Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Erlendir vasaþjófar hafa gert sig gildandi í auknum mæli á Þingvöllum í vetur og hefur vasaþjófnaður færst þar mjög í vöxt undanfarið. Asíubúar eru sagðir algeng fórnarlömb þjófanna og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru þar aðallega þjófagengi frá Austur-Evrópu að verki. Gengið er til verks á skipulegan hátt og þýfið jafnvel falið úti í móa og sótt síðar, þannig að ef þjófarnir eru gripnir á leið sinni frá Þingvöllum segjast þeir blásaklausir, enda ekkert þýfi á þeim að finna.
Gripnir glóðvolgir
„Fyrir rúmum mánuði voru vasaþjófar gripnir hér glóðvolgir sem voru með krumlurnar ofan í tösku hjá ferðamanni. Hann snerist til varnar og það varð smá uppákoma á Hakinu vegna þessa. Þjófarnir komust undan, en ég gat skoðað myndefni og fékk lögreglan þær upplýsingar. Þegar við skoðuðum efnið betur sáum við að sami bíllinn hafði komið hér fjóra eða fimm daga í röð og alltaf á sama tíma,“ segir Einar Á.E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður í samtali við Morgunblaðið.
„Það var eins og hann væri að stimpla sig inn til vinnu,“ segir hann.
„Þeirra daglega iðja“
„Það var greinilega þeirra daglega iðja að koma við hér á Þingvöllum og síðan héldu þeir áfram yfir á Gullfoss og Geysi,“ segir Einar sem kveðst hafa þær upplýsingar frá lögreglunni að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða.
„Þessir hópar koma hingað til lands sem ferðamenn, ekki til þess að taka myndir heldur verðmæti. Sá virðist vera tilgangurinn með veru þeirra hér á landi. Við tókum eftir mynstri hjá þeim um daginn, komu marga daga í röð,“ segir Einar og nefnir að í framhaldinu hafi lögreglan komið og haft hendur í hári þeirra, þótt ekki hafi þeir verið staðnir að verki.
Maður rændur í síðustu viku
„Við héldum að þjófarnir hefðu látið sér þetta að kenningu verða, en það var nú aldeilis ekki, því að í síðustu viku byrjaði þetta aftur og var ferðamaður rændur við útidyrnar hér hjá okkur og komust þjófarnir undan. Við gátum gefið lögreglunni upplýsingar sem kom daginn eftir og greip þrjá menn sem komnir voru til þessarar iðju. Síðan fréttum við aftur af þjófnaði fyrr í þessari viku,“ segir Einar.
Hann segir að undanfarin ár hafi farið að bera æ meira á þjófnaði á Þingvöllum þar sem vasaþjófar hafa verið að verki. Fyrir einu eða tveimur árum voru sett upp skilti þar sem fólk var varað við vasaþjófum. Starfsfólk þjóðgarðsins hefur reynt að aðstoða lögregluna með því að veita henni upplýsingar, en öryggismyndavélar eru á nokkrum stöðum á svæðinu.
Útsmognir þjófar og þrautþjálfaðir
„Ég hvet leiðsögumenn og bílstjóra sem eru í tengslum við ferðahópa til að láta þá vita af þessu ástandi. Aðferðafræði þjófanna er alltaf hin sama. Það eru kannski þrír sem fara í fórnarlambið og annar hópur er á verði á meðan. Þetta er mjög þjálfað fólk og þaulskipulagt, það vantar ekkert upp á það. Okkur þykir miður að þetta skuli gerast fyrir framan nefið á okkur, en þjófarnir eru útsmognir og þrautþjálfaðir,“ segir Einar.