Sviðslistaþing Listaháskóla Íslands, Praxis, verður haldið í annað sinn á morgun, laugardaginn 29. mars, milli kl. 11.30 og 17.30 í húsnæði LHÍ að Laugarnesvegi 91. Segir í tilkynningu að þingið sé vettvangur fyrir listrænar tilraunir, þekkingarsköpun og samtal milli fagvettvangsins og háskólasamfélagsins. Þannig sé þingið staður fyrir sviðslistasenuna til að koma saman og deila aðferðum og rannsóknum og hugsa saman til framtíðar.
„Við teljum að það sé mikilvægt fyrir íslenskar sviðslistir að deila þekkingu um ólíkar aðferðir og aðferðafræði utan hefðbundins ramma leikhússins og víkka sjóndeildarhringinn út fyrir okkar litla samfélag,“ segir Þorvaldur S. Helgason, akademískur verkefnastjóri sviðslistadeildar. Þá er þema Praxis í ár „Leikstjórar um leikstjórn – Hvað / Hvernig / Af hverju“ og verður aðalfyrirlesari Saana Lavaste, prófessor í leikstjórn við Uniarts Helsinki. Auk hennar verða ýmsir alþjóðlegir sviðslistamenn með erindi, þ. á m. Kevin Kuhlke, Steinunn Knútsdóttir og Una Þorleifsdóttir.