagsmiðli sínum Truth Social að ef Kanadamenn og Evrópusambandið tækju höndum saman til að „valda skaða“ á bandarísku efnahagslífi mættu báðir aðilar eiga von á enn hærri tollum.
Hlutabréf í hinum ýmsu bílaverksmiðjum féllu nokkuð í gær vegna hinna fyrirhuguðu tolla. Þannig lækkuðu hlutabréf hjá þýsku bílaframleiðendunum BMW, Volkswagen og Mercedes Benz í viðskiptum gærdagsins, auk þess sem hlutabréf bandarísku GM-verksmiðjunnar féllu nokkuð í verði við upphaf viðskipta á Wall Street í gær.