Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Magnús Halldórsson heyrði Guðna Ágústsson lýsa því að gamla Þingborg yrði að víkja til að tvöfalda veginn um flóann. „Ómetanleg menningarverðmæti glatast, enda stóð ég þar ungur á leiksviði.“ Magnúsi varð að orði og sótti í Jónas Hallgrímsson:
„Þá riðu hetjur um héruð
og skrautbúin skip fyrir landi.“
Skartmenni þá voru þéruð,
og þá var hér bruggaður landi.
„Þar stóð hann Þorgeir á þingi,“
í Þingborg var fólkið á iði,
og þá var nú klappað af kynngi,
fyrir kappanum Guðna á sviði.
Jósef Stalín lést 5. mars 1953 og varð fáum harmdauði. Eldingu laust niður í strompinn á bænum Stóru-Reykjum í Flóa um þetta leyti, sama dag og fregnir bárust af andláti hans. Þá var ort:
Illir andar fóru á stjá
ýmislegt að sýsla.
Stalín hljóp í strompinn hjá
Stóru-Reykja-Gísla.
Stefán frá Móskógum orti eftirmæli á sínum tíma þar sem Stalín kom við sögu:
Jónas gamli fúll og forn
fallinn er í valinn.
Brennimerktur á bæði horn
bæði Kölska og Stalín.
Loks framtíðarspá Ludvigs Kemps:
Ekki er hún fögur vor framtíðarspá,
en furðuleg mun hún þó talin:
að Evrópu skipta í útkjálka þrjá
þeir andskotinn, Hitler og Stalín.
Pétur Stefánsson yrkir fallega vísu:
Lífið er indælt að ég tel
ef við góðvild þjálfum.
Látir þú öðrum líða vel
líður þér betur sjálfum.
Ingólfur Ómar Ármannsson yrkir um fésbókarvin:
Lífs um stræti fimur fer
frjáls með glöðu sinni.
Þess á milli alltaf er
að yrkja á fésbókinni.
Afbragðsvísur yrkir hann
oft er stuð á kalli.
Bragasmíði ætíð ann
óðargarpur snjalli.
Þorvaldur Jónsson les í veðrið:
Úti segir Kári „hviss„
kannar næsta sporið.
Hann er ekki alveg viss.
„Á ég að senda þeim vorið?“