Við fyrstu sýn mætti ætla að alger viðsnúningur hafi orðið á rekstri Strætó. Í fyrra skilaði fyrirtækið hagnaði og það í fyrsta skipti frá árinu 2017. Strætó hagnaðist í fyrra um 204 milljónir, en tapaði árið 2023 374 milljónum króna og á árunum 2018 til 2023 tapaði fyrirtækið 2,3 milljörðum.
Þegar nánar er að gáð kemur í ljós að engin breyting hefur orðið á rekstri Strætó. Þar heldur áfram að halla undan fæti. Strætó var oftar seinn fyrir í fyrra en í hittifyrra. Þegar stundvísi var mæld í nóvember reyndist leið 2 of sein í helmingi tilfella og vagnarnir seinir í þriðjungi tilfella á mörgum öðrum fjölförnum leiðum.
En hvernig getur reksturinn snúist við þegar farþegum fækkar? Svarið er einfalt. Framlag sveitarfélaganna, sem standa að Strætó, var hækkað um 389 milljarða króna auk þess sem fargjöld voru hækkuð og launakostnaður lækkaði.
Það er auðvelt að galdra fram hagnað hjá fyrirtækjum með því að hækka opinber framlög til þeirra. Sama brella var notuð til þess að búa til hagnað hjá Íslandspósti. Í fyrra var hagnaður Íslandspósts 187 milljónir króna og segir í ársskýrslu fyrirtækisins að árið 2024 hafi verið fimmta árið í röð sem afkoman væri jákvæð.
Íslandspóstur fékk 618 milljónir króna í greiðslur frá ríkinu árið 2024, en tæpar 500 milljónir árið á undan.
Þessari aðferð er vitaskuld hægt að beita í rekstri allra opinberra fyrirtækja. Síðan væri hægt að láta þessi fyrirtæki greiða eigendum sínum arð af hagnaðinum til að kóróna vitleysuna. Skattborgarinn horfir hins vegar varnarlaus á og veit að peningarnir sem fjármagna þennan skrípaleik koma úr hans vasa.
Fréttin um hagnað Strætó er athyglisverð fyrir fleiri sakir. „Á árinu í fyrra vorum við mjög sein. Umferðin hafði veruleg áhrif á okkur þannig að við vorum ekki að ná sama farþegafjölda í fyrra og í hittifyrra,“ sagði Jóhannes Rúnarsson forstjóri Strætó í samtali við mbl.is.
Um árabil hefur meirihlutinn í Reykjavík reynt að leggja stein í götu einkabílsins og sagt að fólk eigi að taka strætó. Með sleitulausum tilraunum sínum til að tefja fyrir einkabílnum hefur meirihlutanum vitaskuld einnig tekist að tefja fyrir strætó og forstjóri Strætó kemst að þeirri augljósu niðurstöðu að það sé ástæðan fyrir því að farþegum fækki.
Þetta hlýtur að teljast glæsilegur árangur.