Norlandair Um þessar mundir eru sjö flugvélar í notkun hjá félaginu.
Norlandair Um þessar mundir eru sjö flugvélar í notkun hjá félaginu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Vegagerðin hefur fyrir hönd ríkisins samið við flugfélagið Norlandair um að fljúga tíu flugferðir á viku milli Hafnar í Hornafirði og Reykjavíkur á tímabilinu 1. apríl til 31. ágúst nk. Umræddur samningur er til þess að brúa bilið fram að gildistöku …

Vegagerðin hefur fyrir hönd ríkisins samið við flugfélagið Norlandair um að fljúga tíu flugferðir á viku milli Hafnar í Hornafirði og Reykjavíkur á tímabilinu 1. apríl til 31. ágúst nk.

Umræddur samningur er til þess að brúa bilið fram að gildistöku nýs útboðs um flugleiðina en nýr samningur mun að öllu óbreyttu taka gildi 1. september 2025.

Flugfélagið Mýflug hefur sinnt fluginu undanfarna mánuði en óskaði nýverið eftir því að losna undan samningi sínum við Vegagerðina.

Fram kemur á heimasíðu Vegagerðarinnar að frá og með deginum í dag, 1. apríl, fari innritun farþega og flugfraktar alfarið í gegnum flugstöð Icelandair á Reykjavíkurflugvelli.

Hægt er að bóka flug með Norlandair á vef flugfélagsins, www.norlandair.is.

Vegagerðin auglýsti 13. mars sl. útboð á flugleiðinni Reykjavík – Hornafjörður – Reykjavík.

Samningstími er þrjú ár, frá 1. september 2025 til og með 31. ágúst 2028, með möguleika á framlengingu tvisvar, í eitt ár í senn.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilboðsfrestur er til 15. apríl.

Flugfélagið Norlandair var stofnað árið 2008. Það hefur aðsetur á Akureyri. Félagið hefur annast áætlunarflug á Íslandi og til Grænlands. Jafnframt annast Norlandair sjúkraflug.sisi@mbl.is