Mannanöfn Jóni Gnarr finnst að fólk eigi að fá að bera ættarnöfn eftir heimaslóðum sínum eins og Heimaey og Esja.
Mannanöfn Jóni Gnarr finnst að fólk eigi að fá að bera ættarnöfn eftir heimaslóðum sínum eins og Heimaey og Esja. — Morgunblaðið/Karítas
„Mér finnst það ekki endilega vera hlutverk ríkisvaldsins að hlutast til um það sem fólk vill kalla sig og ég mun fljótlega leggja fram frumvarp um breytingar á mannanafnalögum sem opnar á að fólk geti tekið upp ættarnöfn

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Mér finnst það ekki endilega vera hlutverk ríkisvaldsins að hlutast til um það sem fólk vill kalla sig og ég mun fljótlega leggja fram frumvarp um breytingar á mannanafnalögum sem opnar á að fólk geti tekið upp ættarnöfn. Eins finnst mér sanngjarnt að fólk sem ber ættarnöfn geti tekið upp nafnið sonur og dóttir,“ segir Jón Gnarr alþingismaður, en hann fékk samþykkt ættarnafnið Gnarr eftir dvöl sína í Bandaríkjunum þar sem hann var búsettur um tíma.

Íslendingum bannað að taka upp ættarnöfn

Jón segir að lögin séu tvískipt.

„Mannanöfn skulu samrýmast því sem eðlilegt þykir og hefð er fyrir og samræmast íslenskri málhefð og svo hins vegar bann við ættarnöfnum. Lengi var það þannig að erlendum ríkisborgurum sem sóttu um íslenskan ríkisborgararétt var skylt að taka upp íslenskt nafn.“

Hann segir að lögunum hafi síðast verið breytt 1996 þar sem slíkt ákvæði samræmist náttúrulega ekki mannréttindum, að taka nöfn af fólki sem flytur til landsins. Bann um ættarnöfnin hangir samt ennþá inni í lögunum og hafa þau í raun snúist upp í andhverfu sína þar sem erlendir ríkisborgarar flytja ættarnöfn sín til landsins á meðan Íslendingar mega ekki taka upp ættarnafn.

Fékk ættarnafnið Gnarr eftir dvöl í Bandaríkjunum

Jón hefur tekið upp ættarnafnið Gnarr sem gerðist með þeim hætti að hann var á tímabili búsettur í Texas í Bandaríkjunum og lét þar breyta nafni sínu. Hann hafði þar atvinnuleyfi sem leikari og rithöfundur auk þess að kenna í University of Houston.

„Þetta var nú bara einfalt og ég mætti til héraðsdómara í Houston sem breytti nafninu úr Kristinsson í Gnarr og mér sýndist umsókn mín vera númer 8.252. Þetta gekk vel, þeir stimpluðu og samþykktu og svo fékk ég þetta sent. Svo þegar ég kom aftur heim til Íslands tilkynnti ég þessa breytingu sem var hafnað í fyrstu, en svo kom síðar í ljós að ekki var hægt að hafna þessu þar sem bandarísk lög gilda hér líka.“

Fái að heita eftir heimaslóðum

Jóni finnst eðlilegt að fólk fái að bera ættarnöfn eftir heimaslóðum sínum eins og Heimaey, Esja, Engey og Keflavík.

„Því það er í anda þess ásetnings sem ég tel að hafi búið að baki þegar lögin voru samþykkt og áttu að vernda íslenska tungu. Eins finnst mér að þetta þurfi að virka á hinn veginn, að þegar erlendir ríkisborgarar vilja taka upp íslensku nafnahefðina þá sé þeim það heimilt og þeir geti verið skráðir sonur eða dóttir sé það þeirra vilji. Það getur verið leið til að aðlagast frekar því samfélagi sem þeir hafa flutt til. Sem dæmi þá flutti einn forfeðra minna, Jóhannes Gíslason, til Kanada. Hann tók upp nafnið John Yales þar sem íslenska nafnið var honum til trafala.“

Höf.: Óskar Bergsson