Ester Sigurjónsdóttir fæddist á Siglufirði 30. júlí 1925. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 7. mars 2025.
Foreldrar hennar voru Sigurjón Björnsson skipstjóri á Siglufirði og Sigurlaug Jóhannsdóttir húsmóðir.
Ester var þriðja yngst af níu systkinum en hin voru Herdís, Sævaldur, Fjóla, Eva, Hermína, Hörður, Alfa og Geir, öll látin.
Ester giftist Guðjóni Sigmundsson stýrimanni frá Vestmannaeyjum árið 1949. Guðjón lést 13.8. 1979. Ester og Guðjón bjuggu alla sína búskapartíð í Reykjavík. Börn þeirra eru: Brynja hjúkrunarfræðingur, gift Sigtryggi Benediktssyni; Erlingur rafvirki, var kvæntur Hafdísi Magnúsdóttur, en hann lést 8. júlí 2001; Hlín iðjuþjálfi, gift Gunnlaugi Melsted; Unnur sjúkraliði, gift Agli Jóhannssyni. Hún á átta barnabörn og 15 langömmubörn.
Ester átti góðan vin og ferðafélaga til margra ára, Sævar Magnússon, hann er látinn.
Ester hafði mikið yndi af ferðalögum og ferðaðist víða um bæði innanlands og ekki síst erlendis og mikið til sólarlanda, sem var í miklu uppáhaldi hjá henni.
Það var mikið spilað á hennar æskuheimili og hafði hún mikla ánægju af að grípa í spil í góðra vina hópi.
Ester var alla tíð heilsuhraust og lífsglöð, en síðustu þrjú árin fór heilsan að gefa sig og hún dvaldi á Hjúkrunarheimilinu Eir við góða umönnun síðasta árið.
Útför hennar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 28. mars 2025, klukkan 13.
Hjartkær móðursystir mín, Ester Sigurjónsdóttir, lést í hárri elli föstudaginn 7. mars sl. Mér er það bæði ljúft og skylt að minnast hennar enda var hún stór partur í lífi mínu og fjölskyldu minnar á síðari hluta æviskeiðs hennar. Auðvitað þekkti ég Ester móðursystur mína, en ekki eins vel og síðar gerðist þegar ég og fjölskylda mín fluttum í Keilufellið í Breiðholti árið 1980. Þar bjó hún líka, þá nýlega orðin ekkja með tvær unglingsstúlkur á heimilinu en tvö eldri börnin hennar flogin úr hreiðrinu. Þarna opnaði hún faðm sinn gagnvart okkur Systu og börnum okkar og sleppti aldrei takinu. Minningarnar hrannast upp. Á þessum árum vann hún hjá SS og kom oft færandi hendi með álegg, pylsur og annað góðgæti til að létta undir með ungu fólki sem stóð í stórræðum við húsakaup og ávallt var hún aufúsugestur. Þannig var það einnig gagnvart börnum okkar, hún dansaði við þau og sprellaði og varð þar með uppáhaldsfrænkan þeirra.
Ester var lífsglöð og skemmtileg en það gat stundum hvesst í henni og þá var eins gott að vera ekkert að ybba sig. Snyrtimennska var henni sannarlega í blóð borin enda var hún einstaklega glæsileg kona eins og hún átti kyn til. Við áttum margar ógleymanlegar samverustundir í gegnum lífið og væri um veisluhöld að ræða var hún þar ávallt hrókur alls fagnaðar.
Ester fæddist inn í stóra og barnmarga fjölskyldu á Siglufirði og það var sannarlega ekki mulið undir hana frekar en systkini hennar. Hún hóf ung lífsbaráttuna, kynntist miklum heiðursmanni, Guðjóni Sigmundssyni frá Vestmannaeyjum, og saman áttu þau fjögur börn. Ekki fór hún varhluta af sorginni, Guðjón maður hennar lést langt fyrir aldur fram og Erlingur einkasonur þeirra lést einnig á besta aldri. Frænka mín bar ekki sorgir sínar á torg, heldur í hljóði og sýndi ótrúlegan styrk við erfiðar aðstæður. Dugnaður hennar við það að njóta þess sem lífið bauð upp á þrátt fyrir andstreymi sýndi svo vel karakter hennar. Ester var dugleg að ferðast bæði til sólarlanda sem og að heimsækja fjölskyldu Erlings sem býr í Noregi. Við áttum margar frábærar samverustundir á Kanaríeyjum þar sem gleðin ein ríkti og þar naut hún sín svo sannarlega.
Þau systkinin frá Siglufirði, börn Sigurjóns Björnssonar og Sigurlaugar Jóhannsdóttur, eru nú öll horfin okkur en skilja eftir fagrar og hlýjar minningar. Þau voru ólík að ýmsu leyti en traustar og yndislegar manneskjur. Elsku Ester minni viljum við Systa og börn okkar óska góðrar ferðar á nýjar slóðir og þökkum henni heilshugar vináttu hennar og væntumþykju í gegnum árin. Það verður efalaust fjör þegar þau hittast öll hinum megin Siglufjarðarsystkinin, talað hátt og mikið, hlegið og jafnvel slegið í spil. Í hjarta mér geymi ég ógleymanlegar minningar um gleðilegar stundir, hlátur, hjartahlýju og trygglyndi minnar góðu frænku. Elskulegum dætrum hennar og frænkum mínum, þeim Brynju, Hlín og Unni, og fjölskyldum þeirra sendum við fjölskylda mín innilegar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Esterar móðursystur minnar.
Sigurjón Finnsson og fjölskylda.