Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Þetta er lokaverkefnið okkar í Menntaskólanum við Sund á vegum JA Ungra frumkvöðla,“ segir Birna Kolbrún Jóhannsdóttir, ein úr hópnum sem hefur stofnað veffyrirtækið Urri.is þar sem hægt er að kaupa hundaleikföng úr endurnýtanlegum efnum. Þau segja að áfanginn hafi verið mjög skemmtilegur og áður en þau byrjuðu að vinna í verkefninu eftir jólin hafi þau ekki þekkst, en í hópnum eru Birna Kolbrún, Alma Ösp Óskarsdóttir, Ketill Ágústsson, Selma Lísa Björgvinsdóttir og Aron Valur Gunnlaugsson.
„Við eigum öll gæludýr. Fjögur okkar eiga hunda og ein á kött, og okkur fannst að lítið væri verið að framleiða vörur fyrir hunda og gæludýr á Íslandi,“ segir Alma Ösp. „Það vantaði íslensk leikföng fyrir hunda, leikföng sem væru öðruvísi og bættu einhverju við það sem er til á markaðinum,“ segir Selma og bætir við að strax í upphafi hafi verið ákveðið að hafa framleiðsluna vistvæna og endurnýta hluti sem annars yrði bara hent.
Vildu vera vistvæn
Allt sem er notað í framleiðsluna er endurunnið. „Við fengum notaða tennisbolta frá Tennishöllinni, fiskinet frá Brimi sem við fengum að nýta úr endurvinnslugámunum þeirra og umbúðirnar eru úr notuðum kartöflupokum frá Þykkvabæ. Svo notum við fiskroð sem við fengum frá Vestfiski á Flateyri,“ segir Birna Kolbrún.
„Við erum í mjög góðum samskiptum við fiskvinnsluna á Flateyri og fórum í leiðangur vestur með leikföng til að sjá hvernig við gætum nýtt roðið í leikföngin. Fiskvinnslan er með þurrkunarklefa og roðið er sett utan um boltana og þurrkað í klefanum.“
Roðið hefur marga kosti
Þau segja að roðið sé lykilatriði í því að vekja áhuga hunda á leikfanginu. „Það er lykt af roðinu sem hundarnir finna vel, jafnvel eftir að þeir eru búnir að naga roðið af helst lyktin,“ segir Alma og þau bæta við að hundarnir þeirra séu mjög hrifnir af leikföngunum. „Við finnum ekki lyktina því við erum ekki með jafn gott lyktarskyn og hundar,“ segja þau og hlæja. „Svo er roðið frábært prótín og kollagen sem er gott fyrir beinin, og eins er það mjög gott fyrir tannheilsu hunda,“ segir Aron Valur.
Ótrúlega gaman
„Ég er búinn að læra ótrúlega mikið í þessum áfanga,“ segir Aron Valur. „Við erum búin að vera að kynna verkefnið, tala við fólk úti í bæ, framleiða vöruna, fara á fund og markaðssetja vöruna, svo þetta er alveg frábær grunnur fyrir framtíðina.“
Hópurinn er búinn að vinna langt fram eftir við framleiðsluna, en leikföngin eru öll handgerð og þau segja að það taki alveg 15-20 mínútur að búa til hvert leikfang áður en þau eru send vestur til þurrkunar. „Þótt það sé mikið að gera er það ótrúlega gaman að gera svona hluti saman, og við verðum örugglega vinir fyrir lífstíð,“ segir Ketill. Næsta laugardag, 5. apríl, munu þau kynna leikföngin á vörumessu Ungra frumkvöðla í Smáralind.