Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Nguyen er mjög algengt ættarnafn í Víetnam og kemur frá sjálfum kónginum sem var uppi á 11. eða 12. öld,“ segir Elísabet Nguyen um algengasta ættarnafn á Íslandi.
Í svari Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra, vegna fyrirspurnar Jóns Gnarr um hvaða ættarnafn sé algengast á Íslandi, kemur fram að 615 manns beri ættarnafnið Nguyen og er það algengasta ættarnafnið hér á landi. Næst þar á eftir kemur ættarnafnið Blöndal.
Elísabet segir að það sé erfitt að bera Nguyen fram á Íslensku en „Núgen“ geti komist næst því.
Spurð hvort þau sem bera þetta nafn á Íslandi séu ein fjölskylda eða fleiri, segir Elísabet að þetta ættarnafn eigi sér langa sögu og því séu ekki allir skyldir sem beri nafnið, ekki frekar en Björnsdóttir eða Björnsson þurfi að vera skyld.
„Víetnamskar fjölskyldur halda vel saman á Íslandi og við höldum ekki ættarmót eins og Íslendingar gera sem koma saman án þess að allir þekkist. Okkar ættarmót eru meðal þeirra sem þekkjast vel og eru í nánu sambandi.“
Skiptu um nafn til að vera ekki drepnir
Elísabet segir nafnið að uppruna kínverskt og sá sem bar þetta nafn fyrst hafi tengst víetnömsku hirðinni. Nafnið eigi sér því langa sögu í landinu.
„Nafnið er líka mjög algengt vegna þess að fólk breytti nafni sínu í Nguyen til þess að tryggja öryggi sitt, því að fólk með nafni sem hafði tengsl við hirðina þurfti ekkert að óttast. Sagan segir að við valdaskipti konunga í Víetnam hafi þeir sem báru ættarnafn fyrri konungs átt á hættu að vera drepnir. Það bera því margir nafnið Nguyen þótt þeir séu af öðrum ættum. Mín fjölskylda er hins vegar örugglega af þessari ætt og við erum mjög stolt af því,“ segir Elísabet Nguyen.