[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, sér fyrir sér fimm afar erfiða leiki í lokakeppni Evrópumótsins í sumar. Ísland leikur þar í D-riðli í Katowice í Póllandi og mætir Ísrael 28. ágúst, Belgíu 30

EM 2025

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, sér fyrir sér fimm afar erfiða leiki í lokakeppni Evrópumótsins í sumar.

Ísland leikur þar í D-riðli í Katowice í Póllandi og mætir Ísrael 28. ágúst, Belgíu 30. ágúst, Póllandi 31. ágúst, Slóveníu 2. september og Frakklandi 4. september.

Fjögur liðanna komast áfram í 16-liða úrslitin sem hefjast 6. september í Ríga í Lettlandi.

Tvær af stórstjörnum NBA-deildarinnar verða í riðli Íslands, Luka Doncic frá Los Angeles Lakers með Slóveníu og Victor Wembanyama frá Frakklandi með San Antonio Spurs.

Frakkar eru sigurstranglegastir í riðlinum en þeir eru í 4. sæti heimslista FIBA og þriðja sæti Evrópuþjóða á eftir Serbíu og Þýskalandi.

Slóvenar eru í 11. sæti heimslistans og í 7. sæti í Evrópu, Pólverjar eru í 17. sæti listans og í 11. sæti í Evrópu, Ísraelsmenn eru í 39. sæti listans og í 18. sæti í Evrópu og Belgar eru í 40. sæti listans og í 19. sæti í Evrópu.

Ísland er í 50. sæti heimslistans og í 26. sæti í Evrópu.

„Þegar maður horfir á þennan riðil, miðað við síðustu tvö skipti, þá er þetta ekki þannig að maður andi léttar, en samt eru þetta ekki alveg sömu þjóðir með sömu sögu og í tvö fyrri skiptin. Ég þekki vel til margra leikmanna frá þessum löndum og veit að þetta verður erfitt, það fer ekkert á milli mála, en samt fáum við ekki alveg sömu risaþjóðir og á fyrstu tveimur mótunum, en árin 2015 og 2017 var hver stórstjarnan á fætur annarri í liðunum sem við mættum,“ sagði Martin.

Hann fór síðan yfir mótherjana fimm sem Ísland mætir á EM.

Vildi losna við Frakka

„Frakkar voru þeir einu þar sem ég krosslagði fingur og vildi ekki fá þá sem mótherja úr fyrsta flokki. Frakkar eru, næst á eftir Bandaríkjunum, með mesta úrval leikmanna í heiminum og það er erfitt að spila á móti þeim. Þeir eru miklir íþróttamenn, afar hæfileikaríkir og með sinn hroka og egó sem kemur þeim langt.

Frakkar eru fæddir sigurvegarar og spila alltaf upp á verðlaun á hverju einasta móti. Þeir eru risinn í evrópskum körfubolta í dag en að sama skapi verður skemmtilegt að máta sig við þá og spila á móti Victor Wembanyama sem er næsta stórstjarna körfuboltans.

Ég vonaðist til að fá annaðhvort Þjóðverja eða Spánverja úr fyrsta flokki, frekar en Frakka, því ég á marga vini í þeim tveimur liðum, og það hefði verið gaman að hitta þá. Sama með Serbana, en ekkert af þessum liðum hefði verið þægilegur mótherji.“

Doncic stærsta stjarnan

„Slóvenar eru að sjálfsögðu með Luka Doncic og svo er einn af mínum gömlu félögum, Klemen Prepelic, fyrirliðinn þeirra í dag. Ég lék með honum í þrjú ár með Valencia svo ég hlakka mikið til að mæta þeim. Auðvitað verður Luka Doncic stærsta stjarnan á þessu móti og það verður gaman að hafa hann í okkar riðli. Það munu margir flykkjast að, bara til þess að sjá hann spila. Það verður gaman fyrir áhorfendur að sjá hann á vellinum, en um leið eru Slóvenar ekki eins sterkir og þeir hafa verið undanfarin ár. Goran Dragic er hættur, hann var þeirra stjarna þegar þeir urðu Evrópumeistarar 2017, og þeir eru að fara í gegnum kynslóðaskipti.

Á sama tíma kemur alltaf einhver nýr bandarískur leikmaður inn í lið Slóvena á hverju móti svo þeir eru dálítið óskrifað blað um þessar mundir. Við vitum að þeir eru alltaf sterkir en það á eftir að koma í ljós hverjir mæta í þeirra liði.“

Pólland hentaði illa

„Pólland er með mikla körfuboltahefð og hefur alltaf átt leikmenn í NBA og í stærstu deildum Evrópu. Pólverjar eru með baráttulið sem leggur alltaf allt í sölurnar og þarf kannski að treysta meira á baráttu og orkustig en á hæfileikana, og það hentar okkur ekki alltaf vel að mæta þannig þjóðum, sem mæta með svipaða geðveiki í leikina og við.

Við vitum að það verður erfiður leikur, sérstaklega á þeirra heimavelli.

Pólland er önnur þjóð sem er að ganga í gegnum kynslóðaskipti. Margir þeirra sem við mættum á EM 2017 eru ekki lengur í liðinu og ég á eftir að kynna mér þá betur. Ég held að þeir séu ekki með neinn leikmann í Euroleague eins og er. En það sem er öruggt er að þeir eru með sterka liðsheild og verða erfiðir.“

Ísrael mikil körfuboltaþjóð

„Talandi um þjóðir með körfuboltahefð. Maccabi Tel Aviv er eitt sögufrægasta liðið í Euroleague og alltaf þegar ég hef spilað í Ísrael hefur það verið gæsahúðaraugnablik, 15 þúsund manns í höllinni og fólk sem lifir fyrir körfubolta. Ísraelar hafa alltaf átt leikmenn í NBA og eiga fullt af mönnum í Euroleague.

Körfuboltinn er mjög stór í landinu og þarna er enn einn erfiði mótherjinn. Deni Avdija hjá Portland er ein stærsta stjarnan þeirra. Þarna er það spurningin hvort allar stórstjörnurnar mæti til leiks og NBA-mennirnir verði með á mótinu“

Belgar leiðinlega fastir fyrir

„Ég man að ég sagði fyrir 2017 að við ættum að vinna Pólverjana, og svo reyndust þeir það lið sem við áttum minnsta möguleika á móti. Ég treysti mér ekki núna til að fullyrða að Belgar séu hentugasta þjóðin fyrir okkur. Þeir eru eins og Pólverjarnir miklir íþróttamenn og fastir fyrir, ekki kannski með mestu hæfileikana en sterkir varnarlega og agaðir körfuboltamenn.

Belgar eru svipað og við með 4-5 menn í sterkustu deildunum í Evrópu, nokkra þeirra í spænsku deildinni, og svo með marga sem spila í heimalandinu. Þetta eru leikmenn sem maður hlakkar ekki til að spila á móti, þeir eru leiðinlega fastir fyrir og djöflast allan tímann. Margir þeirra bestu manna undanfarin ár eru hættir eða hættir með landsliðinu. Samherji minn frá Belgíu hjá Valencia sem spilaði þar í átta til níu ár er Sam Van Rossom og ég vonast til að fá einhverja punkta frá honum,“ sagði Martin Hermannsson.

Riðlarnir á HM 2025

A-RIÐILL í Ríga, Lettlandi:

Serbía (2), Lettland (9), Tékkland (19), Tyrkland (27), Eistland (43), Portúgal (56).

B-RIÐILL í Tampere, Finnlandi:

Þýskaland (3), Litáen (10), Svartfjallaland (16), Finnland (20), Bretland (48), Svíþjóð (49).

C-RIÐILL í Limassol, Kýpur:

Spánn (5), Grikkland (13), ítalía (14), Georgía (24), Bosnía (41), Kýpur (85).

D-RIÐILL í Katowice, Póllandi:

Frakkland (4), Slóvenía (11), Pólland (17), Ísrael (39), Belgía (40), Ísland (50).

* Í svigum er staða viðkomandi lands á heimslista FIBA.

Höf.: Víðir Sigurðsson