Bergþóra Þórhallsdóttir
Bergþóra Þórhallsdóttir
Við þurfum ekki að banna tæknina heldur kenna börnum að nota hana skynsamlega.

Bergþóra Þórhallsdóttir

Umræða um að snjallsímar valdi kvíða og vanlíðan meðal barna og unglinga hefur verið áberandi og kallað er eftir því að símar verði einfaldlega bannaðir í skólum. Þótt áhyggjur séu skiljanlegar verðum við að passa okkur á því að rugla ekki saman í umræðunni notkun persónulegra snjallsíma sem foreldrar afhenda börnum og notkun stafrænnar tækni í námi og kennslu.

Snjallsímanotkun og námsmiðuð tækninotkun

Snjallsímar eru aðallega notaðir í félagslegum tilgangi. Þeir veita aðgengi að samfélagsmiðlum, myndum, leikjum og öðru skemmtiefni og spjalli. Notkun þeirra fer að mestu leyti fram utan kennslustofunnar og er það sem við getum kallað óformlega notkun og án mikillar afskipta fullorðinna. Í skólum er tækninotkun einkum miðuð við nám og kennslustundir. Í frímínútum getum við langflest verið sammála um að við viljum sjá nemendur í félagslegum samskiptum í auknum mæli. Þar komum við að þörf á samræðu um frítíma og hvernig hann nýtist til samskipta, leikja og félagsmótunar.

Í skólum er tækni notuð í skipulögðu skólastarfi þar sem öryggi og velferð nemenda er í fyrirrúmi, en öruggt skólanet, áhættumetinn kennsluhugbúnaður og kerfi með verndarstillingum og síum er sett á oddinn, sem rammar að stórum hluta möguleika í notkun tækninnar eftir aldri og þroska. Í námi með tækni er lögð áhersla á gagnrýna hugsun, sjálfstæð vinnubrögð og að nýta tæknina til að efla lærdóm, ekki trufla hann.

Skólarnir hluti af lausninni

Það er mikilvægt að við tökum ekki í sömu andrá alla tækninotkun og álítum hana skaðlega. Staðreyndin er sú að snjallsímar eru almennt ekki notaðir í skólastarfi sem námstæki, en þar sem þeir eru einkum samskiptatæki nýtast þeir vel til að einfalda samskipti í daglegu lífi vegna ólíkra tungumála, lögblindu, heyrnarskerðingar, félagslegra erfiðleika s.s. einhverfu og fyrir sjónrænt dagskipulag. Fyrir sumum nemendum er því snjallsímatæknin brú en ekki hindrun. Í þeim tilvikum geta nemendur þurft að fá aukið svigrúm í sátt við skólaumhverfið til að nýta persónulega snjallsíma. Skólatæki nemenda sem eru skráðir á þá persónulega geta einnig komið að sama gagni, en það eru ekki allir skólar með 1:1 tæki á barn.

Ábyrg netnotkun og stafrænt siðferði eru nú blessunarlega orðin hluti af Aðalnámskrá grunnskóla og er markviss innleiðing á landsvísu því í farvatninu haustið 2025. Í haust er því gert ráð fyrir að skólanámskrár grunnskóla innihaldi þessa fræðslu.

Samfélagsmiðlar og snjallsímar eru aðgengilegir börnum utan skólatíma og á ábyrgð foreldra en skólinn er sá vettvangur þar sem þau geta lært að takast á við áskoranir stafræns lífs. Þess vegna kennum við börnum að skilja áhrif samfélagsmiðla, að nota spjallforrit, að finna jafnvægi í notkun, um áhrif stafrænna fótspora, að koma fram af virðingu, að vernda einkalíf sitt og meta upplýsingar með gagnrýninni hugsun.

Símalausir skólar leysa ekki vandann

Rannsóknir til að mynda dr. Þórhildar Halldórsdóttur, Háskólanum í Reykjavík, sýna ekki jákvæð tengsl milli símabanns í íslenskum skólum og betri andlegrar líðanar barna. Símabann er því ekki lausnin. Ábyrgðin á aðgengi að snjallsímum og samfélagsmiðlum liggur ekki hjá skólum, heldur fyrst og fremst hjá foreldrum. Í langflestum skólum eru símar ekki leyfðir í kennslustundum. Truflanir síma í geymslu hvort sem þeir eru heima, í læstum skáp eða í skólatösku hafa með það að gera að kenna nemendum að umgangast og hafa stjórn á notkuninni með stillingum og yfirlýstum vilja og skynsemi. Þekking á áhrifum tækninnar á daglegt líf og líðan og skynsamleg afstaða trúi ég að náist best með fræðslu og samtali við barnið.

Sáttmáli um notkun tækni heima og í skóla er góð leið til að börn og fullorðnir hjálpist að við að læra að hafa stjórn á notkuninni og að þekkja hversu mikil áhrif tæknin hefur á líf okkar.

Þurfum að kenna á tæknina

Í stað þess að beina spjótunum að tækni í skólastarfi þurfum við að styrkja stafræna menntun og fræðslu – bæði í skólum og heima. Börn þurfa færni til að nota tæknina á skynsamlegan hátt og skólar eru í lykilstöðu til að veita þá menntun. Með góðu samstarfi heimila og skóla getum við skapað öruggt og uppbyggilegt stafrænt umhverfi fyrir börnin okkar.

Höfundur er verkefnastjóri í upplýsingatækni í skólastarfi hjá Menntasviði Kópavogsbæjar.

Höf.: Bergþóra Þórhallsdóttir