Sigurrós Sigtryggsdóttir, sem alltaf var kölluð Rósa, fæddist á Sellandi í Fnjóskadal 5. september 1932. Hún lést 19. mars 2025.

Foreldrar hennar voru Sigtryggur Friðriksson, f. 1901, d. 1934, og Sigurbjörg Benediktsdóttir, f. 1901, d. 2002. Systkini: Þráinn, f. 1927, d. 2015, Sigrún, f. 1928, d. 2007, og Hólmfríður, f. 1931.

Eiginmaður Rósu var Jón Pétursson bifvélavirki frá Reykjarfirði á Ströndum, f. 27. janúar 1929, d. 31. október 1997. Foreldrar hans voru Pétur Friðriksson, f. 1887, d. 1979, og Sigríður Elín Jónsdóttir, f. 1893, d. 1984.

Börn Rósu og Jóns eru: 1) Elín Sigurbjörg kennari, f. 10. nóvember 1950. Maki Helgi Jóhannesson, f. 23. október 1950. Börn þeirra: a) Sunna, f. 1979. Dóttir hennar er Elísabet Sædís. b) Þrándur, f. 25. maí 1980. Maki Hanna Salminen, f. 4. mars 1976. c) Björg, f. 27. mars 1984. 2) Sigtryggur Ómar tölvufræðingur, f. 28. mars 1952. Maki Guðrún Jóhanna Magnúsdóttir, f. 23. mars 1960. Fyrri maki Sigtryggs er Kolbrún Jóhannsdóttir, f. 17. apríl 1954. Börn þeirra: a) Rósa María, f. 12. september 1978. Börn hennar eru Emilía Rós og Lilja Marín. b) Rut, f. 9. janúar 1981. Maki Jóhann Ágúst Tórshamar, f. 29. ágúst 1977. Börn hennar eru Gabríel Máni, Anika Lillý og Andrea Kellý. 3) Bryndís Rósa bókari, f. 10. júlí 1957. Maki Bergþór Guðmundsson, f. 25. júlí 1959. Börn þeirra eru: a) Guðmundur Páll, f. 10. desember 1987. Maki Lorraine Largo, f. 17. nóvember 1986. Barn þeirra er Adrían Freyr. b) Jón Birkir, f. 16. maí 1990. Maki Hildur Sif Sigurjónsdóttir, f. 17. september 1987. Börn þeirra eru Bergþór Leó og Alexandra Ýr. c) Gyða Björk, f. 20. ágúst 1991. Maki Viðar Engilbertsson, f. 29. september 1988. Börn þeirra eru Stefanía Líf, Ingunn Dís og Andrea Sif. 4) Guðmundur Heimir, f. 30. nóvember 1960, d. 28. mars 1981. 5) Sigrún Ásta safnafræðingur, f. 21. febrúar 1962.

Rósa og Jón byrjuðu búskap sinn á Akureyri og þar fæddust þrjú elstu börn þeirra. Fjölskyldan fluttist árið 1959 til Búðardals þar sem Jón tók við bifvélaverkstæði Kaupfélags Hvammsfjarðar. Í Búðardal fæddust tvö yngri börn þeirra.

Rósa var heimavinnandi fyrstu búskaparárin en réðst síðan til Pósts og síma i Búðardal og síðar vann hún lengi á Sýsluskrifstofu Dalasýslu. Hjónin byggðu sér fallegt hús í Búðardal sem þau nefndu Lindarbrekku. Rósa tók virkan þátt í félagslífi í Búðardal, var virk í mörgum félögum, svo sem kvenfélaginu, slysavarnafélaginu og Sjálfstæðisfélagi Dalasýslu, þar sem hún gegndi formennsku um skeið. Þau hjónin nutu þess að spila bridge í spilaklúbbi í Búðardal og hún söng lengi í kirkjukór Hjarðarholtskirkju. Eftir lát Jóns árið 1997 fluttist Rósa á Akranes þar sem Bryndís dóttir hennar býr með fjölskyldu sinni og gerðist Rósa hjálparhella fjölskyldunnar á uppvaxtarárum barnabarna sinna.

Útför hennar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 28. mars 2025, klukkan 13.

Nú er komið að kveðjustund við elsku mömmu. Það hellast yfir mig alls konar minningar; um æskuárin, uppvöxtinn og samverustundir fjölskyldunnar í gleði og sorg. Í minningunni átti ég hamingjuríka æsku með foreldrum mínum og systkinum í Búðardal. Ég man mömmu sitjandi við saumavélina, en hún var snillingur í fatasaumi og saumaði flest föt á okkur systkinin. Eftir að við systkinin vorum flutt að heiman komu yfirleitt allir heim um jólin og þá var nú glatt á hjalla og svignandi veisluborð. Það er kannski einmitt málið, foreldrar mínir voru alltaf til staðar, fasti punkturinn í tilverunni hjá okkur öllum. Samverustundir fjölskyldunnar heima hjá foreldrum mínum í Lindarbrekku og í sumarbústað fjölskyldunnar, sem kallaður er Frábær, voru okkur öllum mikilvægar, ekki síst þegar við systkinin komum þar saman með fjölskyldur okkar. Barnabörnin voru sérstaklega ánægð með frjálsræðið í hinum frábæra Frábæ, endalaus ævintýri með ömmu Rósu og afa Jóni. Farið var í fjallgöngur og sund, grillað og sungið saman við varðeld á síðkvöldum, á milli þess sem borið var fram hlaðborð veitinga að hætti Rósu.

Þrátt fyrir hamingjuríka ævi var lífið samt að sumu leyti þrungið áföllum hjá mömmu og okkur öllum í fjölskyldunni. Ekki er að efa að það hefur verið erfitt fyrir Rósu og systkini hennar að alast upp án föðurins sem þau misstu af slysförum þegar hún var aðeins tveggja ára að aldri. Þá þurfti amma Bogga að bregða búi í Sellandi og flytja með ungu börnin sín fjögur til foreldra sinna að Breiðabóli á Svalbarðsströnd. Mamma átti samt yndislegar minningar frá uppvaxtarárum sínum á Breiðabóli, til dæmis þegar hún hjálpaði afa sínum að róa til fiskjar á Eyjafirði, en hann var sjóndapur og það var hlutverk hinnar ungu Rósu að miða út bestu fiskimiðin með því að leiðbeina afa sínum eftir kennileitum í landi eftir hans tilsögn.

Þau mamma og pabbi og við systkinin urðum fyrir mikilli sorg þegar Mummi bróðir minn lést af slysförum aðeins tvítugur að aldri. Enginn sem ekki þekkir af eigin raun veit hvernig slíkt áfall hefur áhrif á líf þeirra sem eftir lifa. Þetta áfall þjappaði okkur fjölskyldunni enn frekar saman, þótt ekki væri mikið talað um áhrif áfallsins á hvert og eitt okkar, að þess tíma tíðaranda.

Mamma missti hann Jón sinn og pabba minn þegar hann var aðeins 68 ára gamall. Auðvitað var það mikil breyting fyrir okkur öll og ekki síst mömmu. Hún fann fyrir þörf til að vera nálægt einhverjum af afkomendum sínum og úr varð að hún flutti á Akranes, þar sem við Bergþór vorum með börn á fremur ungum aldri á þeim tíma. Amma Rósa varð stór hluti af lífi okkar og barnanna okkar, hún kom til okkar flesta daga og var ómetanleg hjálparhella í dagsins önn, sótti börnin í skóla og leikskóla, gaf þeim að borða og leiðbeindi þeim í takt við þarfir þeirra, hverju á sinn hátt.

Hvíldu í friði elsku mamma.

Bryndís Rósa Jónsdóttir.

Elskuleg móðir mín, Rósa eins og hún var alltaf kölluð, hefur eftir rúmlega 92 ár af viðburðaríku lífi lokið göngu sinni. Ég var yngsta barnið hennar, „skottið“ eins og hún kallaði mig oft. Ég fæddist og ólst upp í Búðardal og fyrir mér var lífið einfalt og öruggt, alltaf nægur tími til að leika sér með vinkonum sínum, þorpið allt var leiksvæði okkar, ekki síst fjaran. Þar var hægt að finna skeljar, sérkennilega steina, rannsaka skerið með öllum sínum munstrum og klifra í klettunum, ekki síst á Ástartröppunum.

Þegar ég kom heim eftir ævintýri dagsins þá var það eðlilegasti hlutur í heimi að þar væri allt í röð og reglu og matur á borðum. Mamma var vön stórri fjölskyldu með fimm börn, elda þurfti mat frá grunni, sauma og prjóna föt, staga í sokka og gera við rifur og slit. Mamma var einfaldlega duglegasta húsmóðir í heimi. Alltaf var heimilið hreint og fínt, fötin þvegin, straujuð og brotin fallega saman. Mamma kunni held ég ekki að búa til vondan mat, hvað þá vondar kökur, allt var svo eðlilega gott og vel gert. En á sama tíma var mamma að vinna fulla vinnu, sinna ýmsum félagsstörfum, fara með pabba til útlanda, og þau fóru með okkur Mumma bróður í ýmsar ferðir, tjaldútilegur, heimsækja ættingja og svo auðvitað í bústaðinn okkar í Reykjadal.

Þegar ég flyt að heiman, 16 ára gömul, til að fara í menntaskóla í Reykjavík, þá fannst mér það lítið mál enda átti ég alltaf traust bakland hjá foreldrum mínum sem stóðu með mér og studdu með ráðum og dáð.

Elsku mamma mín, það sem þú gafst mér mun alltaf fylgja mér.

Sigrún Ásta Jónsdóttir.