Einbýlishús við Kaldakur í Garðabæ hefur skipt tvisvar um eigendur á innan við ári. Það var auglýst til sölu í september 2024 og seldist fljótt og örugglega. Nú hefur það verið selt aftur. Kaupendur eru Egill Arnar Birgisson og Elva Rut Erlingsdóttir, eigendur verslunarinnar Ebson sem flytur inn gólfefni. Þau greiddu 285.000.000 kr. fyrir húsið.
Um er að ræða 236,4 fm einbýlishús í Akrahverfinu í Garðabæ. Það var reist 2006 og hefur að geyma vandaðar innréttingar sem voru sérsmíðaðar hjá Hegg.
Margt í húsinu er eftirsóknarvert fyrir utan hönnun, andrúmsloft og staðsetningu. Þar er til dæmis aukin lofthæð og 200 fm timburverönd í garðinum ásamt heitum og köldum potti og matjurtagarði. Í eldhúsinu eru VOLA-blöndunartæki og granít á borðplötum svo eitthvað sé nefnt.
Þetta eigulega einbýlishús stoppaði stutt við á sölu sem er ekki skrýtið því húsin við þessa götu í Akrahverfinu hafa verið eftirsótt. Til dæmis var næsta hús við, Kaldakur 4, selt án auglýsingar í fyrra án nokkurs afsláttar.
Egill og Elva fá húsið afhent 1. júní 2025.