„Þetta er mjög bratt,“ segir Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar um þær ráðagerðir ríkisstjórnarinnar að tvöfalda veiðigjöld í einu vetfangi.
„Samráðið var lítið við greinina og breytingin snýst ekki bara um að hækka veiðigjöld, heldur er verið að gjörbreyta fyrirkomulaginu.“
Gunnþór telur hugmyndir um að sníða skattheimtu á Íslandi eftir verðmyndun á ríkisstyrktum markaði í Noregi ákaflega varhugaverðar, en finnur einnig að því að fyrirhugaðar breytingar hafi greinilega verið unnar í miklum flýti. Hann dregur í efa að þar að baki búi nægileg vandvirkni eða athuganir á fyrirsjáanlegum afleiðingum.
Við blasi að mikil hætta sé á að landvinnsla hér á landi minnki verulega.