Tilþrif Líkamstjáning var Halldóri töm í tali.
Tilþrif Líkamstjáning var Halldóri töm í tali. — Morgunblaðið/Einar Falur
Að hlusta á einhvern lesa skáldsögu, nú eða fróðleik, er góð leið til að njóta næðisstundar. Ég hlusta gjarnan á kvöldin þegar ég er skriðin upp í ból til að nátta mig, en þá geri ég miklar kröfur um vandaðan lestur

Kristín Heiða Kristinsdóttir

Að hlusta á einhvern lesa skáldsögu, nú eða fróðleik, er góð leið til að njóta næðisstundar. Ég hlusta gjarnan á kvöldin þegar ég er skriðin upp í ból til að nátta mig, en þá geri ég miklar kröfur um vandaðan lestur. Ég get ekki með nokkru móti hlustað á lestur sem er blæbrigðalaus eða með öllu líflaus, það þarf að vera rennandi blóð, hiti og hjarta. Með öðrum orðum, einhver ástríða í lestrinum, að ég sem hlustandi finni að lesara er ekki sama um það sem hann les, að það skipti viðkomandi máli að hlustandi njóti og nenni að hlusta á.

Á ruv.is er hægt að sækja sér til hlustunar upplestur Halldórs Laxness á nokkrum eigin skáldsögum, sem og öðru efni. Núna er ég að hlusta á hann lesa Guðsgjafaþulu, og hvílíkt meistaraverk sem sá lestur er (sama á við um lestur hans á öllu öðru efni sem þarna er aðgengilegt). Hreinn unaður er að hlusta á leikræn tilþrif Halldórs, ólíkar tóntegundir, alls konar sveigjur og beygjur í lestrinum eftir því hvaða persóna er að tala hverju sinni, hratt, hægt, hátt, lágt, þagnir og jafnvel fliss. Textinn lifnar við og líka persónur sögunnar, enda skapaði Halldór þær sjálfur og hefur eflaust heyrt fyrir sér hvernig þær tjá sig. Get ekki mælt nógsamlega með hlustun.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir