Norðmaðurinn Erling Haaland, næstmarkahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, fór meiddur af velli í fyrradag þegar Manchester City vann Bournemouth, 2:1, í átta liða úrslitum bikarkeppninnar

Norðmaðurinn Erling Haaland, næstmarkahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, fór meiddur af velli í fyrradag þegar Manchester City vann Bournemouth, 2:1, í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Hann meiddist á ökkla en Pep Guardiola knattspyrnustjóri City kvaðst lítið vita um alvarleika meiðslanna. Haaland yfirgaf leikvanginn á hækjum og í sérstöku hlífðarstígvéli á vinstri fætinum.

Austurríkismaðurinn Erwin Lanc er látinn, 94 ára að aldri, en hann var um árabil í fremstu röð forsvarsmanna evrópsks og alþjóðlegs handbolta. Lanc var forseti Alþjóðahandknattleikssambandsins, IHF, frá 1984 til 2000 og tók drjúgan þátt í stofnun Handknattleikssambands Evrópu, EHF. Þá var hann formaður austurríska handknattleikssambandsins í 16 ár og gegndi um 11 ára skeið þremur ráðherrastöðum í ríkisstjórn Austurríkis.

Enska knattspyrnufélagið Everton var rekið með tapi sjöunda tímabilið í röð 2023-2024, en félagið greindi frá þessu í gær. Taprekstur tímabilsins nam 53 milljónum punda, rúmum níu milljörðum íslenskra króna. Félagið verður þó ekki svipt stigum á þessu tímabili þar sem stór hluti taprekstursins er vegna byggingar á nýjum leikvangi og reksturs á unglinga- og kvennaliðum félagsins.

Varnarmennirnir Harry Maguire og Leny Yoro geta leikið með Manchester United á ný í kvöld þegar liðið sækir Nottingham Forest heim í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Þeir hafa náð sér af meiðslum en margir varnarmanna liðsins eru enn fjarverandi vegna meiðsla.

Knattspyrnukonan Mikaela Nótt Pétursdóttir er gengin til liðs við FHL sem leikur í fyrsta skipti í efstu deild á komandi keppnistímabili. Mikaela, sem er 21 árs varnarmaður, kemur að láni frá Breiðabliki en hún lék tíu leiki með Íslandsmeisturunum í Bestu deildinni á síðasta tímabili.