Margrét Dóróthea Sigfúsdóttir fæddist 10. desember 1947. Hún lést 28. febrúar 2025.

Útför Margrétar fór fram 26. mars 2025.

Við minnumst Margrétar skólastýru með gleði í hjarta. Hún var alltaf hress og skemmtileg og ekki annað hægt en að komast í gott skap í návist hennar. Hún var beinskeytt og ákveðin, en á sama tíma ljúf og góð og tók okkur öllum opnum örmum. Tíminn okkar í Hússtjórnarskólanum er okkur afar kær en þar áttum við einhverjar af okkar bestu stundum. Við verðum Margréti ævinlega þakklátar fyrir andrúmsloftið sem hún skapaði þar ásamt hinum kennurunum. Fyrir kennsluna í vörufræði og næringarfræði, sem minnti nú einna helst á heimspeki þar sem við ræddum allt milli himins og jarðar. Svo rak hún okkur alltaf út í göngutúr þegar tíminn var hálfnaður, til þess að hressa okkur við og tryggja að við myndum fylgjast almennilega með í tíma. Hún framkvæmdi það sem henni datt í hug – en okkur er sérlega minnisstætt þegar við vorum að læra um kakóbaunina í vörufræði á miðvikudegi og þá spratt upp sú hugmynd að heimsækja Nóa Síríus. Hún hringdi eitt símtal og við vorum mættar í vettvangsheimsókn í Nóa Síríus tveimur dögum seinna. Margrét var algjör viskubrunnur og það var hægt að spyrja hana að hverju sem var. Hún kenndi okkur svo margt – bæði í tengslum við heimilið – en líka bara um lífið sjálft. Það var erfitt að kveðja þegar önninni okkar í Húsó lauk. Eftir það var mikil tilhlökkun að mæta á opið hús og hitta Margréti þar aftur. Hún mundi vel eftir okkur og var ávallt glöð að sjá okkur. Það var líka gaman að sjá Margréti á sjónvarpsskjánum og fá aftur nasaþefinn af því hvernig var að læra þrif hjá henni. Við vorum svo sannarlega ekki tilbúnar að heyra fréttir af andláti Margrétar og fá því ekki fleiri tækifæri til að njóta visku hennar. Hennar verður sárt saknað og heimsóknir í Húsó verða ekki samar án hennar.

Vinkonur frá því í Húsó vorið 2013,

Arndís, Brynhildur,
Fríður, Konný, Margrét, Pála og Sigríður.

Þegar ég tók við Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað hófst einstakt samstarf og vinskapur við Margréti Dórótheu, skólameistara Hússtjórnarskólans í Reykjavík. Þá stóðu aðeins tveir hússtjórnarskólar eftir á landinu, hvor með sína sérstöðu og sögu – en með samhljóm í hugsjón og tilgangi. Við þekktum báðar mikilvægi þess að standa vörð um þessa menntun sem kenndi nemendum ekki aðeins handverk og heimilisfærni, heldur lífsgildi – virðingu fyrir hráefnum, hreinlæti, samkennd, ábyrgð og gestrisni.

Við þurftum oft að standa þétt saman þegar á reyndi í rekstri skólanna og takast á við ýmsar áskoranir. Tíðarandi og stefnubreytingar kölluðu stundum á úthald og staðfestu og þá var dýrmætt að eiga Margréti að – konu sem trúði á gildi námsins og var reiðubúin að standa fast með því. Samtöl okkar urðu mörg í gegnum árin, jafnt um daglegan rekstur sem og stærri spurningar um gildi og framtíð námsins. Margrét var ekki aðeins traustur samherji heldur kær vinkona – alltaf tilbúin með ráð, hlý orð og húmor á réttum stað.

Þegar ákveðið var að hætta hússtjórnarnámi á Hallormsstað var símtal við Margréti mér mikils virði. Það var huggun fólgin í þeirri vissu að Hússtjórnarskólinn í Reykjavík myndi áfram standa vörð um þetta merka nám og halda því lifandi. Í dag er á Hallormsstað starfrækt nám á vegum Háskóla Íslands – Skapandi sjálfbærni – þar sem hluti þeirrar verklegu og menningarlegu þekkingar sem húsmæðranámið stóð fyrir fær nýtt líf í breyttu samhengi.

Minningin um Margréti Dórótheu er ljós og hlý. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast henni og vinna með henni að því sem okkur báðum lá svo sterkt á hjarta.

Ég votta fjölskyldu, vinum, fyrrverandi samstarfsfólki og nemendum Margrétar í gegnum árin mína innilegustu samúð.

Megi minningin um Margréti verða okkur innblástur og styrkur.

Hlýjar kveðjur úr skóginum.

Bryndís Fiona Ford
skólameistari
Hallormsstaðaskóla.