Hólmfríður Sigríður Bjarnadóttir hárgreiðslumeistari fæddist 19. maí 1928 í Reykjavík. Hún lést á Hrafnistu 1. mars 2025.
Foreldrar Hólmfríðar voru hjónin Ragnhildur Einarsdóttir, f. 9. febrúar 1893, d. 3. ágúst 1973 og Bjarni Sigtryggur Jónsson, f. 28. desember 1890, d. 12. apríl 1969.
Hólmfríður var yngst sex systkina. Elstur var Björgvin, þá Einar Valgarð, Ragnar, Fjóla Valdís og Jón, þau eru öll látin.
Hinn 1. júlí 1950 giftist Hólmfríður Þorgils Hauki Sigurðssyni, f. 26. september 1922, skipstjóra frá Hnausi í Flóa í Árnessýslu, d. 8. maí 1988. Börn þeirra eru: 1) Ingunn Guðrún, maki Valdimar Örn Sverrisson. Þau eiga þrjú börn og sex barnabörn. 2) Sigurður, maki Margrét Hrönn Þrastardóttir, Sigurður á fjögur börn, þrettán barnabörn og tvö langafabörn. 3) Guðrún (látin), hún á þrjú börn og níu barnabörn. 4) Sif, maki Birgir Harðarson, Sif á þrjú börn og þrjú barnabörn. 5) Steingerður, maki Jón Eyjólfsson, Steingerður á þrjú börn og tvö barnabörn. 6) Ragnhildur Birna, unnusti Ragnar Sævarsson, Ragnhildur á þrjú börn og eitt barnabarn. Fyrir átti Þorgils Haukur dótturina Sigríði Valdís og er eiginmaður hennar Ómar Sigurðsson.
Afkomendahópur Hólmfríðar og Þorgils Hauks er stór og samheldinn. Barnabörnin er 19 talsins og barnabarnabörn 35 og eru barnabarnabarnabörn þeirra orðin tvö. Þessi fjölskylda spannar kynslóðir þar sem kærleikur, tengsl og samheldni hafa verið leiðarljós í lífi þeirra allra.
Hólmfríður ólst upp í miklum kærleika í foreldrahúsum í vesturbæ í Reykjavík ásamt systkinum, nánar tiltekið í Hamarshúsinu við Tryggvagötu. Hún gekk í Miðbæjarskólann og nam síðar hárgreiðsluiðn við Iðnskólann í Reykjavík og varð síðan hárgreiðslumeistari.
Á uppvaxtarárum Hólmfríðar byggðu foreldrar hennar sumarhús við Hlíðarveginn í Kópavogi og fór fjölskyldan þangað saman á sumrin. Þegar Bjarni lét af störfum í Hamri fluttu þau í húsið, byggðu við það og bjuggu foreldrar hennar þar alla tíð.
Landið þeirra Dvöl náði frá Digranesvegi niður að Kópavogslæk. Þar ræktaði fjölskyldan upp landið, með mikilli trjárækt, matjurtagarði og fjölbreyttum skrúðgarði. Þessi garður var verðlaunaður og er mörgum Kópavogsbúum eftirminnilegur.
Árið 1955 byggðu Fríða og Haukur sér hús við Hlíðarveg í Kópavogi. Þar bjuggu þau sér ástríkt heimili, þar til börnin fluttu að heiman og Haukur síðar lést.
Fríða var mikill Kópavogsbúi og tók virkan þátt í ýmsum félagsstörfum í bænum eftir að hún komst á eftirlaunaaldur. Hún var virkur meðlimur í bókmenntaklúbbnum Hananú, auk þess sem hún tók þátt í göngum Gönguklúbbsins.
Síðar kynntist Hólmfríður Eyjólfi Eyfeld, og þó að þeirra tími saman hafi ekki verið langur var hann fullur af kærleika og innihaldsríkur. Þau bjuggu saman í stuttan tíma í Vogatungunni í Kópavogi, þar til Eyjólfur lést 23. febrúar 1993.
Hólmfríður flutti síðar á Dalbraut 20 í íbúð eldri borgara árið 2012 og bjó þar, uns hún flutti á Hrafnistu í maí 2024 og þar bjó hún þar til hún lést.
Útför fer fram frá Digraneskirkju í dag, 28. mars 2025, klukkan 13.
Ég kveð elskulegu móður mína sem kenndi mér svo ótal margt og eftir sitja hlýjar minningar.
Mamma lifði eftir eigin gildum án þess að hafa nokkurt orð um það. Hún var full af æðruleysi og velvild í garð allra sem hún þekkti og var ávallt óspör á hrósið. Hún tileinkaði sér hæglæti, var hógvær og setti ekki merkimiða á gildin sín, hún hreinlega lifði eftir þeim. Hún var ekki sú sem sagðist vera umhverfissinnuð, hún einfaldlega var það og sýndi í verki. Lengi vel var hún e.t.v. eini „plokkarinn“ á landinu, því hún gekk ekki framhjá rusli í sínu umhverfi án þess að taka það upp og henda því þar sem það átti heima.
Mamma var náttúrubarn, sem birtist í ótal myndum. Hún orti ljóð um náttúruna, fossana, fuglana og fjöllin. Svo var hún einnig tónelsk, spilaði og samdi lög á píanóið, en alltaf spilaði hún eftir eyranu á sinn náttúrulega hátt. Hún söng eins og engill, var mikill taktur í henni og þegar hún tók lagið var eins og heil hljómsveit væri með í för.
Enginn gerði eins góðar fiskbollur og mamma, þær voru nefnilega krispí að utan og mjúkar að innan. Pönnukökurnar hennar voru alltaf þunnar og lekkerar og fullkomnar í bragði og lögun. Ég man ekki eftir að hún eldaði eftir uppskriftum, hún matreiddi af innsæi og notaði það hráefni sem var til í skápunum. Hún borðaði líka svo fallega sem var hægt og beitti hnífapörunum af natni og umgekkst matinn svo fallega til síðasta matarbita. Matargerðin hennar var ekki bara bragðgóð, heldur líka falleg fyrir augað.
Mamma var líka dama. Hún var alltaf snyrtileg, falleg og vel tilhöfð og hárið hennar alltaf óaðfinnanlegt, enda var hún hárgreiðslumeistari.
Mamma kvartaði aldrei en tvívegis á lífsleiðinni veiktist hún alvarlega, sem hún sigraðist á með sínu fallega æðruleysi. Hún var heldur enginn predikari og alls enginn tuðari um nokkurn skapaðan hlut og aldrei heyrði ég hana tala illa um nokkurn mann.
Mamma setti alltaf fjölskylduna í forgang. Hún elskaði börnin sín og alla sína afkomendur og tengdist hverju og einu á sinn einstaka hátt. Hún var límið í fjölskyldunni, passaði að vita hvernig öllum leið og deildi fréttum, þannig að enginn var útundan.
Það var alveg sama hvar við vorum í heiminum, í næsta húsi eða í Afríku, þá vissi mamma alltaf ef við vorum að glíma við lífsins verkefni. Þá kom símtalið og með fáum orðum varð allt betra.
Mamma varð ekkja 59 ára þegar faðir okkar lést en hann starfaði lengst af sem skipstjóri og þá hélt mamma heimilinu gangandi. Það var gestkvæmt á heimilinu og húsið ávallt opið fyrir gestum og gangandi. Hún prjónaði og saumaði á börnin og ef það þurfti að mála vegg eða leggja veggfóður, þá gekk hún í verkin. Ég man eftir því að eitt sinn þurfti að mála þakið á æskuheimilinu, en ekki tíðkaðist þá að kalla út málara í svoleiðis lítilræði. Hún fór hreinlega upp á þak á tvílyftu húsi, málaði þakið og það var ekki talað um það meir.
Dugnaður, hugrekki, æðruleysi og hæverska voru sum af hennar lífsins gildum sem hún sýndi ávallt í verki.
Takk fyrir þig mamma mín!
Steingerður
Ég minnist mömmu minnar sem sjálfstæðrar og duglegrar manneskju. Hún ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur, í Hamarshúsinu við Tryggvagötu, þar sem pabbi hennar var verkstjóri og á efri hæðinni var stór íbúð sem rúmaði vel fjölskylduna. Hún lærði hárgreiðslu í Iðnskólanum og starfaði við iðnina í miðbæ Reykjavíkur. Rúmlega tvítug hitti hún pabba minn og giftu þau sig 1. júlí 1950. Fyrstu árin bjuggu þau við Sjafnargötu í Reykjavík. Hjónin byggðu sér hús við Hlíðarveg í Kópavogi og fluttu þangað 1955, þá höfðu þau eignast þrjú börn.
Pabbi fór ungur til sjós, fór svo í Stýrimannaskólann og varð skipstjóri 1961.
Það hefur ekki verið auðvelt að vera sjómannskona á þessum tíma, engir voru leikskólar í Kópavogi, svo mamma hætti að vinna úti eftir að hún flutti þangað, en stundaði hárgreiðslu alla tíð, setti permanent í vinkonur og lagði hár og auðvita sá hún um að snyrta hár barnanna.
Mamma minntist oft stríðsáranna, var vitni að því þegar hermennirnir komu í land, þar sem fjölskyldan bjó við höfnina. Foreldrum hennar þótti þá ekki barnvænt að búa þar lengur, svo þau fluttu í Kópavoginn, í Dvöl við Hlíðarveg, þar sem þau höfðu komið sér upp sumarhúsi sem seinna varð heilsárshús.
Mamma hafði alltaf nóg fyrir stafni, hugsaði vel um heimilið, saumaði á okkur föt og prjónaði peysur. Mjög var gestkvæmt á heimilinu, enda bjuggu afi og amma og systkini mömmu öll nálægt okkur, svo mikill var samgangur milli heimilanna.
Það var alltaf hátíðarstund þegar pabbi kom í land, þá þurfti allt að vera fínt og strokið, hann gat verið í löngum túrum. Ég minnist þess ekki að hann hafi fengið mikið sumarfrí. Árið 1982 hætti pabbi á sjó og réð sig til BYKO, sem honum líkaði mjög vel.
Þegar börnin voru flutt að heiman fór mamma að vinna á leikskóla í Kópavogi, Kópavogsskóla og í Íþróttahúsi Digraness.
Mamma var mjög hagmælt og setti saman vísur sem gjarnan fjölluðu um náttúruna, fjöllin, lækina og fossana, en hún undi sér svo vel í náttúrunni, elskaði að fara í ferðalög um sveitir Íslands og gerði það mikið. Fór gjarnan með fjölskyldu eða vinkonum í sveitaferð og var alltaf bílstjórinn.
Mamma var afar félagslynd, átti góðar vinkonur og ræktaði vel samskipti við þær og einnig börnin, barnabörn og aðra ættingja, enda elskuðu hana allir. Þeir sem heimsóttu mömmu nutu samveru hennar, hún hældi fólki, átti auðvelt með að sjá hæfileika hvers og eins og vildi að öllum liði vel. Það var oft sem hún hvatti mig til að hætta að vinna og spurði mig hvenær ég ætlaði eiginlega að hætta, vildi að ég færi að hvílast eins og hún hugsaði það. Hún brosti líka sínu breiðasta þegar ég tilkynnti henni nokkrum dögum fyrir andlát að nú væri ég hætt og brosti svo hringinn og sagði: „Það er gott.“
Nú hefur mamma fengið hvíldina góðu, það hlýtur að vera léttir að sofna frá öllum sársauka og svífa inn í eilífðina.
Ég vil þakka mömmu langa og góða samfylgd og gott veganesti út í lífið.
Þín dóttir,
Ingunn.
Móðir mín var einstök kona – jákvæð, lífsglöð og hjartahlý. Hún tók ávallt á móti fólki með opnum faðmi og leit á alla sem jafningja. Fordómaleysi og hlýja einkenndu hana, ég man ekki eftir að hafa heyrt hana tala illa um nokkurn mann. Hún sá ætíð það besta í fólki og gaf af sér með ómældri umhyggju og kærleika.
Mamma var mjög gestrisin og gat galdrað fram veislu af minnsta tilefni. Með útsjónarsemi tókst henni einstaklega vel að gera mikið úr litlu og hvað sem hún tók sér fyrir hendur lagði hún í það alúð og metnað.
Mamma kunni svo sannarlega að njóta stundanna og fegurðar augnabliksins – hvort sem það var samvera með fjölskyldunni eða fuglasöngur úti í náttúrunni. Hún hvatti okkur alltaf til að horfa á það sem var gott í hverju augnabliki og minnti okkur á að það væri fegurð í hverjum degi. Hún kenndi okkur að meta það sem við áttum og að horfa á lífið með jákvæðum augum.
Ég hef alltaf upplifað að mamma tæki hvert lífsskeið og viðfangsefni sem verkefni sem hún leysti með bjartsýni og æðruleysi sem var svo eðlilegt fyrir hana. Hún bar sig ávallt vel og aldrei heyrði ég hana kvarta.
Mamma hafði ríka sköpunargáfu. Hún spilaði bæði á gítar og píanó, samdi lög og ljóð og tjáði sig í orðum og tónum með einstakri næmni. Áhugi hennar fyrir Íslendingasögunum var mikill og náttúran átti sérstakan stað í hjarta hennar sem endurspeglaðist gjarnan í textum hennar.
Hún elskaði útiveru og rigning og stillt veður var í miklu uppáhaldi hjá henni. Hún var einnig ótrúlega góð í að búa til stemningu – hvort sem það var með því að hanna hátíðlegu hattana um áramótin eða skrifa fallega texta, hún náði alltaf að skapa sérstakt andrúmsloft. Mamma kenndi okkur að sjá fegurðina í náttúrunni og það fallega í manneskjunni.
Mamma var ekki aðeins móðir okkar, heldur einnig okkar sterka fyrirmynd, vinkona og mikil stoð í lífinu. Hún var sú manneskja sem við leituðum til í gleði og sorg, alltaf tilbúin að hlusta, styðja og leiðbeina okkur með þolinmæði og kærleika. Hún var líka ótrúlega dugleg að gefa okkur glaðar stundir og skapa minningar sem við munum ávallt geyma.
Minning hennar lifir áfram í hjörtum okkar. Hún skilur eftir sig dýrmæta arfleifð – minningu um heilsteypta, kraftmikla og góða manneskju sem mun ávallt vera okkur innblástur og leiðarljós.
Hvíl í friði, elsku mamma mín. Þín hlýja mun ætíð umvefja okkur.
Í sólskins yl við sjávarströnd,
er stikla bárur milli hleina.
En fleyið berst um ókunn lönd,
er léttar bárur á sér leyna.
En hörpustrengi hlýð' ég á
um minningarnar hljóðar hlýjar.
Mitt huldumál ég hugsa þá
þú heyra færð þær seinna nýjar.
(Hólmfríður Bjarnadóttir)
Sif Hauksdóttir.