Egill Aaron Ægisson
egillaaron@mbl.is
Silja Bára R. Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild, er nýkjörinn rektor Háskóla Íslands en úrslitin voru kunngjörð í Hátíðarsal aðalbyggingar Háskóla Íslands í gærkvöldi.
Um var að ræða seinni umferð í rektorskjöri Háskólans. Fyrri umferðinni lauk í síðustu viku en þar hlaut enginn frambjóðandi meirihluta og þurfti því aftur að greiða atkvæði um þá tvo frambjóðendur sem hlutu flest atkvæði, en það voru Silja Bára og Magnús Karl Magnússon.
Hlaut Silja 50,7% atkvæða í kjörinu og Magnús Karl 47,6%.
Í samtali við Morgunblaðið segir Silja tilfinninguna vera stórkostlega. Baráttan hafi verið löng, en skemmtileg.
Að öllu óbreyttu mun Silja verða skipuð í embætti háskólarektors 1. júlí og reiknar hún með því að vinna mikið með fráfarandi rektor, Jóni Atla Benediktssyni, fram að þeim tíma til að undirbúa sig.
Aðspurð segir hún stóru verkefnin fram undan vera t.a.m. að þrýsta á stjórnvöld að auka fjármögnun til Háskólans.
Þá vill hún einnig sjá sterkara samfélag innan skólans.
„Við höfum ekki náð okkur eftir covid. Stúdentar eru enn þá svolítið laustengdir og starfsfólk kannski ekki jafn mikið að mæta í vinnunna, það eru margir að vinna heima og svona,“ segir Silja og heldur áfram:
„Mig langar að breyta því þannig að við séum sterkara samfélag vegna þess að ég hef þá trú að háskóli sé fyrst og fremst samfélag og að í samfélagi verði hugmyndirnar og árangurinn til.“