Mogginn er fyrsta íslenska fréttaappið og það er ókeypis

Mogginn kom út í gær. Dyggum lesendum blaðsins finnast það kannski ekki mikil tíðindi, en hér er um að ræða eilítið annan Mogga en þeir hafa handfjatlað til þessa.

Mogginn er heitið á frétta-appi fyrir snjalltæki, en með útgáfu þess verða enn ein kaflaskilin í 111 ára sögu Morgunblaðsins, sam­bærileg við það þegar fréttavefurinn mbl.is fór í loftið árið 1998.

Mogginn er ókeypis og fæst bæði fyrir Apple iPhone, iPad og Android-snjalltæki. Allt það efni sem nú er opið á netinu verður það áfram í Mogganum, en áskrifendur ganga einnig að sínu efni vísu.

Mogginn er fyrsta íslenska fréttaappið, en til þessa hafa íslenskir fréttamiðlar látið sér vefsíður duga. Það hefur gengið ágætlega, eins og sjá má á því að tveir af hverjum þremur lesendum mbl.is nota snjallsíma til lestursins. Appið hefur hins vegar ýmsa nýja kosti til þæginda fyrir lesandann, þar á meðal aukinn hraða, fjölbreytilegra efni og tilkynningar um nýjar fréttir.

Mogganum var vægast sagt vel tekið. Strax á fyrsta degi var hann mest sótta appið á Íslandi og virknin var hnökralaus, bæði notendamegin og af hálfu efnisveitu Moggans.

Mogginn vísar veginn til framtíðar um það meginhlutverk miðla Árvakurs að flytja öllum landsmönnum fyrsta flokks fréttir og afþreyingu eins og þeim hentar best.

Mogginn hefur þar forystu, en appið verður í sífelldri þróun til þess að halda henni og nýtast notendum sem best. Viðbrögð notenda hafa verið á eina lund, svo ekki láta app úr hendi sleppa.