Heiðursverðlaunahafar Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson hafa leikið í fjölda kvikmynda og eiga bæði langan og farsælan feril að baki.
Heiðursverðlaunahafar Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson hafa leikið í fjölda kvikmynda og eiga bæði langan og farsælan feril að baki. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta kemur okkur skemmtilega á óvart, það verðum við að segja, og við eru innilega þakklát,“ segja Egill Ólafsson og Tinna Gunnlaugsdóttir sem í fyrrakvöld hlutu heiðursverðlaun Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar fyrir ómetanlegt framlag til íslenskrar kvikmyndagerðar

VIÐTAL

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þetta kemur okkur skemmtilega á óvart, það verðum við að segja, og við eru innilega þakklát,“ segja Egill Ólafsson og Tinna Gunnlaugsdóttir sem í fyrrakvöld hlutu heiðursverðlaun Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar fyrir ómetanlegt framlag til íslenskrar kvikmyndagerðar.

Spurð hvaða þýðingu þetta hafi fyrir þau er svarið: „Það gleður og yljar um hjartaræturnar.“

Í samtali við Morgunblaðið rifja þau upp að þau hafi verið ung og áhugasöm þegar hið svonefnda kvikmyndavor brast á hérlendis. „Við vorum þá þegar virk í leikhúsunum og svo var auðvitað tónlistarbransinn, þar sem Egill var marghamur. En heimur kvikmyndanna heillaði með alla sína möguleika til að tjá og túlka og við vorum svo heppin að fá að vera virkir þátttakendur í því ævintýri svo gott sem frá upphafi. Bæði vorum við snemma kölluð til sem leikarar í kvikmyndum og höfum í gegnum tíðina átt aðkomu að fjölda kvikmynda, saman eða sitt í hvoru lagi og burðarhlutverkin eru orðin nokkuð mörg,“ segir Tinna.

Hluti af þroskaferlinu

Meðal kvikmynda sem Tinna hefur leikið í má nefna Útlagann (1981) eftir Ágúst Guðmundsson, Atómstöðina (1984) eftir Þorstein Jónsson og Svo á jörðu (1992) eftir Kristínu Jóhannesdóttur. Meðal mynda sem Egill hefur leikið í eru Hrafninn flýgur (1984) eftir Hrafn Gunnlaugsson, Magnús (1989) eftir Þráin Bertelsson, Agnes (1995) eftir Egil Eðvarðsson og Snerting (2024) eftir Baltasar Kormák.

Saman hafa þau hjónin leikið í meðal annars Hvítum mávum (1985) eftir Jakob Magnússon, Í skugga hrafnsins (1988) eftir Hrafn Gunnlaugsson, og Ungfrúnni góðu og húsinu (1999) eftir Guðnýju Halldórsdóttur.

Í ljósi þess að þið hafið leikið í fjölda mynda á löngum og farsælum ferli liggur beint við að spyrja hvort þið hefðuð viljað skapa fleiri myndir á ferlinum en raunin varð?

„Við getum svo sannarlega ekki kvartað yfir skorti á hlutverkum, en ástríðan er þarna ennþá og aldrei að segja aldrei.“

Hvernig finnst ykkur kvikmyndabransinn hafa breyst á umliðnum áratugum?

„Það er ómetanlegt að hafa fengið að vera hluti af þessari sögu – að hafa upplifað þessa tíma í árdaga og það er líka ómetanlegt að hafa fengið að vera viðloðandi bransann allt fram á þennan dag, þegar allt er orðið svo miklu skilvirkara og fagmannlegra. Þegar litið er yfir sviðið má vissulega halda því fram að það hafi ekki allt lukkast, en það er hluti af þroskaferlinu og það á við um allar listgreinar, sumt botnfellur, meðan annað lifir af og nær að höfða til nýrra áhorfenda og nýrra kynslóða. En svo mikið er víst að við getum öll verið stolt af þessari ungu listgrein á Íslandi, íslenskri kvikmyndagerð.“

Mikilvægt að halda þræði

Nú hafið þið bæði einnig mikla reynslu af því að leika á sviði. Hver er helsti munurinn á leikhúsinu og kvikmyndinni?

„Fyrir leikarann er innstillingin sú sama hvað persónuna sem hann leikur varðar. Þar gildir ekkert minna en fyllsti trúnaður við tilfinningar, hugarástand viðkomandi, að gera þær að sínum. Tæknilega er munurinn hins vegar talsverður, þar sem sviðsleikur kallar á meiri eftirfylgni og tækni. Í leikhúsinu hefur leikarinn líka meiri yfirsýn, sýningin er í þróun allt fram að frumsýningu og leikpersónan fær þannig að vaxa áfram á æfingatímabilinu.

Kvikmyndavinna er brotakenndari og þá þarf leikarinn sjálfur að vera meira meðvitaður um þróun persónunnar og tilteknar tilfinningar og endurskapa þær síðan nokkuð formálalaust þegar þess er krafist. Það er stundum sagt að kvikmyndavinna sé að stærstum hluta bið, en sú bið markast oftar en ekki af einbeitingu – að halda í þræðina.“

Listin er mannbætandi

Hver er að ykkar mati helsti galdur kvikmyndalistarinnar?

„Við erum öll í heiminum og heimurinn er einn, sama kvikan bærist innra með okkur öllum og góð kvikmynd getur farið svo nærri því að komast að einhverjum sammannlegum kjarna og þegar allt fellur saman og úr verður heildstætt listaverk geta áhrifin verið svo sterk að við sem áhorfendur verðum hreinlega ekki söm á eftir.

Listin er mannbætandi þegar best lætur og þar er kvikmyndalistin svo sannarlega einn af beittustu hnífunum í skúffunni.“

Eigið þið einhver heilræði til handa ungu kvikmyndagerðarfólki í dag?

„Að halda áfram að skapa og búa til – við eigum erindi við heiminn, rétt eins og heimurinn á erindi við okkur. Við hér heima höfum svo ótal margar sögur að segja og á hvíta tjaldinu rata þær víða og fá margháttaða skírskotun.“

Á vefnum mbl.is má lesa þakkarræðu Egils og Tinnu frá því í fyrrakvöld, en auk heiðursverðlaunanna var Egill verðlaunaður fyrir bestan leik í Snertingu. Þar má einnig sjá fjölda mynda af verðlaunahöfum ársins.

Eddan 2025

Vinningshafar ársins

AÐALFLOKKAR

Barna- og unglingaefni ársins Geltu
Erlend kvikmynd ársins Elskling
Heimildamynd ársins Fjallið það öskrar
Heimildastuttmynd ársins Kirsuberjatómatar
Kvikmynd ársins Ljósbrot
Stuttmynd ársins O


FAGVERÐLAUNAFLOKKAR

Brellur ársins Jörundur Rafn Arnarson og Christian Sjöstedt Ljósbrot
Búningar ársins Margrét Einarsdóttir Snerting
Gervi ársins Ásta Hafþórsdóttir Snerting
Handrit ársins Ólafur Jóhann Ólafsson og Baltasar Kormákur Snerting
Hljóð ársins Kjartan Kjartansson Snerting
Klipping ársins Sigurður Eyþórsson Snerting
Kvikmyndataka ársins Bergsteinn Björgúlfsson Snerting
Leikari ársins í aðalhlutverki Egill Ólafsson Snerting
Leikari ársins í aukahlutverki Pálmi Kormákur Snerting
Leikkona ársins í aðalhlutverki Elín Hall Ljósbrot
Leikkona ársins í aukahlutverki Katla Njálsdóttir Ljósbrot
Leikmynd ársins Sunneva Ása Snerting
Leikstjóri ársins Rúnar Rúnarsson – Ljósbrot
Tónlist ársins Högni Egilsson
Snerting


Uppgötvun ársins Gunnur
Martinsdóttir Schlüter
Heiðursverðlaun Egill Ólafsson og Tinna Gunnlaugsdóttir

Höf.: Silja Björk Huldudóttir