Trausti Pétursson fæddist 28. apríl 1937. Hann lést 8. mars 2025.

Útför Trausta fór fram 25. mars 2025.

Það er ekki með tár á hvarmi sem ég rita minningarorð um Trausta föðurbróður minn, heldur með gleði og þakklæti fyrir alla skemmtunina á okkar tæplega sextíu ára samleið. Það hefur ekki brugðist að þegar ég hef hugsað til Trausta í gegnum tíðina hef ég byrjað að hristast og á endanum skellt upp úr. Húmorinn hans gat stundum verið til vandræða, eins og t.d. í eldhúsinu hjá ömmu í Blesugrófinni, þá var hann einu sinni sem oftar að herma eftir ónefndri konu og við sátum þar við eldhúsborðið, Trausti, ég, afi og Manni mágur hans. Manni var rétt búinn að setja upp í sig hálfa jólakökusneið og var að fá sér sopa af mjólkinni þegar Trausti byrjar að geifla sig og herma eftir frúnni, þá springur Manni úr hlátri og frussar öllu yfir tengdaföður sinn. Þá rumdi í afa gamla: „Hvað er þetta, það er bara blindbylur hérna.“ Það munaði litlu að þakið rifnaði af B-götu 13 í Blesugróf, svo mikið hlógum við.

Þótt Trausti væri lærður gull- og silfursmiður þá starfaði hann við ýmislegt annað á langri ævi, hann var háseti hjá Landhelgisgæslunni bæði á Maríu Júlíu og gamla Þór, tók þátt í þorskastríðinu með Eiríki Kristóferssyni skipherra. Hann ók einnig vörubílum hjá Vörðufelli og Háfelli og dráttarbílum hjá Sandi hf. Hann starfaði einnig sem varðstjóri hjá Bílastæðasjóði um áratugaskeið.

Við Trausti unnum saman hjá Sandi, ég á hjólaskóflu og hann sem bílstjóri. Á þessum árum var mikið að gera. Á daginn vorum við að fylla í húsgrunna og á kvöldin fóru bílarnir austur að Hrauni í Ölfusi að sækja pússningarsand, þá voru nú engin hvíldartímaviðurlög og menn máttu vinna eins og þeir vildu. Þar sem ég hafði ekki aldur til að taka meirapróf sat ég oft í með Trausta í þessari kvöldkeyrslu, og þegar við vorum komnir austur fyrir Lambafell lét frændi mig taka við akstrinum. Þannig kenndi hann mér að keyra Trailer alveg eins og hann hafði gert 10 árum áður, þegar hann kenndi mér að keyra gamla Moskann í sandgryfjunum í Blesugróf.

Trausti var mikill húmoristi og hafði gaman af því að stríða fólki án þess að hrekkja neinn. Eitt sinn vorum við að koma saman í hádegismat í Sandsölunni og í matsalnum sat Ingi forstjóri Sandsölunnar og var að borða sviðakjamma. Þá gellur í Trausta: „Er þetta ætt, Ingi?“ Já, þetta er mjög gott, svaraði forstjórinn. „Það var ekki það sem ég spurði um,“ sagði Trausti og við það rifnaði salurinn úr hlátri. Eitt sinn þegar Trausti vann hjá Bílastæðasjóði hringdi verulega ósáttur bíleigandi til að kvarta yfir bílastæðasekt. Trausti kvað upp þann úrskurð að manninum bæri að greiða sektina! Maðurinn varð alveg brjálaður og sagðist ætla að fara og fá sér lögfræðing. Þá sagði okkar maður hinn rólegasti: „Já, það er komið hádegi og ég ætla bara að fá mér kjötbollur.“

Þegar Trausti lét af störfum sökum aldurs fór hann að keyra trailer hjá mér og var með mér fram á áttræðisaldur. Það var oft glatt á hjalla hjá okkur frændum. Ég mun minnast hans með gleði og þakklæti í hjarta. Niðjar Íslands munu minnast þín á meðan sól á kaldan jökul skín.

Pétur Óli Pétursson, Útkoti.