Brynjólfur Bjarnason fæddist 18. júlí 1946. Hann lést 16. mars 2025.

Útför Brynjólfs fór fram 25. mars 2025.

Góður samstarfsfélagi, Brynjólfur Bjarnason, er nú fallinn frá eftir erfið veikindi.

Ég kynntist Brynjólfi fyrst á vettvangi Samtaka atvinnulífsins, en kynni okkar urðu dýpri þegar hann var ráðinn forstjóri Símans á þeim tíma sem ég var stjórnarformaður fyrirtækisins. Það reyndist mikið gæfuspor að fá hann inn í fyrirtækið og þá vegferð sem fram undan var. Hann leiddi félagið í gegnum einkavæðingu og stýrði söluferli þess með miklum sóma. Hann setti saman hóp öflugra stjórnenda og mörg úr þeim hópi hafa síðan tekið við leiðandi hlutverkum í íslensku atvinnulífi og notið góðs af leiðsögn hans. Brynjólfur hafði einstaka hæfileika til að velja réttu teymisfélagana, blanda saman ólíku fólki og finna styrkleika hvers og eins. Hann virkjaði þá og leyfði fólki að njóta sín til fulls.

Eftir samvinnu okkar hjá Símanum vorum við svo heppin að fá hann til liðs við okkur í Straumsvík, þar sem hann tók sæti í stjórn ISAL. Í gegnum störf okkar ferðuðumst við mikið saman, bæði innanlands vegna Símans og erlendis vegna ISAL. Aldrei bar skugga á samstarf okkar, þrátt fyrir að við værum að glíma við ýmsar áskoranir og erfiðleika í rekstri þessara stóru fyrirtækja. Brynjólfur var snjall í ákvarðanatöku og naskur á hvað myndi skila árangri.

Það var einstaklega gott að vinna með Brynjólfi. Hann var traustur, úrræðagóður og yfirvegaður í öllum aðstæðum. Hann skapaði létt og skemmtilegt andrúmsloft, var þægilegur í samstarfi og alltaf með hlýlegt viðmót. Hann var víðsýnn og með mikla þekkingu sem hann miðlaði af örlæti.

Brynjólfur og eiginkona hans, Þorbjörg, mynduðu saman sterkt og samhent teymi. Ég er þakklát fyrir kynni mín af þeim hjónum og fjölskyldu þeirra. Ég minnist Brynjólfs með djúpri virðingu og þakklæti og votta eiginkonu hans og fjölskyldunni allri mína innilegustu samúð.

Rannveig Rist.