Auður Ingvarsdóttir fæddist í Reykjavík 6. apríl 1953. Hún lést á Hjúkrunarheimili Hrafnistu, Nesvöllum í Reykjanesbæ 17. mars 2025.
Foreldrar hennar voru Ingvar A. Jóhannsson, f. 26.5. 1931, d. 19.3. 2002, og Sigríður Halla Einarsdóttir, f. 9.10. 1932, d. 17.11. 2013.
Systur Auðar eru Hildur, f. 1953, Björg, f. 1958, og Rósa, f. 1960.
Fyrstu fjögur ár ævi sinnar var Auður búsett í Reykjavík en 1957 fluttist fjölskyldan til Njarðvíkur þar sem Auður sleit barnsskónum. Hún gekk í Barnaskóla Njarðvíkur, var veturlangt í Hlíðardalsskóla og varð gagnfræðingur frá Gagnfræðaskóla Keflavíkur. Auður fór jafnframt í Verslunarskóla Íslands þaðan sem hún lauk verslunarprófi.
Árið 1972 giftist Auður Jóni Eyfjörð, f. 4.5. 1948, þau slitu samvistir. Þeirra synir eru: 1) Ingvar Eyfjörð, f. 19.7. 1973, kvæntur Margréti Elísabetu Knútsdóttur Höiriis, f. 23.1. 1973.Börn þeirra eru: a) Knútur, f. 1997, í sambúð með Anítu Lóu Hauksdóttur, f. 1988, þeirra synir eru Þorri, f. 2021, og Ýmir, f. 2024. b) Jökull, f. 2006. c) Auður, f. 2009. 2) Örn Eyfjörð, f. 18.11. 1977, kvæntur Helgu Kristínu Hjarðar, f. 16.1. 1976. Börn þeirra eru: a) Ísak, f. 1996, í sambúð með Tinu Theresu Koglauer, f. 1996, þau eiga dótturina Auði, f. 2021. b) Perla, f. 2005. c) Guðrún Tinna, f. 2009. d) Nói, f. 2016.
Auður giftist Snorra Gestssyni 1985. Sonur þeirra er Einar, f. 16.11. 1987, kvæntur Valeriu R. Barba, f. 22.7. 1988, sonur þeirra er Alex, f. 2021. Fyrri kona Snorra var Jóhanna Kristín Björnsdóttir, f. 4.10. 1945, d. 30.1. 2018, þeirra börn eru: 1) Gestur, f. 16.9. 1965, hans synir eru a) Aðalberg Snorri, f. 1987, móðir hans er Kristbjörg Guðmundsdóttir, Snorri er í sambúð með Eydísi Hlín Arnarsdóttur, börn þeirra eru Arnar Berg, f. 2020, og Elma Björg, f. 2022, fyrir átti Snorri soninn Gest Helga, f. 2006, móðir hans er Elín Gestsdóttir. b) Ólafur Björn, f. 2009, móðir hans er Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir. 2) Gísli, f. 9.2. 1967, börn hans eru a) Aron, f. 2000. b) Viktoría, f. 2005, móðir þeirra er Kanda Noi. 3) Jónína Kristín, f. 2.9. 1973, gift Guðjóni Sverri Guðmundssyni, f. 7.8. 1973, þeirra börn eru a) Óskar Ísak, f. 2004. b) Andri Snær, f. 2006. c) Sara Birna, f. 2010. 4) Birna Rós, f. 22.12. 1976.
Auður var glaðvær og mikil félagsvera. Áhugamálin voru ótalmörg og hún þreyttist seint á að bæta við þekkingu sína og hæfni. Hún lærði flug, hárgreiðslu, leiðsögn, skapandi skrif, myndlist og ótal margt fleira. Hún æfði handbolta og keppti með sterku liði UMFN og þjálfaði yngri flokk stúlkna. Auður var skáti, var sjálfboðaliði í heimsóknarþjónustu Rauða kross Íslands, var einn af stofnendum Lionessuklúbbsins Æsur, var í MS-félagi Íslands o.fl. Meðan starfskraftanna naut vann hún fjölbreytt störf eins og hjá versluninni Kyndli í Keflavík, í Stapanum, hjá Varnarliðinu, var innheimtustjóri hjá Njarðvíkurbæ og starfaði um tíma í verslun í Vestmannaeyjum.
Útför Auðar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 28. mars 2025, klukkan 12.
Það er sennilega ekki tilviljun að mamma var sjómannsfrú. Þannig naut hún frelsis til að takast á við verkefnin með sínum hætti. Sjómannsfrúin bar titil sinn af reisn, var stolt af sínum manni og þakklát fyrir lífsins gjafir.
Inni á heimilinu var ekkert henni óviðkomandi og ekkert verkefni óyfirstíganlegt. Ekki heldur heilsuleysið. Gamall málsháttur segir: „Fleiri verða að sigla en þeir sem sumarveðrið hafa.“ Það þekkti hún, sem með sínu einstaka æðruleysi, tókst á við boðaföll lífsins með hugrekki og bjartsýni að leiðarljósi.
Hún greindist ung með MS og hennar stóra verkefni var að sigra sjúkdóminn. Og það gerði hún svo sannarlega. Og vopnin hennar voru ást, gleði og trú. Aldrei heyrði ég hana kveinka sér eða vorkenna. Leiðarljósin skilur hún eftir fyrir börnin sín, maka okkar, barnabörn og barnabarnabörn. Það myndi einhver kalla fullnaðarsigur.
Að alast upp hjá móður sem gaf lífinu meira en hún af því þáði markar vörður fyrir lífstíð. Og hún svo sannarlega varðaði veginn. Með brosi sínu, glettni og virðingu fyrir náunganum tókst henni að skilja eftir sig spor sem ekki fennir yfir.
Elsku fóstri minn, ást ykkar og virðing í hjónabandi eru fyrirmyndarvörður fjölskyldunnar okkar.
Þú ert ljúfasta ljóðið
og lagið, sem yfir töfrunum býr.
Þú setur brunann í blóðið,
boðar frelsi og ævintýr,
kveikir gneistann, glóðina magnar,
og gefur hjartanu ljós og yl.
Þú fagnar -
fagnar því öll að vera til.
Á liminu laufið titrar
og lofsyngur hvern þinn
andardrátt.
Steinninn starir og glitrar,
stráin fá nýjan mátt.
Návist þína þrá naktir sandar,
nábleikar heiðar og akurrein.
Hvert sem þú ferð, til fjalls eða
strandar -
þú andar -
andar lífi í mold og stein.
Þú hlærð, svo himnarnir ljóma.
Á heillandi dans minna öll þín spor.
Orð þitt er ilmur blóma,
ást þín gróandi vor,
sál þín ljósið, sem ljóma vefur
löndin og bræðir hjarnið kalt.
Í hvílunni engin jafn-sólhvít sefur.
Þú gefur -
og gefur - allt.
(Davíð Stefánsson)
Sonur þinn,
Ingvar Eyfjörð.
Elsku mamma. Þegar ég lít til baka byrjar ferðalagið okkar á vísunni um Ara og spurningum sem var svo erfitt að svara. Að kúra sig í kotið hálsa og horfa á bláu augu þín sem blikuðu djúp og skær. Þú söngst fyrir mig og allt varð betra.
Snemma kom pabbi inn í líf okkar þriggja. Það var okkar happafengur, okkar skipstjóri sem átti eftir að reynast vel. Fjölskyldan stækkaði og systkinum fjölgaði. Mikið varst þú hamingjusöm þegar litli prinsinn ykkar pabba kom í heiminn. Hjá undri því að líta lítinn fót sem reyndar skreið ekki heldur hoppaði um á rassinum.
Næst leið bátur út um eyjasund. Þar áttum við góðan tíma og fór ég á minn ástarfund sem stendur enn yfir. Þegar haldið var til víkur Njarðar gaf á bátinn. En mikið var gott að vita af þér þá í styrkum höndum skipstjórans.
Það er erfitt að kveðja þig. Ég sat við rúm þitt og þagði með þér, þjakaður af myndum í huga mér, ég minnist þín. Krafturinn, hugrekið, eljan, fegurðin, þrjóskan, ástin, húmorinn og lífsviljinn. Það var aldrei valkostur að gefast upp. Kostir þínir lifa áfram í okkur fólkinu þínu. Það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og okkur. Ég græt sorgartárum en það eru líka gleðitár. Tár sem þerrað burt aldrei nær að græða grund.
Takk fyrir allt elsku mamma mín, takk fyrir stundirnar okkar og takk fyrir pabba. Ég er stoltur háseti í ykkar áhöfn. Ég veit hver var skjól mitt, skjöldur og hlíf. Það var íslenska konan sem ól mig og gaf mér mitt líf.
Örn Eyfjörð Jónsson.
Elsku Auður mín, þú fallega og brosmilda kona, þú sterka og jákvæða mannvera sem skilur svo margt eftir hjá okkur hinum til eftirbreytni. Lífið var þér á margan hátt gott og gjöfult en þínar brekkur voru mun brattari en aðrir eiga að venjast. Það stóð ekkert í vegi fyrir þér meðan orku þinnar og krafts naut við. Þú ætlaðir ekki að láta MS-sjúkdóminn ráða ferðinni heldur settir bara í extra kraftgírinn og fórst upp þínar bröttu brekkur oftast brosandi og hlæjandi. En þú hafðir líka elsku Snorra þinn til að hvetja þig áfram og elska á svo fallegan hátt. Þið voruð ótrúleg hjón, svo ástfangin og það var svo fallegt að sjá þessa neista á milli ykkar alla tíð.
Þú varst oftar en ekki á undan þinni samtíð með svo margt. Prófa alls konar uppskriftir, tískutrend og allt milli himins og jarðar langaði þig að prófa og gera. Þú varst einstaklega glæsileg kona, ég man eftir þér á götum Keflavíkur áður en ég kom inn í fjölskylduna, gangandi um í pels, með þitt fallega liðaða og ljósa hár og svakalega mikinn maskara bara á virkum degi í búðinni. Þetta var sko ekki neitt venjuleg skvísa sem þeyttist um með matarkörfu, þegar aðrar húsmæður keyptu fisk í soðið var Auður að kaupa allskonar framandi matvæli í rétt dagsins, sem auðvitað var oftast nær mjög ljúffengur en ef ekki þá fékk hún bara hláturskast yfir einhverri tilrauninni í eldhúsinu.
Ég var nú bara 16 ára þegar ég varð tengdadóttir þín, þú tókst þér smátíma að grennslast fyrir um hvort ég væri nú nógu góð fyrir hann Ingvar þinn, en þegar ég var samþykkt reyndist þú mér svo yndislega vel. Ég fór nokkrar ferðir ein í heimsókn til þín til Eyja og þar voru auðvitað einhver ævintýri eins og þér einni var lagið. Það voru naglaásetningar og lúðrasveitatónleikar og fullt af hlátursköstum.
Síðustu árin þín tók MS-sjúkdómurinn yfir líkama þinn en fallega hugann þinn og brosið fékk hann ekki. Það var erfitt að horfa á hvernig lífið þitt fór frá þér, krafturinn og orkan en brosið þitt og hláturinn yfirgaf þig aldrei.
Elsku Auður mín, ég er þér svo þakklát fyrir samveruna, takk fyrir að vera svo mikil fyrirmynd í mörgu í lífinu. Minning þín og allar óteljandi sögurnar og hlátursköstin munu halda áfram að berst kynslóðirnar áfram. Takk fyrir allt og allt. Þín tengdadóttir,
Margrét Knútsdóttir.
Elsku amma okkar.
Nú kveðjum við þig með söknuði og okkur hlýnar um hjartans rætur þegar við hugsum um þig. Heimsóknir til þín í Keflavík og það var alltaf svo stutt í hláturinn. Gleðina sem þú gafst Ísak þegar þú sást Auði barnabarnið þitt í fyrsta skipti. Þá sagðir þú svo eftirminnilega: „Mikið er ég rík að eiga svona fallega fjölskyldu.“ Þegar þú mættir að fagna útskriftinni hennar Perlu þrátt fyrir veikindin var okkur svo dýrmætt. Jólaboðin og samverustundir á Melavegi og hangikjötið hans afa eru góðar og dýrmætar minningar.
Þrátt fyrir veikindin þín amma okkar varstu alltaf jákvæð og mættir okkur alltaf með bros á vör. Það munum við taka með okkur út í lífið. Þegar hlutirnir reynast okkur erfiðir verður allt auðveldara með jákvæðu hugarfari, brosi og hlátri.
Hvíldu í friði elsku amma okkar.
Ísak, Perla,
Guðrún Tinna og
Nói Eyfjörð.
Árið er 1953. Frumburður fæðist ungu pari, „aleigan okkar“ sögðu þau og gáfu henni nafnið Auður.
Auður var gullfalleg með sín himinbláu augu sem tindruðu af lífsgleði og stutt var í prakkarablikið.
Hún var í forystu fyrir okkur fjórum systrum, ráðagóð „ströng“ ábyrg og umfram allt svo skemmtileg stóra systir.
Það var oft líf og fjör á erilsömu æskuheimilinu og stundum gekk heldur mikið á hjá okkur, samt svo gott að ekki rekur okkur minni til neinna leiðinda enda lærðum við snemma að hláturinn er tungumál lífsgleðinnar.
Auður var skapandi og þess fengum við að njóta, eins og þegar hún gat á sinn einstaka hátt sveipað ævintýraljóma yfir allt milli himins og jarðar. Unglingurinn Auður hafði farið á ball í Stapa, morguninn eftir lágum við systur uppi í hjá mömmu og pabba og Auður að deila ballinu með okkur, „ég var spurð hvað gera foreldrar þínir og ég svaraði, pabbi minn er járnsmiður og mamma mín, hún er kónguló“ auðvitað fengum við eitt okkar eftirminnilegasta fjölskylduhláturskast, en akkúrat svona skemmti hún okkur svo oft.
Ævintýraheimur okkar saman í Álftavíkinni gaf okkur margar fallegar og skemmtilegar minningaperlur. Auður var sjálfstæð, hugrökk, fylgin sér og algjör meistari í aprílgöbbum. Hún var líka dásamlega ófullkomin, gat verið hvatvís, komið sér í alls kyns aðstæður eða haft á orði það sem kyrrt mátti liggja. Oft ranghvolfdum við hinar þá augunum og smækkuðum í sætunum en uppskárum hláturskast enda fórst okkur vel að hlæja saman. Ógleymanleg ferðalög innanlands sem utan, hjólhýsið í Þjórsárdal, heimsóknir til Eyja og notalegi tíminn í íbúð þeirra Snorra á Spáni.
Samferð Auðar og Snorra leiddi saman alla fallegu gleðigjafana sem þau höfðu fært til lífs. Snorri var Auðar klettur sem stóð með og hlúði að frá fyrsta tóni til síðasta stefs.
24 ára greindist hún með MS. Frá fyrsta degi greiningar ákvað Auður að lifa Auði en ekki MS-inu. Aldrei ræddi hún um sjúkdóminn sem óvin heldur nýtti krafta sína og tíma vel, það er samt svo sárt að yngri niðjar fengu hennar ekki notið á sama hátt og við þau eldri.
Á vordögum lífs Auðar eignaðist hún ævilanga kærleiksríka vinkonu í Þóreyju. Vináttan milli Auðar, Þóreyjar og Gunna var einlæg, falleg vinátta sem við systur erum svo hjartanlega þakklátar fyrir. Vináttan við Möggu frænku var Auði dýrmæt og Inga Magg. reyndist Auði traustur vinur.
Elsku Snorri, megi ljósið umvefja þig og fallegu minningarnar sem þú gafst með ást þinni á Auði og einstakri umhyggju. Elsku Auðar- og Snorrabörn, makar og afkomendur, með tár á hvarmi umvefjum við ykkur af kærleika og þökkum fyrir fjársjóðinn sem „Syss“ gaf okkur með allri sinni sterku og fallegu fjölskyldu.
Brostinn er strengur í brjósti okkar systra, veri okkar dásamlega stóra systir guði falin.
Hildur, Björg og Rósa.
Lífsgleði var orka sem Auður hafði og ég minnist hennar þannig.
Auður tók þátt í lífinu af öllu hjarta og gaf sjúkdómnum ekkert eftir. Rúntur, stoppa í bakaríi og þrjár heimsóknir, allt fyrir hádegi, þannig upplifði ég hana sem barn, hún var alltaf að. Ein uppáhaldsminning af frænku er þegar hraðahindranir fóru að birtast á vegum sveitarfélaganna sem allar fengu fríkeypis álagsprufur frá Auði. Hún brunaði yfir þær og þegar við Einar hoppuðum upp í loft í aftursætinu þá skellihló hún og sagði: Úps! Þetta fannst okkur ofsalega gaman. Auður var alla tíð bæði stríðin og fyndin og með ofsalega smitandi hlátur.
Ég veit að lífið fékk ég til að geta lifað því.
Ég ætla’ að lifa bara alveg eins og sýnist mér.
Margir kvarta og kveina
en ef kannski þeir reyna,
þá er lífið létt.
(Þorsteinn Eggertsson)
Guð geymi þig elsku frænka mín og takk fyrir allt.
Í vináttu og væntumþykju,
Ásdís Ólafsdóttir.
Kvatt hefur þessa tilvist fyrir aldur fram elskuleg mágkona mín, Auður.
Ég kynntist henni á unglingsárum mínum, sem svo varð til þess að ég sá Hildi systur hennar í fyrsta sinn haustið 1969. Systurnar Auður, Hildur, Björg og Rósa voru mjög samrýmdar, og leið varla sá dagur að þær væru ekki í sambandi, enda kærleikur þeirra á milli einstakur.
Auður var lífsglöð, listhneigð og einstaklega falleg kona.
Reyndar má segja að allt hennar líf hafi verið gjörningur fyrir lífið með sínum frjóa huga og léttu lund. Eftir hana liggja fjölmörg málverk og skúlptúrar, sem sum eru einstaklega falleg og lýsa góðum hæfileikum.
Samverustundirnar með Auði og Snorra verða ógleymanlegar. Hann lagði sig allan fram í að gera lífið léttara fyrir ástina sína og stóð alla tíð sterkur við hennar bak.
Fagurt skal mæla
og fé bjóða
sá er vill fljóðs ást fá,
líki leyfa
ins ljósa mans:
Sá fær er fríar.
(Úr Hávamálum)
Auður var ung kona þegar hún greindist með MS-sjúkdóminn, sem nú hefur lagt hana að velli eftir mikla baráttu. Geiglaus barðist hún við þennan sjúkdóm síðustu árin, sem lýsir best hennar innri manni.
Hvíl í friði elsku Auður.
Leifur V. Eiríksson.
Með miklum söknuði kveð ég mína kæru æskuvinkonu Auði, sem nú hefur kvatt eftir langa og stranga baráttu við MS-sjúkdóminn.
Ég var lánsöm að eignast Auði sem mína fyrstu vinkonu, þegar við vorum barnungar. Við ólumst upp í sömu götu í Njarðvík í mörg ár. Þakklát er ég fyrir allar stundirnar í uppvexti okkar, leikina, lífsgleðina, vináttuna og hversu jákvæð og skemmtileg Auður var.
Þegar Auður fór í Hlíðardalsskóla og síðar flutti til Vestmannaeyja héldum við sambandi með bréfum, heimsóknum og símtölum. Það voru okkar forréttindi að við slepptum aldrei hendinni hvor af annarri.
Þegar Auður hóf búskap og eignaðist börn fór sjúkdómurinn að segja til sín. Hann tók sinn toll, en aldrei tók hann frá henni þá jákvæðni og glettni sem einkenndi hana. Auður dvaldi á hjúkrunarheimilinu á Nesvöllum í nokkur ár. Alltaf tók hún á móti mér með brosi, kynnti mig fyrir öðrum íbúum og minnti á að við hefðum verið vinkonur frá þriggja ára aldri.
Þrátt fyrir erfið veikindi kvartaði Auður aldrei. Hún tók lífinu með æðruleysi og bar sitt hlutskipti af einstökum styrk. Þegar tal hennar fór að dvína voru bestu stundir okkar þegar við sungum uppáhaldslögin okkar frá því við vorum táningar í Stapanum.
Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með Snorra eiginmanni Auðar sem stóð alltaf við hlið hennar í þessum erfiðu veikindum, mættur til hennar alla daga og sat hjá henni fram eftir kvöldi.
Ég sakna vinkonu minnar, en á sama tíma gleðst ég yfir góðum minningum og að hún þurfi ekki að þjást lengur.
Ég votta fjölskyldu Auðar, Snorra, sonum, stjúpbörnum, tengdabörnum, barnabörnum, barnabarnabörnum, systrum og öðrum aðstandendum samúð mína.
Þórey Eyþórsdóttir.
Í dag kveðjum við með söknuði Auði Ingvarsdóttur, vinkonu okkar allt frá barnaskólaaldri. Auður hafði til að bera litríkan persónuleika, var alltaf glöð, gjörsamlega ófeimin og vildi öllum vel. Æðruleysi, hugrekki og þrautseigja einkenndu langa baráttu hennar við MS-sjúkdóminn sem hún greindist með rétt rúmlega tvítug.
Tengsl okkar vinkvennanna rofnuðu aldrei og höfum við hist nokkrum sinnum á ári um langt skeið. Þegar Auður bjó í Vestmannaeyjum tók hún á móti hópnum og dvöldum við hjá henni heila helgi og skemmtum okkur konunglega. Nú, allra síðustu ár, þegar hún treysti sér ekki lengur til að hitta okkur á veitingahúsi úti í bæ, skipulagði Þórey, kletturinn hennar, smá partí heima hjá Auði á Hrafnistu Nesvöllum. Það leyndi sér ekki hve glöð hún var að sjá okkur og ekki vorum við síður glaðar að sjá hana. Og nú þegar við horfum yfir farinn veg rifjast upp skemmtilegar og góðar minningar um Auði.
Auður í handbolta að skora mark með einstakri hringsveiflu sem enginn átti von á. Auður á hvíta Dýrlingssportbílnum. Auður að sannfæra einhvern um eitthvað. Auður og strákarnir hennar.
Í minningunum, sem eru margar, er alltaf sól og bjart í kringum ljóshærðu, hrokkinhærðu stelpuna á Hlíðarveginum í Ytri-Njarðvík.
Við vinkonurnar vottum Snorra og öðrum aðstandendum dýpstu samúð.
Fyrir hönd bekkjarsystra úr Njarðvíkurskóla,
Hulda Karen,
Jenný, Jóhanna og Oddbjörg.