Þröstur V. Söring
Samkvæmt mannfjöldaspám mun þeim sem eru 65 ára og eldri fjölga um 40% á næstu 15 árum. Fjölgunin ein og sér jafngildir tæplega íbúafjölda Hafnarfjarðar. Á sama tíma mun fólki á aldrinum 15-64 ára fjölga um 30%, sem þýðir að vinnandi fólki fækkar hlutfallslega á meðan eldra fólki fjölgar.
Hvers konar samfélag viljum við byggja upp á næstu 15 árum? Hópurinn 65 til 105 ára hefur margar ólíkar þarfir, sem kalla á ólíkar lausnir. Við þurfum að búa okkur vel undir þessar breytingar, sem verða ekki á einni nóttu, heldur koma þær hægt og sígandi.
Tökum dæmi um hjón sem verða sextug á þessu ári. Fyrir 15 árum var eldgos í Eyjafjallajökli. Þá voru þau 45 ára að horfa á Ameríska drauminn á Stöð 2, kjósa um Icesave og hlusta á Bruno Mars syngja Just the Way You Are. En hvar verða þau eftir 15 ár, þegar þau verða 75 ára? Verða þau enn í stóru íbúðinni sinni? Er bílskúrinn fullur af skólabókum frá krökkunum?
Fimmtán ár eru ekki langur tími og ekki seinna vænna að skoða hverjar verða þarfir og óskir þeirra sem eldri eru. Að mörgu er að huga og taka þarf mið af því að sá hópur sem mun þurfa á þjónustu að halda í náinni framtíð hefur annan bakgrunn og gerir aðrar kröfur en sú kynslóð sem er núna á efri árum. Það er því enn mikilvægara að vera vakandi fyrir því sem koma skal. Við þurfum að skapa framúrskarandi og fjölbreytt þjónustu- og búsetuúrræði með markvissum hætti.
Sjómannadagsráð og Hrafnista hafa síðastliðin tvö ár verið í virku samtali við hagsmunaaðila, áhugafélög, íbúa, starfsfólk í öldrunarþjónustu og fleiri, þar sem horft er til framtíðar og skoðað og rætt hvað við getum gert til að koma til móts við þarfir þessa fjölbreytta og fjölmenna hóps.
Þetta samtal þarf að halda áfram og það þarf fleiri aðila að borðinu. Sjómannadagsráð, Hrafnista og DAS íbúðir efna til ráðstefnu í Hörpu 10. apríl næstkomandi sem ber yfirskriftina Öldrunarþjónusta á gervigreindaröld: Nýsköpun í öldrunarþjónustu og aukin lífsgæði aldraðra. Þar munum við m.a. deila afrakstri þessa samtals um það hvernig við sjáum fyrir okkur að skipuleggja uppbyggingu framtíðarheimila eldra fólks. Ráðstefnan er öllum opin.
Þetta er málefni sem snertir alla: Öll viljum við hugsa vel um aldraða ástvini okkar og flest okkar dreymir um að fá tækifæri til að njóta lífsins á efri árum. Þessi nýja samfélagsgerð verður mikil breyting og ljóst að allir þurfa að leggja hönd á plóg.
Höfundur er framkvæmdastjóri eignasviðs Sjómannadagsráðs.