Helgi Viðar Tryggvason
Deilt hefur verið um hvalveiðar í alþjóðlegu samhengi um áratuga skeið. Að undanförnu hefur síðan töluvert borið á nokkuð einhliða umfjöllun um meint orsakasamhengi minnkandi afla á vissum fisktegundum og þá sér í lagi loðnu og auknum fjölda tiltekinna hvalategunda. Hefur hnúfubakurinn verið nefndur til sögunnar sem sérstakur sökudólgur. Allmargar fréttir, fréttaskýringar og skoðanapistlar hagsmunaaðila í sjávarútvegi hafa birst að undanförnu, s.s. í Morgunblaðinu og Fiskifréttum, þar sem þess hefur verið krafist að hafnar verði vísindaveiðar á friðaðri tegund, þ.e. hnúfubaknum. Í þessari grein verður sýnt fram á að hvalveiðar eru tilgangslausar og óþarfar og þeirri röksemdafærslu m.a. hafnað að þá verði að veiða vegna þess að þeir éti annars frá okkur loðnuna og aðra nytjastofna við Ísland.
Hvalir hafa ekki teljandi nettóáhrif á fiskistofna okkar
Ein algengasta röksemdin sem sett er fram til að réttlæta hvalveiðar er sú að hvalir hafi neikvæð áhrif á fiskistofna og að það sé nauðsynlegt að veiða þá til þess að verja dýrmætan fisk sem við veiðum. Þetta sjónarmið er þó næsta haldlítið. Eins og dr. Edda Elísabet Magnúsdóttir líffræðingur hefur t.d. bent á eru það fiskar og aðrir afræningjar sem taka töluvert meira en hvalir af nytjategundum Íslendinga. Árangursríkara væri að beita ábyrgri fiskveiðistjórnun, þar sem notast væri við svokallaða vistkerfanálgun.
Vísindarannsóknir hafa sýnt fram á að hvalir gegna mikilvægu hlutverki í sjálfbærni sjávarlífríkis og viðhaldi líffræðilegs fjölbreytileika. Hvalir eru bæði toppneytendur og lykilþáttur í lífríki sjávar, þar sem þeir stuðla að því að viðhalda jafnvægi í vistkerfi sjávar með því að halda öðrum stofnum stöðugum.
Hvalir eru ekki ógn við fiskveiðar
Önnur ástæða sem oft er færð fram í þessum umræðum er sú að hvalir séu ógn við fiskveiðar og matvælaframleiðslu. Þannig hafa vísindamenn við Hafró reiknað út að samanlögð neysla sjávarspendýra í Norður-Atlantshafi á alls kyns sjávarlífverum sé um það bil 25 milljónir tonna á ári. Það er þó langt frá því að gera þá að alvarlegri ógn við fiskistofna eða matvælaframleiðslu. Sjávarspendýr éta mest úr neðri þrepum vistkerfa sjávar sem sjávarútvegurinn nýtir ekki eða í mjög litlu magni eins og átu og smærri uppsjávarfiska. Að undanförnu hefur þó töluverð orka farið í að finna rök fyrir tilraunaveiðum á hnúfubaki, þar sem hann á að vera valdur að hvarfi loðnunnar. Í því sambandi má vitna í orð forstjóra Hafrannsóknastofnunar í Fiskifréttum 12. mars 2025, þar sem hann benti á að vegna hækkandi hitastigs sjávar umhverfis landið hefði loðnan fært sig vestar og norðar í fæðuleit.
Samkvæmt rannsóknum frá Alþjóðahvalveiðiráðinu (IWC) eru heildaráhrif hvala gagnvart fiskveiðum lítil. Við getum einnig séð að fiskveiðar eru miklu meiri ógn við fiskistofna en hvalir. Við mannfólkið berum þarna langmesta ábyrgð. Mengun, búsvæðaröskun og ofveiði hefur gjörbreytt stórum hluta vistkerfa jarðar og er hin raunverulega plága.
Vísindalegar staðreyndir tala gegn hvalveiðum
Vísindalegar rannsóknir hafa ekki einungis sýnt fram á að hvalir hafi ekki umtalsverð áhrif á fiskistofna okkar, heldur hafa þær einnig staðfest mikilvægi þeirra í náttúrunni. Hvalir gegna lykilhlutverki í koltvíoxíðsbindandi ferlum og má segja að þeir séu nokkurs konar boðberar sjálfbærni á jörðinni. Þetta hlutverk þeirra hefur mikilvæg áhrif á lofthjúpinn, því þeir hjálpa til við að binda kolefni og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Hvalir stuðla að aukningu líffræðilegs fjölbreytileika með því að hjálpa til við að viðhalda næringarefnum í hafinu. Hvalaskítur inniheldur t.d. mikið af næringarefnum sem eru mikilvæg fyrir vöxt og heilbrigði sjávarlífvera.
Hvalir og náttúruvernd
Loks er vert að benda á að mikilvægur þáttur í umræðunni um hvalveiðar er náttúruvernd og verndun líffræðilegs fjölbreytileika. Að vernda hvali í náttúrulegum heimkynnum sínum stuðlar að heilbrigðu og sjálfbæru vistkerfi á jörðinni. Hvalir, eins og aðrar dýrategundir, eru ekki einungis mikilvægir fyrir eigin tilveru, heldur einnig fyrir líffræðilegan stöðugleika heildar, sem við sem mannkynið verðum að tryggja.
Niðurstaða
Röksemdir þeirra sem tala fyrir hvalveiðum og beita til þess ýmsum misskynsamlegum rökum, til dæmis um að hvalir séu ógn við fiskistofna okkar, eru ekki staðfest af vísindum og ályktunum. Hvalir gegna mikilvægu hlutverki í viðhaldi líffræðilegs fjölbreytileika og aðstoða við að viðhalda jafnvægi í náttúrunni. Það sem er raunverulega ógn við fiskistofna er mannlegar aðgerðir eins og ofveiði, mengun og eyðing vistkerfa. Við ættum að snúa okkur enn frekar að sjálfbærum fiskveiðum og nýta þekkingu okkar og ábyrgð til að tryggja auðlindir okkar á næstu árum. Hvalveiðar eru í þessu tilliti sem öðru tilgangslausar, miskunnarlausar og óþarfar.
Höfundur er sjávarútvegsfræðingur og áhugamaður um umhverfismál.