Gunnar Eysteinn Sigurbjörnsson fæddist á Þröm í Staðarhreppi í Skagafirði 17. september 1934 en ólst upp á Grófargili. Hann lést 17. mars 2025.
Gunnar var sonur hjónanna Jónönnu Jónsdóttur, f. 23. janúar 1904, d. 14. ágúst 1969, og Kristmundar Sigurbjörns Tryggvasonar, f. 30. mars 1896, d. 4. september 1984. Gunnar var sjötti í röð tólf systkina. Hin eru Hulda Ingibjörg, f. 4. september 1922, d. 8. september 2015, Jórunn Birna, f. 3. júlí 1925, d. 30. maí 1979, Árni Eymar, f. 29. ágúst 1927, d. 28. júlí 2009, Ingvi Ólafur, f. 20. september 1930, d. 22. júní 1991, Jón Stefán, f. 2. október 1932, d. 12. september 2014, Sæmundur Sigursveinn, f. 21. júlí 1936, d. 26. október 2024, Ásta Kristín, f. 11. nóvember 1938, Gígja Ester, f. 11. júní 1940, María Sigríður, f. 20. september 1942, Þórhallur Tryggvi, f. 15. júlí 1945, d. 5. ágúst 2021, og Hugrún Hjördís, f. 7. desember 1949.
Gunnar giftist 30. mars 1956 Sigríði Óladóttur frá Þórshöfn, f. 12. apríl 1935, d. 30. mars 2011, húsmóður í Kópavogi. Gunnar og Sigríður fluttu í Kópavog í júlí 1956 og bjuggu þar alla sína tíð.
Börn þeirra eru fimm: 1) Sigurbjörn Tryggvi, f. 20. desember 1954, maki Magnea Bjarnadóttir. Þau eiga tvö börn, Gunnar Eystein, giftur Lieselot Simoen, og Guðnýju Maríu, sem er gift Guðna Ingvarssyni. 2) Óli Pétur, f. 25. júní 1956. Börn Óla með Aldísi Pálsdóttur eru Páll Óli, giftur Katrín Ösp Jónasdóttur, Ólafur Ingvi, sem er í sambúð með Maríu Lísu Alexíu Jóhannsdóttur, og Sigríður, sem er í sambúð með Hannesi Arasyni. 3) Andvana fæddur drengur 25. júní 1956. 4) Þorsteinn Marinó, f. 24. júní 1959. Sambýliskona hans er Lilja Sigurðardóttir, f. 15. júní 1965. Börn Þorsteins eru Edda Ósk, gift Kristmundi Daníelssyni, og Rúnar Helgi. 5) Erla Dögg, f. 19. ágúst 1967, maki Þorsteinn Grétar Einarsson, f. 11. október 1964, d. 16. september 2019. Börn þeirra eru Sunna Rós, í sambúð með Aroni Ómarssyni, Ásgeir og Árni Gunnar, sem er í sambúð með Lovísu Ýri Andradóttur.
Barnabarnabörnin eru átta talsins.
Gunnar gekk í barnaskóla í Varmahlíð. Hann kláraði búfræðinám við bændaskólann á Hólum í Hjaltadal 1954. Í kjölfarið fer hann í iðnskólann á Sauðárkróki þaðan sem hann útskrifast sem múrari. Gunnar klárar meistarapróf í múraraiðn árið 1964. Hann starfaði sem múrari hjá Birni Kristjánssyni múrarameistara í Kópavogi 1956-1974 og síðar sem múrarameistari hjá Ístaki frá 1974 til starfsloka 2004.
Gunnar átti mörg áhugamál en þeirra hæst stendur briddsspilamennska. Síðustu árin átti hann góða vinkonu og ferðafélaga í Dagnýju Karlsdóttur.
Gunnar verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju í dag, 28. mars 2025, og hefst athöfnin klukkan 15.
Elsku pabbi minn, nú er komið að leiðarlokum og þakklæti er mér efst í huga. Þú varst einstaklega góður maður og það er mín gæfa að hafa átt yndislega foreldra sem ég gat alltaf leitað til og treyst á. Það er mér minnisstætt þegar þú sagðir mér að ef ég gæti ekki mætt í skólann þá færi ég ekkert út þann daginn, þessi góðu gildi komust strax til skila.
Þegar hugurinn reikar til æskuáranna koma upp tjaldútilegur með erfiðum bílferðum vegna bílveiki hjá mér. En þú varst mikill náttúruunnandi og algjör viskubrunnur. Að fara t.d. hringveginn með þér var kennslustund í landafræði þar sem þú hreinlega þekktir hvern einasta sveitabæ, fjöll, fossa og þúfur. En því miður var áhugaleysið algjört hjá mér og ekkert sat eftir.
Þú varst Sunnu minni besti afi sem hægt er að hugsa sér og brölluðuð þið margt saman á meðan við mæðgur bjuggum hjá ykkur mömmu. Eftir að við tvær fluttum í Garðinn og við Grétar vorum búin að eignast Ásgeir og Árna Gunnar þá skapaðist sú hefð að þið eydduð með okkur aðfangadagskvöldi og hélst sú hefð alla tíð. Við áttum alveg dásamlegan tíma síðustu jól þar sem þú gast sem betur fer komið til okkar með Óla bróður í síðasta skipti og höfðu Ásgeir og Árni Gunnar orð á því hvað þeim fannst vænt um að þú hefðir treyst þér orðinn svona veikur.
Elsku pabbi, þú varst mér svo mikill styrkur þegar Grétar minn lést fyrir tæpum sex árum, daginn fyrir 85 ára afmælið þitt. Þú mættir í Garðinn með tertu sem Dagný bakaði fyrir þig í tilefni dagsins og eyddir deginum með mér og börnunum ásamt bræðrum mínum og fjölskyldum þeirra. Þú varst mikill dýravinur og löðuðust öll dýr að þér. Það var nú stundum hlegið þegar var komið í heimsókn í Vogatunguna og allir þrestirnir voru orðnir spikfeitir af þessu úrvalsfæði sem þú bauðst þeim upp á. Ekki fannst þeim Nölu og Þulu hundum mínum heldur leiðinlegt að fá afa í heimsókn þar sem hann nennti að leika við þær og gaf mikið nammi.
Það var ómetanlegt að geta aðstoðað þig allt síðasta ár vegna veikinda þinna og átt góðan tíma með þér. Ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa getað verið hjá þér með bræðrum mínum og haldið í hönd þína þegar þú kvaddir okkur.
Guð geymi þig, elsku hjartans pabbi minn, og takk fyrir allt.
Þín dóttir,
Erla Dögg Gunnarsdóttir.
Elsku tengdapabbi. Kallið kom en þú varst sáttur.
Fyrir rúmlega ári síðan brast heilsa þín, en þú hélst í vonina þó að þér fyndist erfitt að geta ekki sest upp í bílinn þinn (í gallabuxum, stuttermaskyrtu, strigaskóm og léttum jakka) og keyrt af stað í sveitina til okkar eða í Garðinn til Erlu eða bara hvert sem þér datt í hug.
Ég kom snemma inn í þessa fjölskyldu og þú og tengdamamma heitin eigið stóran þátt í mínu lífi sem mér þykir mjög vænt um.
Þið komuð oft til okkar í sveitina og þú naust þín vel með dýrunum stórum sem smáum og spjallaðir mikið við þau og hændust að þér, enda gafst þú þeim oft eitthvað gott úr vasa. Þið nafnarnir fóruð stundum saman í veiði og svo komst þú með okkur í Veiðivötn, hestaferðir, réttir og bíltúra um sveitina. Við brölluðum oft eitthvað saman og voruð þið Sigga alltaf hjálpsöm. Ég fékk oft stuðning frá þér þegar kom að því að velja ásetningsgimbrarnar, Bjössi vill allt vel hvítt en þú og ég vildum hafa litaflóru með. Þú hjálpaðir mér stundum að mála pallinn, leysa krossgátu ef ég var að gefast upp og við tókum oft í spil (orrustu) í seinni tíð og dútluðum ýmislegt í kringum dýrin sem við höfðum gaman af og var mikið spjallað og spekúlerað með þessu öllu. Stundum stríddum við hvort öðru og hlógum svo eftir á. Mér varð stundum nóg um þegar þú fórst á flug í ættfræðinni en þú hafðir mikinn áhuga á sögum og ættum. Þú varst mikið jólabarn og voru jólaseríurnar til dæmis einstaklega vel uppsettar og svo sönglaðir þú eða flautaðir meðan þú brasaðir við uppsetninguna, sem og við önnur störf. Þér fannst ég stundum stjórnsöm, t.d. þegar ég setti á þig húfu og sagði þér að klæða þig almennilega, ef eitthvað var að veðri.
Þú hafðir gaman af að vera innan um barnabörnin og mættir oft í afmæli langafabarnanna.
Það var mikið lán fyrir þig og okkur að þú skyldir eignast góða vinkonu og ferðafélaga, hana Dagnýju, sem okkur í fjölskyldunni þykir líka mjög vænt um og metum mikils hennar vinskap. Það er margs að minnast um lífsglaðan, hjálpsaman og góðan tengdapabba.
Ég sakna þín og við fjölskyldan öll. Ljúfar minningar lifa og eins og þú komst oft að orði, svo er bara að horfa fram á við. Takk fyrir þig, elsku tengdapabbi.
Þín tengdadóttir,
Magnea.
Elsku afi, þrátt fyrir að við vissum í hvað stefndi var samt einhvern veginn svo óraunverulegt að fá símtalið um að þú hefðir kvatt okkur. Frá því að við munum eftir okkur hafðirðu alltaf verið svo sprækur þó að síðasta árið hafi verið þér mjög erfitt vegna heilsubrests. Það að geta ekki skotist á bílnum hvert sem þig langaði, hitt félagana í pottinum eða kíkt í heimsókn í sveitina reyndi mjög á þig og vitum við sem stóðum þér næst hversu þakklátur þú varst að fá hvíldina.
Hjá þér og ömmu í Lyngbrekkunni og síðar Vogatungunni vorum við barnabörnin alltaf velkomin. Þið voruð svo gott teymi. Amma bar kræsingar á borð og hlustaði á vandamál unglingsáranna á meðan þú varst alltaf boðinn og búinn að skjótast og skutlast eftir okkur hingað og þangað. Einnig eigum við ófáar minningarnar um þig spila við okkur. Ekki vantaði keppnisskapið í kallinn en alltaf glaðvær og stutt í stríðnina. Í seinni tíð, eftir að elsku amma kvaddi okkur, var alltaf svo vinalegt þegar maður kom í sveitina og þú varst mættur með gistitöskuna og afa-inniskóna og þegar maður gekk inn var sjónvarpið allt of hátt stillt og þú hummandi búinn að koma þér vel fyrir í hægindastólnum að lesa yfir Bændablöðin sem höfðu safnast upp. Þetta er svo sterk minning sem við eigum af þér. Hummandi kátur og sprækur. Einnig varstu hafsjór af fróðleik og forvitinn um allt og ekkert. Þér fannst gaman að segja sögur þó að þær ættu til að vera í lengra lagi og þá helst þegar þú fórst að tengja þína miklu ættfræðiþekkingu inn í sögurnar, þá var stundum erfitt að fylgja þræði þó að sögurnar hafi verið skemmtilegar. Þú varst líka mikil fyrirmynd, dugnaðarforkur, jákvæður og skemmtilegur. Svo gleymist aldrei hversu mikið náttúrubarn þú varst og mikill dýravinur.
Allt eru þetta dýrmætar minningar fyrir okkur systkinin og þegar komið er að leiðarlokum þá þykir okkur svo vænt um það að þú hafir getað tekið þátt í öllum stóru stundunum í lífi okkar beggja hingað til, brúðkaupsdögunum, skírnardögum barna okkar og afmælisdögum þeirra.
Nú tekur elsku amma á móti þér opnum örmum og við yljum okkur við hlýjar minningar.
Hvíldu í friði, elsku afi,
Gunnar Eysteinn og Guðný María.