Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn leggja til að Reykjavíkurborg leiti samstarfs við Vegagerðina til að kanna möguleika á frekari jarðgangagerð í höfuðborginni.
„Við sjáum gríðarleg tækifæri í því að ráðast í frekari jarðgangagerð í Reykjavík,“ segir Hildur Björnsdóttir oddviti sjálfstæðismanna í viðtali við Morgunblaðið.
„Með þeim hætti mætti greiða verulega úr umferð, tryggja rólega hverfisumferð ofanjarðar og mun mannvænna umhverfi.“
Í tillögunni er lögð áhersla á að skoða fjölbreytta valkosti, sérstaklega með tilliti til fjölfarinna þjóðvega í þéttbýli sem skera í sundur íbúðahverfi. Samhliða þessu er lagt til að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að greina hvernig tilfæring stofnvega neðanjarðar geti aukið lífsgæði á yfirborðinu, þar sem meira svigrúm verði fyrir byggð, en minni mengun og ryk.
„Þessu gætu fylgt mikil tækifæri í borgarskipulaginu,“ bætir Hildur við.
„Við gætum endurhannað stór svæði sem annars færu undir umferðarmannvirki, og skapað frekari möguleika á húsnæðisuppbyggingu og stækkun útivistarsvæða í hverfum borgarinnar.“
Miklar umferðartafir
Tillagan siglir í kjölfar vaxandi umræðu um umferðarþunga og lífsgæði á höfuðborgarsvæðinu.
Samtök iðnaðarins bentu á það árið 2019 á að umferðartafir kostuðu samfélagið milljarða króna árlega, með níu milljón klukkustunda tapi fyrir borgarbúa á hverju ári. Samkvæmt því gætu 15% minni tafir skilað borgarsamfélaginu 80 milljarða króna ábata á fimm árum. Síðan hefur umferðarálagið hins vegar aukist með sívaxandi íbúafjölda, en Hildur segir ljóst að núverandi samgöngukerfi ræður illa við þróunina.
Þar telur Hildur jarðgöng augljósan kost til þess að skoða, líkt og gert hafi verið í mörgum öðrum borgum.
„Það er búið að ákveða að setja Miklubraut í jarðgöng og fljótlega þarf að taka afstöðu til þess hvort Sundabraut þveri Kleppsvík á brú eða í göngum. Þegar hafa því verið stigin fyrstu skrefin í jarðgangagerð í Reykjavík,“ segir hún og bendir á að með því að færa stofnvegi eins og Miklubraut, Hringbraut og Bústaðaveg í jarðgöng megi tengja íbúðahverfi aftur saman, draga úr umferðartöfum og skapa rými fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur á yfirborðinu.
Einkaframkvæmd möguleg
Hildur minnir einnig á beinan efnahagslegan ávinning af styttri ferðatíma og betri landnýtingu, en ekki megi heldur vanmeta gildi bættrar hljóðvistar og aukinna loftgæða í þéttbýli.
Lagt er til að kanna einkaframkvæmd sem fjármögnunarleið, líkt og við Hvalfjarðargöng, þar sem veggjöld og einkafjármagn tryggðu sjálfbæran rekstur, en fleiri norrænar fyrirmyndir eru nefndar.
Bent er á að núverandi innviðir dugi ekki til ef íbúum fjölgi um 75 þúsund á næstu 15 árum og bílum hugsanlega um 64 þúsund. Jarðgöng gætu dregið úr álagi, bætt hljóðvist og skapað rými fyrir húsnæðisuppbyggingu og útivistarsvæði, án þess að raska núverandi borgarlandslagi að öðru leyti en að fækka umferðaræðum á yfirborðinu.