Ásdís Ásgeirsdóttir
Á Netflix má nú finna bresku míníseríuna Toxic Town. Í fjórum þáttum er þar rakin sagan af afleiðingum eiturefna fyrir bæinn Corby. Í Corby var mikill stáliðnaður allt frá 1930 en ákveðið var að loka þar stórri verksmiðju í byrjun níunda áratugarins. Í niðurrifsstarfssemi á vegum bæjaryfirvalda, sem átti sér stað á árinum 1984 og 1999, var stórum opnum flutningabílum fullum af eiturefnum daglega ekið í gegnum bæinn. Úrgangurinn lak oft af trukkunum í jarðveginn og eitrað rykið fauk yfir allt og alla.
Seint á áratugnum og í byrjun þess tíunda fóru að fæðast óvenjumörg börn með vanskapaða útlimi eða aðra fæðingargalla. Mæður þessara barna tóku sig saman og kærðu yfirvöld. Við tók tólf ára barátta, en bæjaryfirvöld reyndu allt til þess að hylma yfir vanræksluna.
Breskir úrvalsleikarar eru í öllum hlutverkum, en þar má nefna Jodie Whittaker úr Broadchurch, Aimee Lou Wood, sem nú hefur slegið í gegn í The White Lotus, Robert Carlyle úr Trainspotting og The Full Monty og Brendan Coyle úr Downton Abbey. Í þessum áhugaverðu og afar vel leiknu þáttum sjáum við hlið mæðranna og fylgjumst með sorgum þeirra og sigrum.