Hildur Sverrisdóttir
Hildur Sverrisdóttir
Fyrir þremur mánuðum fullyrtu fulltrúar Viðreisnar með afgerandi hætti að ekki yrði ráðist í skattahækkanir. Núna, aðeins nokkrum vikum síðar, varð viðsnúningur þar á þegar tilkynnt var um tvöföldun veiðigjalda

Fyrir þremur mánuðum fullyrtu fulltrúar Viðreisnar með afgerandi hætti að ekki yrði ráðist í skattahækkanir. Núna, aðeins nokkrum vikum síðar, varð viðsnúningur þar á þegar tilkynnt var um tvöföldun veiðigjalda.

Af ummælum margra stjórnarliða að dæma má ætla að þeir hafi staðið í þeirri trú að í engu væri um skattahækkun að ræða heldur gjaldtöku. Stjórnarliðum til glöggvunar segir reyndar berum orðum í frumvarpi því sem kynnt var í vikunni að ágreiningslaust sé að veiðigjald sé skattur í skilningi stjórnarskrárinnar. Því hefur Hæstiréttur slegið föstu í tvígang. Á það jafnt við nú sem áður þótt hækkun skattsins sé boðuð undir yfirskini einhvers konar leiðréttingar.

Á kynningarfundi atvinnuvega- og fjármála- og efnahagsráðherra í vikunni var fullyrt að ríkissjóður, og þjóðin öll, hefði „orðið af tekjum“ á síðustu árum vegna núgildandi fyrirkomulags veiðigjalda sem skuli hér með leiðrétt. Það er vart hægt annað en að skilja orð ráðherra sem svo að, að þeirra áliti, hafi verið svínað á ríkissjóði. Ætli ráðherrar Viðreisnar telji að ríkið hafi orðið af tekjum á öðrum sviðum sem kalli einnig á meinta leiðréttingu á sköttum sem að mati ríkisstjórnarinnar séu óréttlátir í dag?

Það er fleira í frumvarpsdrögunum sem skýtur skökku við, sér í lagi sú staðreynd að lagt er til að veiðigjald taki framvegis mið af markaðsverði í Noregi. Þannig er skattheimta á Íslandi byggð á aðstæðum í öðru landi, aðstæðum sem eru ósambærilegar því sem greiðendur skattsins búa við hér á Íslandi. Það er hæpið að það standist nánari skoðun eða geti talist réttlátt. Ekkert frekar en að talið sé skynsamlegt eða sanngjarnt að álagðir fasteignaskattar á Íslandi séu ákvarðaðir út frá fasteignaverði í Osló eða á Manhattan.

Rétt er að minna ríkisstjórnina á hvaðan skatttekjurnar koma. Allir skattar, hvaða nafni sem þeir nefnast, eru á endanum greiddir úr vösum venjulegs fólks, heimilanna í landinu. Það eru heimilin sem eiga fyrirtækin og það eru einstaklingarnir sem skapa verðmætin. Undirrituð efast reyndar ekki um að flestir fulltrúar Viðreisnar viti fullvel hvaðan tekjur ríkissjóðs koma. Það vekur því ákveðna undrun að Viðreisn fari út í þá vegferð sem frumvarpið boðar.

Yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar er að stækka kökuna. Þrátt fyrir það virðist alls ekki hafa verið gengið úr skugga um að áhrif breytinganna sem boðaðar eru hafi ekki þveröfug áhrif og kakan einfaldlega minnki. Ekki hafa verið metin með neinum hætti áhrif af boðuðum breytingum á afleidd áhrif, á störf á landsbyggðinni, á sveitarfélög og þá tilheyrandi kostnað fyrir ríkissjóð. Með öðrum orðum hefur ekki farið fram neitt mat á því í stóra samhenginu fyrir íslenskt samfélag hvort verið sé að kasta krónunni til að spara eyrinn.

Höfundur er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Hildur Sverrisdóttir