Oddvitar Forystukonur ríkisstjórnarinnar svara spurningum á blaðamannafundi eftir ríkisstjórnarfund í gær.
Oddvitar Forystukonur ríkisstjórnarinnar svara spurningum á blaðamannafundi eftir ríkisstjórnarfund í gær. — Morgunblaðið/Eyþór
Reglulegum ríkisstjórnarfundi var flýtt um dag og haldinn í gærmorgun, í og með til þess að fagna því að ríkisstjórnin hefði ríkt í 100 daga, en einnig til þess að koma málum inn í þingið í tæka tíð

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Reglulegum ríkisstjórnarfundi var flýtt um dag og haldinn í gærmorgun, í og með til þess að fagna því að ríkisstjórnin hefði ríkt í 100 daga, en einnig til þess að koma málum inn í þingið í tæka tíð.

Í stjórnmálum er oft litið á fyrstu 100 daga ríkisstjórnar sem „hveitibrauðsdaga“ en síðan taki hversdagsleiki stjórnmálanna við. Aðrir segja að það sé einmitt á þessum fyrstu 100 dögum, sem ríkisstjórnir komi málum sínum í verk, en eftir það nái stjórnmálamenn aðeins að halda í horfinu gagnvart kerfinu, ef það.

Það er hins vegar hæpið að tala um að ríkisstjórnin hafi átt nokkra hveitibrauðsdaga, því að jólahátíðinni slepptri hefur hvert vandræðamálið rekið annað hjá ríkisstjórninni, sem sérstaklega (en ekki einvörðungu) hefur mátt rekja til Flokks fólksins.

Af hinu sama leiðir að ríkisstjórnin hefur ekki komið miklu í verk til þessa. Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti snemma frumvarp um breytingar á verndar- og orkunýtingaráætlun, og í liðinni viku kynntu Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra frumvarp um breytingar á veiðigjöldum, en þá er það svo til upp talið.

Gríðarleg samstaða

Varla kemur á óvart að oddvitar stjórnarflokkanna líta stöðuna öðrum augum, eins og þær Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, röktu fyrir blaðamönnum á sérstökum blaðamannafundi í tilefni 100 daga afmælisins í gær.

Allar töluðu þær mikið um gríðarlega samstöðu stjórnarflokkanna og sérdeilis ánægjulegt samstarf. Kristrún vék sérstaklega að því hvað ríkisstjórninni hefði orðið mikið úr tímanum þessa fyrstu 100 daga; gengið hefði hratt og vel að afgreiða mál úr ríkisstjórninni og til þingsins.

Af alls 81 frumvarpi, sem hafi verið sett í þingmálaskrá stjórnarinnar, væru 70 þeirra komin til þingsins. Hún lét hins vegar vera að geta þess að vænan hluta þessara mála fékk stjórnin í arf frá fyrri ríkisstjórn.

„Það er stór dagur í dag, hundrað daga verkstjórn, og svona til marks um það þá hefur gengið alveg ofboðslega hratt og vel að afgreiða mál út úr ríkisstjórninni og inn í þingið,“ sagði forsætisráðherra. Hún sagði það til marks um hvað væri hægt að gera þegar ríkisstjórnin væri samhent, hefði „plan“ og legði áherslu á fyrirsjáanleika.

Á fundinum var farið hratt yfir fyrstu 100 dagana og þær áherslur sem birtust í nýkynntri fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem Kristrún sagði áætlun um öryggi og innviði landsins.

Ráðherrarnir svöruðu nokkrum spurningum blaðamanna, þar á meðal um vandræði í samstarfinu, óhóflega skamman frest til að gera athugasemdir við frumvörp og skort á fyrirsjáanleika, en þeir könnuðust ekki við neitt af því.

Höf.: Andrés Magnússon