Ferming Upplýsingafulltrúi segir að ungt fólk sæki nú meira í kirkjustarf.
Ferming Upplýsingafulltrúi segir að ungt fólk sæki nú meira í kirkjustarf. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Fyrstu fermingar ársins voru um liðna helgi en meðal annars var fermt í Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði. Fermt verður í nokkrum kirkjum sunnudaginn 30. mars og svo hefst vertíðin með látum hinn 6. apríl næstkomandi

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Fyrstu fermingar ársins voru um liðna helgi en meðal annars var fermt í Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði. Fermt verður í nokkrum kirkjum sunnudaginn 30. mars og svo hefst vertíðin með látum hinn 6. apríl næstkomandi.

Erfitt er að henda reiður á hversu mörg börn fermast í ár á þessum tímapunkti, samkvæmt upplýsingum frá þjóðkirkjunni. „Í smærri söfnuðum rokkar fjöldi fermingarbarna auðvitað mikið upp og niður milli ára, en ef litið er á heildina þá sést að fjöldi fermingarbarna í fermingarfræðslu er á uppleið. Heilt yfir er þetta mjög sambærilegt hlutfall og hefur verið undanfarin ár,“ segir Heimir Hannesson, upplýsingafulltrúi þjóðkirkjunnar.

Heimir tekur sem dæmi að í Garðasókn sé hlutfall fermingarbarna af heildarstærð árgangsins hærra en hlutfall íbúa í þjóðkirkjunni, sem sé þó mjög hátt. „Það er mjög áhugaverð tölfræði og rímar auðvitað við þá þróun að ungt fólk sé í auknum mæli að sækja í kirkjustarf – sem hefur auðvitað verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarið.

Í Nessókn eru fermingarbörnin 105 í ár og hefur fjöldinn verið á hægri uppleið undanfarin ár. Fyrir nokkrum árum var fjöldinn um 80 en hefur ekki farið undir 100 núna í nokkur ár. Þar hefur einnig verið merkjanleg aukning í aðsókn ungs fólks í kirkjustarf.“

Þetta árið fermast 130 börn í Digranes- og Hjallaprestakalli, 154 fermast í Grafarvogsprestakalli, 217 í Lindaprestakalli og 115 í Árbæ. Þá fermast 59 börn á Ísafirði í ár en það er 25% fjölgun á milli ára að sögn Heimis.

Alls verða 525 börn fermd á vegum Siðmenntar þetta árið. Þar af verða 32 fermd í einkafermingum. Borgaralegar fermingar hafa verið haldnar á vegum Siðmenntar frá árinu 1989 og þetta er því 36. árið sem þær fara hér fram.

Fyrstu athafnir Siðmenntar í ár verða í Silfurbergi í Hörpu á laugardaginn, 29. mars. Tvær athafnir verða þann dag og fermast um 60 börn í hvorri athöfn. Alls verða 16 hópathafnir um allt land; í Reykjavík, Hafnarfirði, Akranesi, Akureyri, Eskifirði, Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjum og á Selfossi.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon