Sara Lind Teitsdóttir er mikill fagurkeri og nýtur þess að gera fallegt í kringum sig. Hún er fædd og uppalin í Njarðvík og býr ásamt kærastanum og tveimur börnum þeirra, Leoni Myrkva fimm ára og Nótt tveggja ára, í Innri-Njarðvík. Sara starfar sem flugfreyja, förðunarfræðingur og við samfélagsmiðla.
Geturðu aðeins sagt mér frá íbúðinni sem þið búið í núna?
„Við búum í 116 fermetra endaíbúð. Í henni eru þrjú svefnherbergi og hún er því mjög hentug fyrir okkur fjögur,“ svarar hún. Fjölskyldunni líður vel í hverfinu en þau eru nýbúin að stækka við sig úr 90 fermetra íbúð. „Við færðum okkur bara yfir í næstu götu.“
Þegar Sara var orðin ófrísk að öðru barninu fóru þau að horfa í kringum sig. „Við höfðum aðeins búið í fyrri íbúðinni í rúmt ár þegar við opnuðum á þann möguleika að skoða stærri eignir. Við seldum hana síðan eftir tveggja ára búsetu þar en þá hafði hún hækkað ágætlega í virði.“
Hún mælir með því að ungt fólk kynni sér möguleikann á að setja séreignarsparnað inn á lánið.
Hvað heillaði ykkur við eignina sem þið búið í núna?
„Ég vildi eyju, þvottahús, þrjú svefnherbergi og pall og þessi íbúð hafði það allt. Hún var fullkomin fyrir okkur. Við vorum búin að skoða margar eignir en þegar þessi datt inn var einhver tilfinning. Þegar við skoðuðum hana fundum við að þessi íbúð væri sú rétta,“ segir hún.
Nú hafið þið flutt nokkrum sinnum, hvað hefurðu lært með hverju skiptinu?
„Góður fasteignasali skiptir miklu máli. Gott skipulag þarf að vera þegar styttist í flutninga. Ég mæli með að byrja á að pakka öllu því sem ekki er notað í daglegu lífi til að flýta fyrir. Svo er mjög mikilvægt ef það er hægt að hafa svolítinn tíma á milli afhendingar á nýju íbúðinni og þeirri sem þú ert að láta frá þér til þess að flytja ekki í flýti. Þetta á sérstaklega við ef fólk ætlar að mála eða fara í einhverjar framkvæmdir.“
Verður þetta auðveldara með hverju skiptinu?
„Já, ég myndi hundrað prósent segja það.“
Eru einhver húsgögn eða hlutir sem hafa fylgt ykkur frá upphafi?
„Ekki neitt nema rúmið okkar af stærri húsgögnunum. Ég er mjög dugleg að skipta út og safna fyrir draumahúsgögnum.“
Ertu með ráð fyrir annað ungt fólk sem er að flytja í sína fyrstu eign?
„Já, að byrja að safna húsgögnum og hlutum sem fyrst. Það getur verið sniðugt að kaupa einn dýran hlut í mánuði áður en þú færð afhent. Svo er mikilvægt að taka sinn tíma í að velja húsgögn því annars getur maður fengið leiða á þeim fljótt. Það skiptir máli að gera umhverfið þannig að þér líði vel heima hjá þér.“
Hvernig hefur þú skipulagt flutninga?
„Ég byrja á því að pakka því sem ég nota ekki daglega í kassa. Á flutningadeginum er ég búin að hóa saman fjölskyldu og vinum til að aðstoða og leigja flutningabíl. Það er mikilvægt að vera búin að velja málningu og allt sem þig langar að gera fyrir fram til að flýta fyrir þegar þið komið ykkur fyrir á nýjum stað.“
Hefur það tekið langan tíma að koma ykkur fyrir?
„Nei, eiginlega ekki. Það eru meiri svona stærri verkefnin sem taka lengri tíma en ég kem öllu fyrir á sínum stað fljótt.“
Eruð þið handlagin?
„Já, ég hef alltaf málað sjálf heima hjá mér og get alveg reddað mér við að gera flest allt. Svo er Bessi kærasti minn rafvirki og einnig mjög handlaginn. Svo lærir maður bara með því að prófa.“
Ertu safnari?
„Ég er mjög dugleg að losa mig við hluti. Ég hef óbeit á öllu óþarfa dóti heima hjá mér þótt það sé bara flík sem ég er með í láni.“
Er eitthvað sem þig dreymir um að eignast í íbúðina?
„Okkur langar í fallegt málverk en höfum ekki skoðað það nóg. Annars er ekkert sérstakt á óskalistanum eins og er, nema kannski nýtt eldhús.“
Hvaðan kemur áhuginn á að hafa fallegt í kringum þig?
„Þetta hefur alltaf verið í mér en ég hef fengið meiri og meiri áhuga með hverjum flutningum.“