Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Það verður skemmtilegt hjá okkur, ekki spurning,“ segir Herbert Guðmundsson söngvari en hann kemur fram í Akraneskirkju nk. sunnudagskvöld ásamt tveimur kirkjukórum, kór Keflavíkurkirkju og kór Akraneskirkju. Þar verða flutt lög Herberts í kvöldmessu sem mætti kalla Hebbamessu.
Arnór Vilbergsson kórstjóri Keflavíkurkirkju hafði samband við Herbert fyrir Ljósanótt í fyrra og sagði að presturinn í kirkjunni hefði beðið hann að hafa samband því að kórinn langaði að æfa lög eftir Herbert sem komu út á gospelplötu hans Spegli sálarinnar árið 2012.
Hebbamessa á Akranesi
Herbert var alveg til í það og kór Keflavíkurkirkju æfði 8-9 lög með honum í sumar sem voru síðan flutt í kirkjunni á Ljósanótt og þótti heppnast eindæma vel.
„Síðan hafði Hilmar Örn Agnarsson, kórstjóri í Akraneskirkju, samband við mig, en hann er mikill tónlistarmaður og var í Þeysurunum í gamla daga. Hann hafði hitt mig á förnum vegi og hafði þá heyrt af þessari uppákomu á Ljósanótt og sagðist vilja sameina báða kórana í Keflavíkurkirkju og Akraneskirkju og halda svona Hebbamessu á Akranesi eins og hann kallaði það.“
„Can’t walk away“
Að sögn Herberts mun séra Þóra Björg Sigurðardóttir segja eitthvað fallegt í upphafi messunnar. „Hún fer líka eitthvað í gegnum textana mína, en ég er yfirleitt með svona jákvæða og bjarta texta í lögunum mínum,“ segir Herbert.
„Svo segi ég aðeins söguna mína líka. Ég hef nú lent í ýmsu í gegnum ævina. Ég hef misst allt, orðið gjaldþrota, þannig að ég er með heilmikla sögu. En ég hef alltaf staðið upp aftur, á hverju sem hefur gengið. Can‘t walk away,“ segir Herbert og hlær. Hann bætir við að kórinn hafi tekið þetta frægasta lag hans í stórkostlegri útsetningu á Ljósanótt og það verði endurtekið í messunni á sunnudaginn. „Maður fær alveg gæsahúð, það er svo flott.“
Treystir almættinu
Herbert segist vera trúaður maður. „Ég fer með bæn kvölds og morgna. Fyrir 19 árum tók ég þá ákvörðun að hætta öllu rugli og hætta að drekka og dópa og varð algjör reglumaður. Í gegnum þá vinnu varð ég fyrir andlegri upplifun um að það væri eitthvað meira í heimi hér en við sjáum og hef verið trúaður síðan og treysti almættinu í öllum málum.“
Herbert segir að æfing með báðum kórunum verði fyrr á sunnudaginn áður en messan hefst klukkan 20. „Það verða báðir kórstjórarnir með, Arnór og Hilmar Örn, og síðan er ég með band líka. Þar er Bent Marinósson á gítar, Birgir Þórisson á píanó, Sigurþór Þorgilsson á bassa og Þorvaldur Kári Ingveldarson á trommum. Síðan er meðhjálparinn okkar Fjóla Lúðvíksdóttir Camille,“ segir hann að lokum og lofar mikilli upplifun á tónleikunum.